Hoppa yfir valmynd
10. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 10. júní 2022

Heil og sæl.

Margt hefur drifið á daga utanríkisþjónustunnar síðan síðasti föstudagspóstur kom út fyrir tveimur vikum.

Varnarmálaráðherrafundur Norðurhópsins var haldinn í Reykjavík fyrr í þessari viku, þriðjudaginn og miðvikudaginn 7. og 8. júní. Á þriðjudeginum átti utanríkisráðherra tvíhliða fund með varnarmálaráðherra Bretlands, Ben Wallace. Samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum og sameiginlegir öryggishagsmunir ríkjanna voru meginefni fundarins.

„Bretland er öflugt bandalagsríki sem býr yfir mikilli varnargetu og -viðbúnaði sem er mjög þýðingarmikill fyrir sameiginlegar varnir Atlantshafsbandalagsins. Bresk stjórnvöld hafa staðið sig vel í viðbrögðum sínum við innrásinni í Úkraínu og hafa átt um þau náið samráð við okkur og aðrar líkt þenkjandi vinaþjóðir,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Í tengslum við varnarmálaráðherrafundinn stóðu Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Varðberg, utanríkisráðuneytið og sendiráð Bretlands á Íslandi fyrir málstofu um varnar- og öryggismál á Hilton Reykjavík Nordica þar sem þau Þórdís Kolbrún og Ben Wallace fluttu erindi og svöruðu spurningum áheyrenda.

Þá undirrituðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, samkomulag um aukið samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum.

Á miðvikudagsmorgun fór hinn eiginlegi ráðherrafundur fram. Staða og horfur í öryggismálum Norður-Evrópu voru í forgrunni umræðna og sérstaklega viðbrögð við innrás Rússlands í Úkraínu og áhrif hennar og afleiðingar til lengri tíma litið. Sameiginleg yfirlýsing var gefin út af fundinum þar sem fordæming ráðherranna á innrás Rússlands er undirstrikuð og samstaða andspænis þeirri ógn sem innrásin hefur skapað fyrir öryggi Evrópu og Norður-Atlantshafssvæðisins. Einnig heimsóttu ráðherrarnir öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og kynntu sér varnarinnviði þar. Á Flickr-síðu utanríkisráðuneytisins er fjöldi ljósmynda frá fundi Norðurhópsins og viðburðum honum tengdum. 

Í tengslum við fund Norðurhópsins var Artis Pabriks, varaforsætisráðherra og varnarmálaráðherra Lettlands, í opinberri heimsókn hér á landi í vikunni. Breytt staða öryggismála var meginefni fundar ráðherrans með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í gær. Í gær flutti ráðherrann erindi á málþingi á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, breska sendiráðsins og Varðbergs, þar sem sjónum var beint að nýjum öryggisáskorunum út frá sjónarhóli smáríkja í Norður-Evrópu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hélt opnunarávarp, eistneski netöryggissérfræðingurinn Marle Maigre flutti erindi, og pallborðsumræður fylgdu í kjölfarið.

Á miðvikudag sögðum við frá viðkomu fastaflota Atlantshafsbandalagsins á Íslandi. Flotinn er á leiðinni á kafbátaleitaræfingu bandalagsins, Dynamic Mongoose 2022, sem fer að mestu leyti fram á hafsvæðinu við Noreg. Skipin koma hingað til lands til að stilla saman strengi fyrir æfinguna og sinna lokaundirbúningi áður en þau halda áfram til æfingarsvæðisins 13. júní.

Í dag sögðum við frá niðurstöðum könnunar Maskínu um utanríkismál og alþjóðasamstarf sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið. Í henni kemur meðal annars fram að rúm 77 prósent landsmanna telja hagsæld Íslands byggjast að miklu leyti á alþjóðlegri samvinnu. 

„Það er afskaplega ánægjulegt að sjá að þorri landsmanna segist jákvæður í garð alþjóðastofnana og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Sem sjálfstæð og fullvalda ríki á Ísland allt undir þróttmikilli samvinnu við önnur ríki, hvort heldur á pólitíska sviðinu eða viðskiptasviðinu. Niðurstöður könnunarinnar sýna svart á hvítu að þjóðin er sammála því,“ segir utanríkisráðherra.

Í vikunni var greint frá yfirlýsingu sjö aðildarríkja Norðurskautsráðsins, þ.e. Norðurlandanna, Kanada og Banadaríkjanna, um ákvörðun ríkjanna varðandi þátttöku í rannsóknaverkefnum á vegum vinnuhópa Norðurskautsráðsins. Í yfirlýsingunni er tilkynnt um þá sameiginlegu ákvörðun að hefja aftur þátttöku í þeim verkefnum sem Rússland tekur ekki þátt í.

Síðastliðinn mánudag bárust þær fregnir frá New York að Bragi Guðbrandsson hafi hlotið endurkjör í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins til næstu fjögurra ára á fundi aðildarríkja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (e. Committee on the Rights of the Child) sér um að fylgjast með framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og bókana við hann. Nefndin er skipuð átján sjálfstæðum, óháðum sérfræðingum, sem kosnir eru til fjögurra ára í senn.

Á þriðjudag tók utanríkisráðherra á móti Netumbo Nandi-Ndaitwah aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Namibíu. Á fundi þeirra Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur voru samskipti ríkjanna, fæðuöryggi og staða og horfur í heimsmálum meðal annars til umræðu. Ráðherrarnir ræddu líka Samherjamálið sem er til rannsóknar í báðum löndum. Þá heimsótti namibíski ráðherrann einnig Landgræðsluskóla GRÓ að Keldnaholti sem er einn fjögurra skóla sem reknir eru af GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu en nemendur skólans eru margir hverjir frá Afríkuríkjum.

Sama dag var þingsályktunartillaga utanríkisráðherra samþykkt á Alþingi sem heimilar ríkisstjórn Íslands að staðfesta aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu.

30. maí sögðum við frá fundi norrænna þróunarsamvinnuráðherra með Audrey Azoulay, framkvæmdastjóra UNESCO. Utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tilkynnti á fundinum um aukið framlag Íslands til uppbyggingar frjálsrar fjölmiðlunar í þróunarríkjum. Norðurlönd og UNESCO eiga árlegt samráð um þróunarsamvinnutengt starf stofnunarinnar en Norðurlöndin eru einn virkasti ríkjahópurinn innan UNESCO og meðal stærstu framlagsríkja.

1. júní hlaut utanríkisráðuneytið viðurkenningu fyrir að hafa innleitt fimmta og síðasta skref grænna skrefa í ríkisrekstri. Hjördís Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, afhenti Martin Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra viðurkenninguna í utanríkisráðuneytinu. 

Þá að sendiskrifstofum okkar.

Byrjum á sendiráði Íslands í París. Unnur Orradóttir Ramette sendiherra afhenti Filippusi sjötta Spánarkonungi trúnaðarbréf við hátíðlega athöfn á mánudag en Spánn er á meðal umdæmisríkja sendiráðsins í París.

 

Í byrjun vikunnar fór fram OECD ráðherrafundur félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ráðherra fundaði líka með varaframkvæmdastjóra UNESCO, fulltrúum OECD í félags- og vinnumarkaðsmálum og kynnti sér verkefni franskra stjórnvalda vegna atvinnuþátttöku fatlaðs fólk og móttöku flóttafólks frá Úkraínu.

Seinni hluta viku fór fram árlegur ráðherrafundur OECD sem Unnur Orradóttir Ramette, fastafulltrúi, sat fyrir Íslands hönd. Þar var horft var til framtíðar í stefnumótun sem tryggir sjálfbæra framtíð fyrir næstu kynslóð.

Í Þýskalandi stóð sendiráð Íslands fyrir viðburðum í Bremerhaven í tengslum við íslensku listasýninguna hafið - Reflections of the Sea.

Þá var opnuð sýning Huldu Rósar Guðnadóttur í sendiherrabústaðnum í Berlín í síðustu viku og dagana 8.-11. júní fer hátíðin Taste of Iceland fram í Berlín.

Sendiherra Íslands í Brussel tók þátt í ráðstefnu um samstarf Evrópuþjóða í Kristiansand í Noregi.

Í Helsinki bauð sendiherra Íslands, Elín Flygenring, til móttöku í tilefni af útgáfu rithöfundarins Satu Rämö á íslensk-finnskri glæpasögu sem nefnist Hildur.

Í Kaupmannahöfn var jómfrúarflugi nýs íslensks flugfélags, Niceair, frá Akureyri fagnað með móttöku og kynningu á Norðurlandi fyrir danska ferðaþjónustuaðila.

Þá var 40 ára samstarfsafmæli rithöfundarins Einars Más Guðmundssonar og dansks þýðanda hans, Erik Skyum-Nielsen, fagnað með sérstöku hátíðarkvöldi á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn.

Í Malaví styður Ísland við 12.000 nemendur og 1.500 bændur í Mangochi héraði með framlögum til verkefnis Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna um heimaræktaðar skólamáltíðir.

Í London var mikið um dýrðir í tilefni af 70 ára krýningarafmæli Elísabetar II drottningar. Sendiráð Íslands tók ásamt öðrum sendiskrifstofum í Bretlandi þátt í að fagna þessum tímamótum.

Í gær opnaði Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London, svo sýningu á skopmyndum úr dagblöðum um fyrsta og annað Þorskastríðið í Grimsby.

Á Indlandi var 50 ára stjórnmálasambandi Íslands og Indlands fagnað í Mumbai. Guðni Bragason sendiherra fundaði með fylkisstjóra Maharashtra-fylkis, ávarpaði Indian Merchant Chamber of Commerce & Industry (IMC) í Mumbai og opnaði hluta af alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Mumbai þar sem íslenskar teiknimyndir voru sýndar.

Í Osló var Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra sæmd stórkrossi hinnar konunglegu norsku þjónustuorðu fyrir embættisstörf í þágu samskipta Íslands og Noregs.

Í Kanada sótti nýr aðalræðismaður Íslands í Winnipeg, Vilhjálmur Wiium, ráðstefnu sambands kanadískra sveitarfélaga.

Í Peking fundaði sendiherra Íslands, Þórir Ibsen, með aðstoðarskrifstofustjóra Evrópumála í kínverska utanríkisráðuneytinu, Hr. Zheng Huiyu. Ræddu þeir meðal annars stjórnmála- og efnahagstengsl ríkjanna, borgaraþjónustumál, umhverfismál og samstarf í vísindum. Þá var staðan í Evrópu í kjölfar árásarstríðs Rússlands einnig til umræðu. 

Þá var Þórir prófdómari í BA ritgerðavörn íslenskunema við Beijing Foreign Studies University í lok maí mánaðar.

Við minnum á Heimsljós, upplýsingaveitu um þróunar- og mannúðarmál. Fleira var það ekki í bili.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta