Hoppa yfir valmynd
24. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 24. júní 2022

Verkefni utanríkisþjónustunnar hafa verið mörg og fjölbreytt undanfarnar tvær vikur og því af nógu að taka í föstudagspósti vikunnar.

Byrjum á vikunni sem er að líða.

Á mánudaginn komu ráðherrar, þingmenn og samstarfsaðilar aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) saman til árlegs sumarfundar í Borgarnesi. Áskoranir sem alþjóðaviðskiptakerfið stendur frammi fyrir vegna afleiðinga heimsfaraldursins og innrásar Rússlands í Úkraínu og yfirstandandi fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna voru efst á baugi. Þá var fríverslunarviðræðum við Taíland og Kósovó ýtt úr vör.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum sem markar lok eins árs formennsku Íslands í EFTA samstarfinu.

„Það var afar ánægjulegt og mikilvægt að ná að hitta fulltrúa hinna EFTA-ríkjanna,“ segir Þórdís Kolbrún. „Á tímum sívaxandi alþjóðlegrar óvissu, og vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, er mikilvægt að standa vörð um EFTA samstarfið og skuldbindingar okkar til að vinna saman að friði og opnum utanríkisviðskiptum.“

Sjá má svipmyndir frá fundinum á Facebooksíðu ráðuneytisins.

Á mánudag var einnig tilkynnt um sérstakt fjárframlag til Evrópuráðsins í tilefni af formennsku Íslands í ráðinu sem hefst í nóvember nk. og tengist formennskuáherslum Íslands. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tilkynnti um framlagið á fundi með Marija Pejčinović Burić, aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

Á miðvikudag var sagt frá því að ráðist verði í sérstakt lestrarátak og menningarkynningu í tengslum við þátttöku Íslands á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu sem fram fer á Englandi síðar í sumar. Tónlistarfólkið JóiPé og Króli, DJ Dóra Júlía og gugusar munu spila á stuðningsmannasvæðum fyrir leiki Íslands. Þar að auki mun rithöfundurinn Kristín Ragna Gunnarsdóttir verða með ritsmiðju fyrir börn.

Þá sögðum við frá því að fimm íslensk fyrirtæki á sviði heilbrigðistækni, jarðhitatækni og fiskveiða hljóta styrki úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu vegna verkefna í Djíbútí, Eþíópíu, Indlandi, Víetnam og Úkraínu. Fyrirtækin eru MAR Advisors, Össur, RetinaRisk, Verkís og Reykjavik Geothermal.

„Það er afar ánægjulegt að sjá íslensk fyrirtæki tefla fram hugviti, sérþekkingu og fjármagni til að styðja við sjálfbæra þróun, aukna hagsæld og atvinnutækifæri í fátækustu og stríðshrjáðustu löndum heims. Íslenskt atvinnulíf hefur heilmikið fram að færa þegar kemur að þróunarsamvinnu, eins og þessi verkefni sýna svo glöggt,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra af þessu tilefni.

Í dag var svo sagt frá því að forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle hafa endurnýjað samkomulag um samstarf til ársloka 2026. Samkvæmt samkomulaginu styrkja íslensk stjórnvöld þing Hringborðs Norðurslóða í Hörpu um 15 milljónir króna árlega á samningstímanum. Þar að auki styrkja ráðuneytin viðburð fyrir þátttakendur þingsins um allt að 5 milljónir króna.

Þá að síðustu viku.

Mánudaginn 13. júní sögðum við frá ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem fram fór í Genf dagana 12. til 15. júní. Utanríkisráðherra flutti ávarp á opnunardegi fundarins um helstu áskoranir sem alþjóðaviðskiptakerfið stendur frammi fyrir. Fordæmdi hún innrás Rússlands í Úkraínu og sagði hana meginorsök þeirrar fæðuöryggiskrísu sem heimurinn stendur nú frammi fyrir.

„Rússland ber eitt ábyrgð á þessari krísu með því að halda matvælabirgðum sem gætu fætt milljónir manna í þróunarríkjum í gíslingu,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars.

Þá sótti ráðherra samstöðuviðburð með Úkraínu á hliðarlínum ráðherrafundarins og fundaði, ásamt fulltrúum annarra EFTA ríkja, með varaviðskiptaráðherra Úkraínu, Taras Kachka.

Dagana 14. og 15. júní fór fundur varnarmálaráðherra þátttökuríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force, JEF) fram í Osló. Bryndís Kjartansdóttir skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu sat fundinn af Íslands hálfu. Sameiginleg yfirlýsing var gefin út af fundinum þar sem stuðningur ríkjanna við aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu er undirstrikaður og vilji þeirra til að efla samstarf á vettvangi JEF.

Árlegur fundur utanríkisráðherra Afríkuríkja og Norðurlanda fór fram í Helsinki 14. júní. Friðar- og öryggismál, þar á meðal áhrif stríðsins í Úkraínu, sjálfbær samfélög, baráttan við loftlagsbreytingar og aukið samstarf Norðurlanda og Afríkuríkja í alþjóðakerfinu voru meðal helstu umræðuefna ráðherranna. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti fundinn.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti varnarmálaráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í Brussel dagana 15. og 16. júní. Varnarbarátta Úkraínu gegn stríðsrekstri Rússlands og áhrif þess á öryggisumhverfi Evró-Atlantshafssvæðisins, stuðningur bandalagsríkja við Úkraínu og efling fælingar og varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins voru meginefni fundarins.

„Ákvörðun Pútíns að beita innrásarher sínum af fullum þunga til að hernema sjálfstætt og fullvalda grannríki er ólíðandi framferði. Ég lýsti á fundinum yfir aðdáun yfir baráttuþreki og hugrekki úkraínsku þjóðarinnar í varnarbaráttu sinni fyrir frelsi, fullveldi og framtíð landsins.  Eining og öflugur samhljómur var um aukinn og tímanlegan stuðning bandalagsríkja og samstarfsríkja við varnir Úkraínu og á fundinum ítrekaði ég staðfestu íslenskra stjórnvalda um áframhaldandi aðstoð,“ sagði utanríkisráðherra.

Þá að sendiskrifstofum okkar erlendis.

Við byrjum í Peking. Í dag átti sendiherra Íslands, Þórir Ibsen, fjarfund með CHEN Ning, varaskrifstofustjóra alþjóðaviðskipta og efnahagsmála í kínverska fjármála- og viðskiptaráðuneytinu. Meðal umræðuefna voru tvíhliðaviðskipti og fríverslunarsamningur ríkjanna, tollamál, upprunareglur, ferðamennska og neikvæð áhrif COVID takmarkana á viðskipti.

Sendiherra Íslands í Berlín, María Erla Marelsdóttir, sótti e-World 2022 kaupráðstefnuna í Essen og kynnti sér bása íslenskra fyrirtækja í orkugeiranum og tengdum greinum. Íslensku fyrirtækin sem kynntu sérþekkingu sína á ráðstefnunni voru Landsvirkjun, Orka náttúrunnar, HS Orka, EFLA, Pure North, SideWind og Svarmi. Þá hitti María Erla borgarstjórann Thomas Kufen og framkvæmdastjóra ráðstefnunnar, Stefanie Hamm.

Fimmtudaginn 9. júní var haldin móttaka í sendiherrabústaðnum í Berlín í tengslum við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, sem verða veitt í Reykjavík síðar á þessu ári. Þar mættust aðilar úr tónlistar- og kvikmyndageiranum ásamt Kvikmyndamiðstöð Íslands, Film in Iceland og Record in Iceland. Hermigervill sá fyrir góðri stemningu og meistarakokkurinn Viktor Örn Grétarsson eldaði fyrir gesti. Móttakan var haldin í bland við Taste of Iceland, sem fór fram í Berlín dagana 8.-11. júní síðastliðin og var það í fyrsta sinn sem hún er haldin á meginlandi Evrópu.

Sendiráð Íslands í Brussel sagði frá því í vikunni að viðræður við Evrópusambandið um næsta tímabil Uppbyggingarsjóðs evrópska efnahagssvæðisins væru hafnar. Fulltrúi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í sendiráðinu í Brussel bauð til reglulegs fundar fulltrúa Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Um var að ræða undirbúningsfund fyrir fund umhverfisráðherra ESB ríkjanna sem haldinn verður í næstu viku. Þá tók Ísland við formennsku í vinnunefnd EFTA í samgöngumálum og var Sigurbergur Björnsson kjörinn nýr formaður nefndarinnar.

Sendiherra Íslands í Helsinki, Elín Flygenring, fór í vinnuheimsókn til Tallinn í síðustu viku og fundaði með fulltrúum eistneska utanríkisráðuneytisins. Á þjóðhátíðardaginn 17. júní sótti Elín svo opnun nýrra húsakynna kjörræðismanns Íslands í Vilníus í Litáen og flutti opnunarávarp á viðburðinum Takk Ísland sem haldinn er árlega til að þakka Íslandi fyrir að hafa fyrst allra ríkja viðurkennt sjálfstæði Litáen árið 1991.

Í Úganda sóttu fulltrúar sendiráðs Íslands fund stýrinefndar samstarfshéraðs Íslands í þróunarsamvinnu, Namayingo. Fundurinn fór fram í nýrri byggingu menntamálaskrifstofu héraðsins sem var byggð í samstarfi við íslensk stjórnvöld. Þá tók fulltrúi sendiráðsins þátt í afhendingu nýrrar skólabyggingar sem byggð var fyrir tilstuðlan þróunarsamvinnu Íslands og Úganda.

Í Kaupmannahöfn tekur sendiráð Íslands þátt í framtaki sendiráðs Bretlands „Ambassador for a Day“ sem hefur það að markmiði að hvetja ungar stúlkur til að sækja sér leiðtogahlutverk og vera óhræddar við að láta til sín taka. Hin 16 ára Laura Leivsdóttir Christensen mun stíga í fótspor sendiherra Íslands næstu mánuði og kynnast störfum sendiráðsins.

Í Malaví var sérstök miðstöð til meðhöndlunar á fæðingarfistli afhent héraðsspítalanum í Mangochi-héraði. Miðstöðin var fjármögnuð af íslenski þróunarsamvinnu og útbúin af Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna.

Í London var þjóðhátíðarmessa haldin síðustu helgi og kaffiboð að henni lokinni.

Sendiráð Íslands í Moskvu tók þátt í orkuráðstefnunni Hydropower Central Asia and Caspian í Dushanbe í Tadsíkistan í mánuðinum. Þá átti Árni Þór Sigurðsson sendiherra fjarfund með yfirmanni Evrópumála í utanríkisráðuneytinu í Úsbekistan, Aybek Shakhavdinov, og sendiherra Úsbekistan gagnvart Íslandi, Said Rustamov.

Íslendingar í New York fögnuðu þjóðhátíðardeginum í Central Park.

Sendiherra Íslands í Kanada, Hlynur Guðjónsson, sótti Global Energy Show 2022 í Alberta fyrr í mánuðinum. Þá bauð sendiherrann til þjóðhátíðarfagnaðar í sendiherrabústaðnum í Ottawa og að sjálfsögðu var hægt að fá eina með öllu.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Osló heimsóttu Hardangervidda NasjonalparksenterÞá bauð sendiherra Íslands í Noregi, Ingibjörg Davíðsdóttir, til móttöku í embættisbústaðnum í tilefni af Norrænu matvælaverðlaunanna EMBLA.

Íslenskar kvikmyndir, þáttagerð, tónlist, bókmenntir og matargerðarlist verða í aðalhlutverki íslensku vikunnar í París „La semaine islandaise“ sem var opnuð í gær. Þetta er stærsta íslenska menningarhátíðin sem haldin hefur verið í Frakklandi frá árinu 2004.

Í Japan heimsótti sendiherra Íslands, Stefán Haukur Jóhannesson, Tama City og kynnti land og þjóð.

Sendiráð Íslands í Washington tók þátt í gleðigöngunni þar í borg fyrr í mánuðinum.

Í Winnipeg tók aðalræðisskrifstofan á móti sendinefnd frá Félagi kvenna í atvinnulífinu og á 17. júní var þjóðhátíðardeginum rækilega fagnað.

Við segjum þetta gott af vettvangi utanríkisþjónustunnar í bili og óskum ykkur góðrar helgar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta