Hoppa yfir valmynd
07. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 7. október 2022

Heil og sæl.

Af utanríkisþjónustunni er þetta helst að frétta úr vikunni.

Íslensk stjórnvöld komu í vikunni hörðum mótmælum formlega á framfæri við rússnesk stjórnvöld við ólöglegri innlimun héraða í Úkraínu og marklausum atkvæðagreiðslum sem þar voru haldnar. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu boðaði Mikhaíl Noskov, sendiherra Rússlands, á fund þar sem hann áréttaði fordæmingu Íslands á tilraunum Rússlands til að innlima úkraínskt landssvæði. Um ólöglegan gjörning væri að ræða sem Ísland viðurkenndi ekki undir neinum kringumstæðum. Þá brytu atkvæðagreiðslur sem haldnar voru í fjórum héruðum í austurhluta Úkraínu algerlega í bága við alþjóðalög. Þessi framganga, auk óábyrgra hótana um beitingu kjarnavopna, væru alvarlegasta stigmögnun átakanna frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar sl.


Áður hafði ráðherra tjáð sig um málið á Twitter.

Skemmdir á Nord Stream gasleiðslunum voru í brennidepli á fjarfundi varnarmálaráðherra þátttökuríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force, JEF) sem fram fór á mánudag. Sameiginleg yfirlýsing var gefin út á fundinum þar sem skemmdarverkin eru harðlega fordæmd.

„Samráð á vettvangi JEF er mikilvægur liður í að efla stöðuvitund og stilla saman strengi við Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Bretland og Holland. Það er ríkur vilji í þessum hópi til að styðja Dani, Svía og Þjóðverja við rannsókn málsins, efla samstarf um að verja lykilinnviði og auka stöðugleika á þessu svæði,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sem tók þátt í fundinum.

Þá birtum við einnig stutta færslu um tvo nýja sendiherra sem nýlega bættust í diplómatahópinn með aðsetur hér í Reykjavík. 


Sendiráð okkar í París og Washington buðu þá einnig velkomna.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Norrænu sendiráðin gagnvart Hollandi stóðu í lok september fyrir málstofu í Amsterdam um sjálfbærni í matvælaframleiðslu og hvernig mætti tryggja framtíð hennar á sem hagkvæmastan hátt. Málstofan var hluti af umræðuröðinni Nordic Talks, sem Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin standa fyrir.

Á vettvangi sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn fór fram árlegur fundur sendiráðsins með kjörræðismönnum Danmerkur ásamt kjörræðismönnum Tyrklands, Rúmeníu og Búlgaríu, en sendiráðið fer með fyrirsvar gagnvart þeim löndum. Í allt eru 15 kjörræðismenn starfandi í þessum fjórum löndum.

Í Osló fékk sendiráðið heimsókn frá fyrirtækinu Gen2 Energy sem stefnir að stórtækri framleiðslu á grænu vetni og er þessa dagana að koma upp framleiðslu- og flutningsstöðvum á fjórum stöðum í Noregi sem mun framleiða grænt vetni á stórum skala fyrir innlendan og erlendan markað.

Í Helsinki tók Reynir Þór Eggertsson, lektor í íslensku við háskólann í Helsinki, á móti Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Finnlandi.

Þá var Sturla Sigurjónsson sendiherra Íslands í London, viðstaddur viðburð þar sem frumkvöðlar úr íslenska tölvuleikjageiranum komu saman og hittu fyrir fjárfesta í Bretlandi.

Í París bauð Unnur Orradóttir Ramette sendiherra til móttöku í embættisbústað sínum þar sem leikskáldinu Tyrfingi Tyrfingssyni var boðið, en verk hans hafa verið sett upp víða erlendis, þar á meðal í París.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, bæði í New York, og svo í mannréttindaráðinu í Genf, er svo nóg að gera að vanda.

Í Bandaríkjunum kíkti Bergdís Ellertsdóttir sendiherra í Washington, á viðburð Taste of Iceland.

Þá var Davíð Logi Sigurðsson, sendifulltrúi, fulltrúi sendiráðs Íslands í Washington þegar ný bók White House History var gefin út, Official Residences, þar sem Bessastöðum bregður fyrir.

Í Kanada var vikan viðburðarík hjá Hlyni Guðjónssyni, sendiherra Íslands þar í landi.

Í Kína veitti Þórir Ibsen, Chamnarn Viravan, fyrrverandi ræðismanni Íslands í Bangkok, fálkaorðuna.

Þar í landi hefur Þórir haft í nógu að snúast.

Fyrstu nemendur í sérstakri starfsþjálfun ungmenna í Mangochi útskrifuðust í vikunni en verkefnið er hluti af byggðaþróunarverkefni íslenskra stjórnvalda með héraðsyfirvöldum. Ungmennin komu víða að úr héraðinu og þau fá þjálfun í ýmiss konar handverki og gerð viðskiptaáætlana í þeim tilgangi að fjölga atvinnutækifærum þeirra.

Þá kvaddi sendiráðið tvo starfsmenn sína, þær Chiliritso Bertha Mzoma Gwaza og Ragnheiði Matthíasdóttur.

Í Kampala sagði okkar fólk frá afhendingu á  almenningssalernum í Mutumba í Namayingo héraði. Nú hefur samfélagið aðgengi að ókeypis almenningssalernum, þar á meðal fyrir fatlað fólk.

Þá sögðum við einnig frá framlengdum fresti fyrir umsóknir í Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífs um þróunarsamvinnu í vikunni.

Við minnum að endingu á fréttaveitu okkar, Heimsljós.

Framundan í næstu viku er svo Hringborð norðurslóða - Arctic Circle, þar sem utanríkisþjónustan tekur að vanda virkan þátt.

Fleira var það ekki að sinni.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta