Hoppa yfir valmynd
08. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 8. apríl 2021

Heil og sæl.

Vikan sem nú er að líða var ansi viðburðarík. Hvað dagskrá Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra varðar bar hæst tveggja daga fund Atlantshafsbandalagsins í Brussel sem lauk í gær.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, ávarpaði fundinn en auk hans tóku þátt utanríkisráðherrar frá nokkrum öðrum þjóðum sem eiga í samstarfi við Atlantshafsbandalagið.


„Þær hörmungar sem rússnesk stjórnvöld hafa nú þegar valdið eru ólýsanlegar og hugrekki úkraínsku þjóðarinnar við þessar aðstæður er aðdáunarvert. Fordæming bandalagsríkjanna og samstarfsríkjanna á aðgerðum Rússlands er eindregin og var mikill samhljómur um aukinn og tímanlegan stuðning við varnir Úkraínu,“ sagði ráðherra meðal annars í fréttatilkynningu. 

 Í framhaldi af þeim fundi hélt Þórdís Kolbrún á fund með Gabrielius Landsbergis utanríkisráðherra Litáen í Vilníus í dag.

Þar í borg hitti ráðherra fyrir Dalius Radis, ræðismann Íslands í Litaén, líkt og sendiráð okkar í Helsinki greindi frá í dag.

Öryggis og varnarmál, einkum í tengslum við innrás Rússlands í Úkraínu, og söguleg tengsl Íslands og Litháen, voru efst á baugi í þessari heimsókn ráðherra til þessarar vinaþjóðar okkar.  

Í gær samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að fella niður þátttökurétt Rússlands vegna setu þeirra í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í ljósi alvarlegra og kerfisbundinna mannréttindabrota í tengslum við stríðið í Úkraínu. Ísland var á meðal þeirra ríkja sem lögðu ályktunina fram í allsherjarþinginu.

„Ákvörðunin sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tók í dag gefur skýr skilaboð um að meiriháttar alvarleg og kerfisbundin mannréttindabrot af hálfu aðildarríkis mannréttindaráðsins, eins og við höfum séð í Úkraínu, verði ekki látin óátalin,“ segir Þórdís Kolbrún. „Þá ber Rússland, sem fastaríki í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, jafnframt aukna ábyrgð og skyldur til að fara að alþjóðalögum," sagði ráðhera enn fremur.


Úkraína var í brennidepli á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og á sameiginlegum fundi þeirra með utanríkisráðherra Frakklands sem fram fór í Berlín á þriðjudag. Þórdís Kolbrún tók þátt í fundunum með fjarfundarbúnaði. 

Á þriðjudag var jafnframt tilkynnt um 50 milljóna króna framlag íslenskra stjórnvalda til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) til að bregðast við álagi á innviði í Moldóvu vegna komu flóttamanna frá Úkraínu. 

Á mánudag var þess svo minnst að 73 ár væru liðin frá því að Atlantshafsbandalagið var formlega stofnað en Ísland var eitt af tólf stofnríkjum. 

 

Þá sögðum við einnig frá ávarpi Þórdísar Kolbrúnar á ársfundi Íslandsstofu sem fram fór fyrir viku síðan.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra Íslands í Washington sótti stóra norðurslóðaráðstefnu í Alaska í vikunni. Hún ritaði grein í aðdraganda ráðstefnunnar í Anchorage Daily News.

Í vikunni bauð Helga Hauksdóttir sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn til móttöku í tilefni af viðburðinum Dialoge on Design in Nordic Nature.

Þá lagði félag norræna heimilislækna leið sína í sendiráðið í Kaupmannahöfn í vikunni til að hlýða á kynningu á starfsemi utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins.

Sendiráð Íslands í Helsinki og Osló sögðu einnig frá viðburðum í tengslum við HönnunarMars Reykjavík sem fram fer 4.-8. maí næstkomandi. 

 



Nýverið tók Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra Íslands í Osló á móti Bård Titlestad frá forlaginu Saga Bok - Hele Norges Sagaforlag í sendiráðinu. 


Í Stokkhólmi hitti Hannes Heimisson sendiherra Ceciliu Brinck, forseta borgarstjórnar Stokkhólms.

Á Indlandi var Guðni Bragason sendiherra heiðursgestur á XXVI kaupstefnu Samtaka fyrirtækja í stoðtækjaframleiðslu (Orthotics and Prosthetics Association of India, OPAI) í borginni Góa á vesturströnd Indlands á dögunum.

Þá bauð hann félögum í Indó-íslensku viðskiptasamtökunum (IIBA) og mökum þeirra til kvöldverðar í sendiherrabústaðnum fyrir skemmstu í félagi við formann IIBA, Prasoon Dewan.

Í London sótti Sturla Sigurjónsson sendiherra fund starfsbróður síns frá Póllandi. 


Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra í Tókýó vakti athygli á viðburði norrænu sendiráðanna í Tókýó um kynjajafnrétti.


Þórir Ibsen átti fund með íslenskum ríkisborgurum í Shanghai sem eru þar í einangrun.

Á meðal þess sem er dagskrá ráðherra í næstu viku er utanríkisráðherrafundur Evrópusambandsríkjanna í Lúxemborg.

Meira var það ekki í bili.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta