Hoppa yfir valmynd
08. júlí 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 8. júlí 2022

Heil og sæl!

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum og færum ykkur það helsta sem drifið hefur á daga utanríkisþjónustunnar síðustu tvær vikurnar. 

Við byrjum þessa yfirferð á atburðarásinni sem fór af stað á miðvikudagsmorgun 5. júlí þegar fastafulltrúar bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins undirrituðu viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn vegna aðildar Finnlands og Svíþjóðar. 

Á rúmum sólarhring voru staðfest eintök undirrituð af forseta Íslands á Bessastöðum, þeim flogið til Bandaríkjanna með flugvél Icelandair og þau afhent í bandaríska utanríkisráðuneytinu í Washington klukkan níu á fimmtudagsmorgni 6. júlí. Ísland var þar með meðal allra fyrstu bandalagsríkjanna til að ljúka staðfestingarferlinu.
Á mikilvægum leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Madríd í síðustu viku var samþykkt að bjóða Finnlandi og Svíþjóð aðild að bandalaginu. Á grundvelli þeirrar ákvörðunar lauk aðildarviðræðum í vikunni þar sem ríkin tvö staðfestu þær skuldbindingar sem aðildin felur í sér. Utanríkisráðherra sótti leiðtogafundinn í Madríd ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Á leiðtogafundinum voru sömuleiðis mikilvægar ákvarðanir teknar sem miða að því að styrkja bandalagið í ljósi breytts öryggisumhverfis. Samþykkt var ný grunnstefna Atlantshafsbandalagsins sem meðal annars markar endurskoðaða stefnu gagnvart Rússlandi. 

„Á fundinum voru meðal annars ræddar margvíslegar birtingarmyndir þeirra voðaverka sem eru hluti af stríðsrekstri Rússa í Úkraínu. Sú hörmulega staða undirstrikar mikilvægi þess að Ísland hugi að sínu öryggi og að við gerum það sem í okkar valdi stendur til þess að vera verðugir og öflugir bandamenn. Aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur við Bandaríkin eru tryggar stoðir okkar öryggis,” sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Í tengslum við leiðtogafundinn fundaði utanríkisráðherra með Melanie Joly utanríkisráðherra Kanada, Anitu Anand varnarmálaráðherra Kanada, Wopke Hoekstra utanríkisráðherra Hollands, Jan Lipavsky utanríkisráðherra Tékklands, og Tönju Fajon utanríkisráðherra Slóveníu, auk Mortens Bødskov varnarmálaráðherra Danmerkur.

Í aðdraganda leiðtogafundarins funduðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna í Bodö Noregi þar sem stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu, staða lýðræðis og réttarríkis í Evrópu og mikilvægi alþjóðasamstarfs var ofarlega á baugi. 

Þann 1. júlí ávarpaði utanríkisráðherra sérstaka umræðu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda í Afganistan. Mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna bar hæst í ávarpi ráðherra. 

„Síversnandi staða mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan er gífurlegt áhyggjuefni. Ekkert ríki í alþjóðasamfélaginu neitar stúlkum um grunnskólamenntun með aðeins einni undantekningu, Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, var einnig á ferð og flugi síðustu tvær vikur. Í byrjun síðustu viku átti hann fund með Qu Dongyu, aðalframkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm. Á fundinum voru ræddar áherslur Íslands í starfi stofnunarinnar, meðal annars á sviði fiskveiðistjórnunar, fæðu úr höfunum, málefna smárra eyþróunarríkja, áhrif loftslagsbreytinga á ríki heims og einnig afleiðingar stríðsins í Úkraínu á fæðuöryggi í heiminum og hlutverk stofnunarinnar í þeim málum.

Þá sótti ráðuneytisstjóri alþjóðlega ráðstefnu um uppbyggingu í Úkraínu sem fram fór í Lugano í Sviss í vikunni þar sem hann tilkynnti um 100 milljóna króna framlag í sjóð Alþjóðabankans um efnahagslega neyðaraðstoð við Úkraínu. 


Sendiskrifstofur okkar hafa haft í nógu að snúast undanfarnar tvær vikur. Þrjár mannskæðar skotárásir hafa hins vegar varpað þungum skugga á störf utanríkisþjónustunnar þessar tvær vikur sem liðnar eru frá síðasta föstudagspósti. 

Föstudagskvöldið 24. júní var skotárás gerð fyrir utan skemmtistað í Osló þar sem tveir létust og um tuttugu særðust. Staðurinn er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks en hinsegin dagar stóðu yfir í borginni. 

„Fólk hér í Ósló er eðlilega mjög slegið en hér er líka mikill samhugur á meðal fólks. Samhugur og samstaða,“ sagði Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Ósló, meðal annars í viðtali við Mbl.is

 

Þrjú létust eftir skotárás sem gerð var í verslunarmiðstöðinni Field‘s í Kaupmannahöfn sunnudaginn 3. júlí síðastliðinn. Ljóst er að Íslendingar voru á staðnum þegar árásin varð, en ekki er vitað til þess að Íslendingur hafi slasast. Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins bárust símtöl vegna alls sex Íslendinga sem staddir voru í verslunarmiðstöðinni þegar árásin átti sér stað. 

„Danmörk er friðsæll staður og Kaupmannahöfn er örugg. Fólk er slegið yfir þessum atburðum,“ sagði Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Danmörku, í viðtali við Mbl.is. Daginn eftir voðaverkin bauð sendiráðið upp á opið hús fyrir Íslendinga í Jónshúsi þar sem prestur íslenska safnaðarins var á svæðinu ásamt fulltrúum sendiráðsins.

Í dag bárust síðan þær fréttir að Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra Japans, hafi verið skotinn til bana á kosningasamkomu í borginni Nara í vesturhluta Japans. 

„Þetta er auðvitað mikið áfall fyrir japönsku þjóðina og japönsk stjórnmál. Viðkvæðið virðist hafa verið svolítið meðal almennings að þetta komi fólki mjög  á óvart. Enda eru Japanir mjög óvanir slíkum árásum með skotvopn. Þannig að viðkvæðið hefur verið svolítið í fjölmiðlum að Japanir trúa vart sínum eyrum og augum,“ sagði Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan, í viðtali við RÚV í dag

En færum okkur þá yfir í aðeins gleðilegri tíðindi.

Í vikunni hófst árlegur fundur um framfylgd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í höfuðstöðvunum í New York. Fastanefnd Íslands stóð fyrir stafrænum hliðarviðburði um konur og hafið sem haldinn var í samstarfi við félagasamtökin Environmental Defense Fund og tók matvælaráðherra þátt í viðburðinum. 

Í síðustu viku lauk hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Lissabon. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leiddi sendinefndina og hélt ræðu Íslands við opnunarathöfnina og þá ávarpaði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sömuleiðis ráðstefnuna. 

Fimmtugasta lota mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hefur staðið yfir í Genf undanfarnar vikur. Þriðja allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála á Íslandi var meðal annars tekin fyrir. 

Á meðal mikilvægra samþykkta á vettvangi mannréttindaráðsins er endurnýjað umboð óháðs sérfræðings um réttindi hinsegin fólks.

Fimmtugustu lotu mannréttindaráðsins lauk síðan fyrr í dag.

Í París fór fram undirbúningsráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umbreytingu á menntun. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sótti ráðstefnuna fyrir Íslands hönd og tók virkan þátt. Þar að auki sótti Inga Huld Ármann, ungmennafulltrúi í málefnum barna og ungmenna, ráðstefnuna fyrir hönd ungs fólks á Íslandi. 

Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands gagnvart Bandaríkjunum, sótti móttöku í utanríkisráðuneytinu þar sem hún hitti meðal annars Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna. 
María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín, fundaði með Kornelia Haugg, ráðuneytisstjóra í mennta- og vísindamálaráðuneyti Þýskalands, þar sem meðal annars var rætt um samstarf þjóðanna á fyrrnefndum sviðum.

Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Kanada, og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, færðu bókasafninu í Whitehorse bókagjöf í tilefni af 75 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Kanada.

Fastanefnd Íslands í Strassborg barst óvæntur liðsauki í síðustu viku.


Hinsegin dagar fóru fram víða síðustu vikur, meðal annars í New York:

Og London:

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, ásamt níu öðrum sendiherrum og Chargés d‘Affaires í Rússlandi, sendi frá sér yfirlýsingu til stuðnings réttindum hinsegin fólks. 

Ísland tók við formennsku í fastanefnd EFTA í Brussel þann 1. júlí síðastliðinn. Af því tilefni efndi Kristján Andri Stefánsson sendiherra til móttöku fyrir alla helstu samstarfsaðila í EES-samstarfinu, bæði hjá EFTA og ESB.

Sendiráð Íslands í Malaví styrkti samtökin Sun Fire Social með reiðhjólum.

Norræna danslistahátíðin Ice Hot fór fram í Helsinki á dögunumÞónokkrir íslenskir dansarar tóku þátt í hátíðinni í ár; Rósa Ómarsdóttir, danshópurinn Marble Crowd, Katrín Gunnarsdóttir, Anna Kolfinna Kuran, Saga S.dóttir og Inga Huld Hákonardóttir.

Tvær skýrslur komu út á vegum ráðuneytisins á síðustu tveimur vikum. Annars vegar Ársskýrsla utanríkisráðherra 2021 og hins vegar Ársskýrsla GRÓ 2020-2021

Við segjum þetta gott í bili!

Góða helgi,
Uppló


 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta