Hoppa yfir valmynd
20. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 20. maí 2022

Heil og sæl.

Eins og svo oft áður var nóg um að vera hjá utanríkisþjónustunni í vikunni. Óhætt er að segja að um sögulega tíma sé að ræða hvað öryggis- og varnarmál varðar og við byrjum einmitt á þeim vettvangi.

Í byrjun vikunnar sótti utanríkisráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir óformlegan fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Berlín. Efst á baugi voru aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar, staðan í Úkraínu og undirbúningur fyrir leiðtogafund bandalagsins í Madríd. Þórdís Kolbrún sagði ríka samstöðu bandalagsríkja hafa einkennt fundinn, sem haldinn var með óformlegu sniði í fyrsta sinn.

„Almennt er mikill stuðningur við að tryggja að hratt verði gengið frá aðild Finna og Svía ef og þegar umsókn berst. Þar skiptir máli að ríkin hafa bæði átt í langvinnu samstarfi við Atlantshafsbandalagið og eru bæði dæmi um samfélög þar sem helstu sameiginlegu gildum aðildarríkjanna er haldið á lofti,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Þórdís Kolbrún átti auk þess tvíhliða fundi í Berlín með utanríkisráðherrum Ítalíu, Hollands, Portúgals, Eistlands og Lettlands.

Í kjölfarið dró svo til tíðinda og bæði Finnland og Svíþjóð tilkynntu um ákvörðun sína að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs voru fljótir til að ítreka stuðning sinn við ákvörðunina með sameiginlegri yfirlýsingu á mánudag og Þórdís Kolbrún bauð finnska og sænska kollegum sínum velkomna í bandalagið.

 

Í Helsinki var utanríkismálanefnd Alþingis í heimsókn í vikunni en nefndin heimsótti einnig höfuðborg Eistlands, Tallinn.

 

Í Lilongwe hélt sendiráð Íslands viðburð fyrir fyrrum nemendur GRÓ skólanna í Malaví. Alls hafa 59 nemendur frá Malaví útskrifast úr sex mánaða þjálfun skólanna fjögurra á Íslandi á sviði jafnréttis, jarðhita, landgræðslu og sjávarútvegs. 

 

Í vikunni heimsóttu Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra í Ósló og Eva Mjöll Júlíusdóttir viðskiptafulltrúi Guðbrandsdalinn þar sem hjónin Eivind Slettemeås og Anna Marie Sigmond Gudmundsdóttir tóku vel á móti þeim í sögulegu húsi Harpefoss Hotell og á glæsilegri vinnustofu Önnu. Fjölmargar myndir úr þessari skemmtilegu heimsókn má sjá á Facebook-síðu sendiráðs Íslands í Ósló. 

Sendiráð Íslands í Moskvu sinnir, auk Rússlands, níu öðrum ríkjum, m.a. ríkjunum fimm í mið-Asíu. Í vikunni hittust Árni Þór Sigurðsson sendiherra og Davlatshokh K. Gulmakhmadzoda sendiherra Tadsíkistan í Moskvu. Auk þess að ræða almennt samskipti landanna var megin umræðuefnið þær áskoranir sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér

Sendiherra Íslands á Indlandi, Guðni Bragason, og ferðamálafulltrúi sendiráðsins, Deepika Sachdev, sóttu í vikunni fyrstu stóru ferðaþjónusturáðstefnuna sem haldin hefur verið á Indlandi síðan heimsfaraldurinn hófst.

 

Að lokum lagði sendiráð Íslands í Stokkhólmi hönd á plóg við að stuðla að auknu samstarfi milli Íslands og Svíþjóðar í rannsóknum í heilbrigðisvísindum.

 

Fleira var það ekki í bili.

Endum þennan föstudagspóst á skemmtilegri kynningarherferð Íslandsstofu sem býður manni að „úthesta sjálfvirkum tölvupóstsvörum á meðan á sumarfríinu stendur. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta