Hoppa yfir valmynd
13. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 13. maí 2022

Heil og sæl.

Eitt og annað hefur drifið á daga utanríkisþjónustunnar síðastliðnar tvær vikur. Hér er yfirlit yfir það helsta.

Í byrjun síðustu viku fundaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra með sendinefnd frá utanríkismálanefnd georgíska þingsins og Natela Menabde, sendiherra Georgíu gagnvart Íslandi. Tilefnið var að í ár eru þrjátíu ár frá því að Ísland og Georgía tóku upp formlegt stjórnmálasamband.

2. maí sögðum við frá því að utanríkisráðuneytið og Mannréttindaskrifstofu Íslands hefðu undirritað samstarfssamning sín á milli. Ráðuneytið og Mannréttindaskrifstofa hafa átt farsælt samstarf á sviði alþjóðlegra mannréttinda en samningurinn er sá sjötti sem ráðuneytið gerir við skrifstofuna og kveður á um samtals tólf milljón króna framlag á samningstímabilinu 2022-2024.

Þá var tilkynnt um reglubundna flutninga forstöðumanna sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni fyrr í mánuðinum.

5. maí sótti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra framlagaráðstefnu til stuðnings Úkraínu í Varsjá í Póllandi. Á ráðstefnunni tilkynnti forsætisráðherra um verulega aukin framlög Íslands til mannúðarmála og efnahagsaðstoðar til Úkraínu sem nema nú samtals 1 milljarði króna. 

Föstudaginn 6. maí ávarpaði Volodomír Zelenskí, forseti Úkraínu, Alþingi og íslensku þjóðina. Þetta er í fyrsta sinn sem erlendur þjóðhöfðingi ávarpar Alþingi og því um einstakan viðburð að ræða.

Föstudaginn 6. maí funduðu Ráðherrar og ráðuneytisstjórar Norðurlandanna með Martin Griffiths, framkvæmdastjóra hjá samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). Á fundinum var farið yfir alvarlega stöðu í mannúðarmálum á heimsvísu. Þörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri og ekki er útlit fyrir að hún minnki á næstunni. Áhrif stríðsins í Úkraínu á framlög til annarra ríkja í neyð, svo sem Afganistan, Sýrlands, Jemen, Eþíópíu og Sahel-svæðisins, var meginumræðuefni fundarins.

Á miðvikudag undirrituðu fulltrúar utaníkisráðuneytisins og Pólar toghlera ehf. samning um fjárstyrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu til að ráðast í undirbúningsverkefni í Kenía við að innleiða hringrásarhagkerfi og ný vinnubrögð við fiskveiðar og meðferð sjávarfangs. Samstarfsaðili er Kaldara Group ehf., auk heimamanna í Kenía.

Á miðvikudag funduðu varnarmálaráðherrar Norðurlandanna í Kirkenes í Norður-Noregi. Bryndís Kjartansdóttir skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu sat fundinn af Íslands hálfu. Sameiginleg yfirlýsing var gefin út af fundinum þar sem áhersla er lögð á mikilvægi samstöðu Norðurlandanna og norræns samstarfs í öryggis- og varnarmálum, sem ástæða er til að efla.

Í gær undirritaði Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu, fyrir Íslands hönd aðra viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot um aukið samstarf og upplýsingagjöf fyrir rafræn sönnunargögn. Yfirvöld á Íslandi hafa ekki farið varhluta af þessari þróun og því aukna flækjustigi sem öflun sönnunargagna yfir landamæri getur haft í för með sér fyrir meðferð sakamála, hvort sem þau eru til meðferðar í refsilögsögu Íslands eða annarra ríkja.

Í gær átti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fjarfund með utanríkisráðherra Indlands, dr. S. Jaishankar, í tilefni af 50 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna. Utanríkisráðherrarnir ræddu stöðu heimsmála, m. a. innrás Rússa í Úkraínu og hnattrænar afleiðingar hennar. Þá ákváður ráðherrarnir að efla samskipti landanna eftir tveggja ára stöðnun vegna COVID-19 ástandsins og nýta betur þá samninga og samstarfsyfirlýsingar, sem gerð hafa verið.

„Gagnkvæm samvinna um stafræna þróun og nýsköpun er mikilvæg, sagði Þórdís Kolbrún. „Indverjar hafa yfir mikilli tækniþekkingu og sérfræðingum að ráða, sem nýst getur Íslendingum.“

Í dag sögðum við frá því að íslensk stjórnvöld hafi tilkynnt um 60 milljóna króna viðbótarframlag á áheitaráðstefnu í vikunni um Sýrland. Heildarframlög íslenskra stjórnvalda í þágu sýrlensku þjóðarinnar á þessu ári og fram til ársloka 2024 nema 550 milljónum króna. Framlagsríki og alþjóða hjálparstofnanir gáfu fyrirheit um 6,7 milljónir Bandaríkjadala á ráðstefnunni sem haldin var í Brussel.

Þá að sendiskrifstofum Íslands.

Byrjum í Þýskalandi. Í lok apríl var í Bremerhaven opnuð sýningin Hafið – Reflections of the Sea sem nær yfir flest svið skapandi greina og fjöldi íslenskra listamanna taka þátt í. Verkin á sýningunni fjalla á ýmsan hátt um hafið, auk þess sem vörur unnar úr sjávarfangi eru til sýnis. Við opnun sýningarinnar komu fram íslenskir jazztónlistarmenn en María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín opnaði hana ásamt borgarstjóra Bremerhaven og ræðismanni Íslands í borginni sem jafnframt veitir Fischereihafen FBG, einum samstarfsaðilanum, forstöðu. Bakhjarlar sýningarinnar eru Eimskip, Icelandair, Íslandsstofa og Persons Projects.

Í Bandaríkjunum tók fastanefnd Íslands í New York við gullvottun fyrir innleiðingu sjálfbærra starfshátta á skrifstofunni á þriðjudaginn. 

Í Kanada tók Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands, á móti hópi frá samtökum kanadísks sjávarútvegs.

 

Í London stóð sendiráðið fyrir viðburði þar sem frumkvöðlar og fyrirtæki í sjávarútvegi frá Íslandi og Bretlandi voru leidd saman til að ræða fullnýtingu sjávarafla.

 

Í Stokkhólmi var „íslensk veisla fyrir öll skilningarvitin“ á Market Art Fair listkaupstefnunni þar sem sérstök áhersla var á Ísland. 

 

Í Nýju Delí sótti Guðni Bragason sendiherra Aahar matar- og veitingahátíðina og hitti íslenska kokkinn Gissur Guðmundsson og viðskiptafélaga hans. 

 

Sendiherra Íslands í Japan, Stefán Haukur Jóhannesson, heimsótti Hiroshima í vikunni. Þar átti hann fund með borgarstjóranum, heimsótti háskóla borgarinnar og friðarsafn Hiroshima þar sem hann ræddi við eftirlifanda kjarnorkusprengingarinnar og lagði blómvönd að minnisvarða um fórnarlömbin.

 

Fleira var það ekki að sinni. Við minnum svo að endingu á Heimsljós.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild og áfram Systur!


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta