Föstudagspósturinn 20. maí 2022
Heil og sæl.
Eins og svo oft áður var nóg um að vera hjá utanríkisþjónustunni í vikunni. Óhætt er að segja að um sögulega tíma sé að ræða hvað öryggis- og varnarmál varðar og við byrjum einmitt á þeim vettvangi.
Í byrjun vikunnar sótti utanríkisráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir óformlegan fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Berlín. Efst á baugi voru aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar, staðan í Úkraínu og undirbúningur fyrir leiðtogafund bandalagsins í Madríd. Þórdís Kolbrún sagði ríka samstöðu bandalagsríkja hafa einkennt fundinn, sem haldinn var með óformlegu sniði í fyrsta sinn.
„Almennt er mikill stuðningur við að tryggja að hratt verði gengið frá aðild Finna og Svía ef og þegar umsókn berst. Þar skiptir máli að ríkin hafa bæði átt í langvinnu samstarfi við Atlantshafsbandalagið og eru bæði dæmi um samfélög þar sem helstu sameiginlegu gildum aðildarríkjanna er haldið á lofti,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Þórdís Kolbrún átti auk þess tvíhliða fundi í Berlín með utanríkisráðherrum Ítalíu, Hollands, Portúgals, Eistlands og Lettlands.
Í kjölfarið dró svo til tíðinda og bæði Finnland og Svíþjóð tilkynntu um ákvörðun sína að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs voru fljótir til að ítreka stuðning sinn við ákvörðunina með sameiginlegri yfirlýsingu á mánudag og Þórdís Kolbrún bauð finnska og sænska kollegum sínum velkomna í bandalagið.
With 🇸🇪 and 🇫🇮 as members @NATO will be stronger and more secure. They are beacons of democracy, individual liberty and the rule of law. They also add defensive strength. @AnnLinde and @Haavisto - welcome friends. pic.twitter.com/mHMMRezOtH
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) May 17, 2022
Á þriðjudag var alþjóðadagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks. Af því tilefni var regnbogafáninn dreginn að húni fyrir framan utanríkisráðuneytið og tilkynnt var að árlegur samráðsfundur IDAHOT+ Forum yrði haldinn á Íslandi í maí 2023 í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Um er að ræða samráð evrópskra ríkisstjórna, aðgerðasinna, borgaralegs samfélags og annarra hagsmunaaðila til að meta framgang réttinda hinsegin fólks í álfunni. Fundurinn er haldinn árlega í kringum alþjóðadag gegn fordómum gagnvart hinsegin fólki (IDAHOT) þann 17. maí.
Today is International Day against #LGBTIQ+ discrimination. Everyone is deserving of their human rights and fundamental freedoms. Hate, discrimination and violence can never be tolerated. Diversity is strength and all the colors of the🌈are beautiful.🏳️🌈🏳️⚧️#IDAHOBIT2022 #IDAHOT pic.twitter.com/izJle9xAfe
— MFA Iceland 🇮🇸 (@MFAIceland) May 17, 2022
Í dag ávarpaði utanríkisráðherra árlegan ráðherrafund Evrópuráðsins sem fram fer í Tórínó á Ítalíu. Lagði hún áherslu á hlutverk Evrópuráðsins við að efla grunngildi stofnunarinnar, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Þá áréttaði hún mikilvægi þess að Evrópa standi saman í stuðningi við Úkraínu og ítrekaði stuðning íslenskra stjórnvalda við úkraínsku þjóðina. Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022 og verður gestgjafi fundarins á næsta ári.
Þórdís Kolbrún átti einnig tvíhliða fundi með forseta Evrópuráðsþingsins og kollegum frá Andorra, Bretlandi, Írlandi, Möltu og Serbíu.
Í dag útskrifaði Jafnréttisskóli GRÓ 23 sérfræðinga frá 15 löndum. Þetta var 14. hópurinn sem útskrifast frá skólanum frá upphafi og hafa nú alls 195 lokið námi við skólann. Jafnréttisskólinn er einn fjögurra skóla sem reknir eru á vegum GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu sem er starfar undir merkjum UNESCO.
Þá að sendiskrifstofum okkar.
Í Brussel tók Kristján Andri Stefánsson sendiherra og eiginmaður hans Davíð Samúelsson þátt í regnbogamyndatöku við belgíska utanríkisráðuneytið í tilefni af alþjóðadegi gegn fordómum í garð hinsegin fólks.
Í Helsinki var utanríkismálanefnd Alþingis í heimsókn í vikunni en nefndin heimsótti einnig höfuðborg Eistlands, Tallinn.
Í Lilongwe hélt sendiráð Íslands viðburð fyrir fyrrum nemendur GRÓ skólanna í Malaví. Alls hafa 59 nemendur frá Malaví útskrifast úr sex mánaða þjálfun skólanna fjögurra á Íslandi á sviði jafnréttis, jarðhita, landgræðslu og sjávarútvegs.
Í vikunni heimsóttu Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra í Ósló og Eva Mjöll Júlíusdóttir viðskiptafulltrúi Guðbrandsdalinn þar sem hjónin Eivind Slettemeås og Anna Marie Sigmond Gudmundsdóttir tóku vel á móti þeim í sögulegu húsi Harpefoss Hotell og á glæsilegri vinnustofu Önnu. Fjölmargar myndir úr þessari skemmtilegu heimsókn má sjá á Facebook-síðu sendiráðs Íslands í Ósló.
Sendiráð Íslands í Moskvu sinnir, auk Rússlands, níu öðrum ríkjum, m.a. ríkjunum fimm í mið-Asíu. Í vikunni hittust Árni Þór Sigurðsson sendiherra og Davlatshokh K. Gulmakhmadzoda sendiherra Tadsíkistan í Moskvu. Auk þess að ræða almennt samskipti landanna var megin umræðuefnið þær áskoranir sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér
Sendiherra Íslands á Indlandi, Guðni Bragason, og ferðamálafulltrúi sendiráðsins, Deepika Sachdev, sóttu í vikunni fyrstu stóru ferðaþjónusturáðstefnuna sem haldin hefur verið á Indlandi síðan heimsfaraldurinn hófst.
Að lokum lagði sendiráð Íslands í Stokkhólmi hönd á plóg við að stuðla að auknu samstarfi milli Íslands og Svíþjóðar í rannsóknum í heilbrigðisvísindum.
Fleira var það ekki í bili.
Endum þennan föstudagspóst á skemmtilegri kynningarherferð Íslandsstofu sem býður manni að „úthesta“ sjálfvirkum tölvupóstsvörum á meðan á sumarfríinu stendur.
Does your boss REALLY think you read work email on vacation? Thankfully, Iceland’s horses will reply so you can relax😌
— Inspired by Iceland (@iceland) May 19, 2022
Visit https://t.co/B3B5vCxnWu to try it!#OutHorseYourEmail #VisitIceland #InspiredByIceland pic.twitter.com/OcSqmkM29s
Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.