Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 22. apríl 2022

Heil og sæl. 

Eitt og annað hefur verið á dagskrá í utanríkisþjónustunni síðustu tvær vikurnar. Hér að neðan er það helsta.

Í síðustu viku brá Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra sér á fund utanríkisráðherra Evrópusambandsins í Lúxemborg. Með Þórdísi Kolbrúnu á fundinum var einnig Anniken Huitfelt, utanríkisráðherra Noregs, en þær funduðu sömuleiðis tvíhliða með Josep Borrell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Ísland og Noregur hafa tekið virkan þátt í aðgerðum sambandsins gegn Rússlandi frá því að innrásin í Úkraínu hófst og því var utanríkisráðherrum ríkjanna boðið til fundarins til að ræða næstu skref. Þetta var í fyrsta skipti sem utanríkisráðherra Íslands er boðið að sækja formlegan fund utanríkisráðherraráðs ESB.

„Á fundinum gafst einstakt tækifæri til að ræða málin við okkar vinaþjóðir. Ég var þakklát boði Borrell sem sýnir hversu þétt við höfum staðið saman að undanförnu og hversu virk þátttaka okkar hefur verið í sameiginlegum viðbrögðum Evrópuríkja við stríðinu í Úkraínu,“ sagði Þórdís Kolbrún. „Við lítum á EES samninginn sem einn af hornsteinum okkar utanríkisstefnu og er því mikilvægt að rækta gott samstarf og samráð við ESB," sagði utanríkisráðherra enn fremur.

Á sama tíma náði varnaræfingin Norður-Víkingur 2022 hápunkti með æfingu landgönguliða í Hvalfirði þar sem tvær þyrlur og tveir svifnökkvar af bandaríska herskipinu USS Arlington fluttu bandaríska og breska landgönguliða í land við Miðsand.

Þórdís Kolbrún fundaði daginn eftir með Eugene Black aðmírál 6. flota bandaríska sjóhersins og Daniel W. Dwyer, yfirmanni herstjórnarmiðstöðvar Atlantshafsbandalagsins í Norfolk. Black var stjórnandi Norður-Víkings en Dwyer var þátttakandi í henni sem fulltrúi Atlantshafsbandalagsins. 

Í þessari viku hélt utanríkisráðherra til Washington þar sem hún fundaði með háttsettum embættismönnum í bandaríska stjórnkerfinu. Samstarf Íslands og Bandaríkjanna og áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu á öryggis- og varnarmál í Evrópu voru helst til umræðu.

Þórdís Kolbrún átti í fyrradag fund með Victoriu Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra sem ber ábyrgð á pólitískum málum og í gær fundaði hún með Dr. Colin Kahl aðstoðarvarnarmálaráðherra sem ber ábyrgð á stefnumótun. Þá var hún frummælandi á fundi hugveitunnar Wilson Center um áhrif ófriðarins í Úkraínu á Norðurslóðir.

Í dag var svo tilkynnt um að íslensk stjórnvöld muni veita alls 130 milljónum króna í sérstakan sjóð Alþjóðabankans í efnahagslega neyðaraðstoð við Úkraínu, eða því sem nemur alls einni milljón Bandaríkjadala. Þórdís Kolbrún tilkynnti um viðbótarframlag Íslands til sjóðsins á ráðherrafundi um stuðning við Úkraínu í gær sem haldinn var í tengslum við vorfundi Alþjóðabankans í Washington.

Þá samþykkti ríkisstjórn Íslands á fundi sínum í morgun tillögu forsætisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, dómsmálaráðherra, utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra um að fallast á útfærslu flóttamannanefndar um móttöku viðkvæmra hópa flóttafólks frá Úkraínu vegna þess ástands sem hefur skapast í landinu í kjölfar innrásar Rússlands.

Hvað ráðuneytið varðar segjum við hér að endingu frá fyrirætlun ráðgjafafyrirtækisins Intellecon ehf. og lögfræðistofunnar BBA//Fjeldco, með stuðningi við Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífs um þróunarsamvinnu, um að kanna möguleikann á fjölnýtingu jarðvarma við þurrkun á tei í Kenía í samstarfi við þarlenda aðila, Geothermal Development Company og Rosekey Foods. Nánar um það hér.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Í Kaupmannahöfn var hátíð Jóns Sigurðssonar haldin í Jónshúsi á sumardaginn fyrsta.

Í Helsinki hitti Elín Flygenring sendiherra fyrrverandi forseta Finnlands, Tarja Halonen, en Elín afhenti henni einmitt trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Finnlandi fyrir fjórtán árum.

Í London var íslenskur matur og ferðaþjónusta efst á baugi þegar hópur bresks fjölmiðlafólks sem fjalla um matargerð og ferðalög kom í íslenska sendiherrabústaðinn. Friðrik Sigurðsson, matreiðslumeistari utanríkisráðuneytisins, framreiddi lambakjöt, bleikju og skyr eins og honum einum er lagið.

Nikulás Hannigan aðalræðismaður Íslands í New York hitti á dögunum Óskar Jónsson, ræðismann Íslands í Phoenix, og kynnti sér staðhætti.

Nikulás ávarpaði sömuleiðis Taste of Iceland viðburð í Arizona þar sem afurðir íslenska líftæknifyrirtækisins Kerecis voru kynntar.

Um páskana var sýnd ferðasaga Rúriks Gíslasonar, fyrrverandi landsliðsmanns í knattspyrnu, og Jóhannesar Ásbjörnssonar, athafnamanns, um Malaví, þar sem þeir kynntu sér meðal annars þróunarsamvinnu Íslands í Malaví, en Rúrik er velgjörðarmaður SOS barnaþorpa. Á þessu vakti sendiráð okkar í Lilongwe athygli.

Guðni Bragason sendiherra á Indlandi sótti á dögunum fund í Goa þar sem tækifæri í matvæla- og drykkjariðnaðinum voru rædd.

Í París þakkaði fólk fyrir sig í bili á vettvangi mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Í Peking hefur sendiráðið haft í nógu að snúast líkt og sjá má á fréttaflutningi þess hér. Þar á meðal var fundur sendiherra NB8-ríkjanna með nýjum sendiherra Bandaríkjanna í Kína á dögunum. 

Okkar fólk í Washington er svo auðvitað hæstánægt að hafa utanríkisráðherra í heimsókn. Þórdís Kolbrún hefur sótt fjölmarga fundi síðustu daga eins og fram kom hér að ofan.

Í Brussel bauð Hermann Ingólfsson fastafulltrúi gagnvart Atlantshafsbandalaginu kollega sinn frá Kósovó velkominn.

Á dagskrá ráðherra í næstu viku eru áframhaldandi fundir í Bandaríkjunum, þar á meðal á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York.

Fleira var það ekki í bili. Við minnum svo að endingu á Heimsljós.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta