Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 20. janúar 2023

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur loksins á nýju ári og förum yfir það helsta sem hefur átt sér stað á vettvangi utanríkisþjónustunnar undanfarnar vikur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er nú stödd í Ramstein í Þýskalandi en þar hittist hinn svokallaði Ramstein-hópur, 45 líkt þenkjandi ríki Atlantshafsbandalagsins sem styðja við varnarbaráttu Úkraínu. Á fundinum tilynnti Þórdís Kolbrún um tveggja milljóna punda (360 m.kr.) framlag í sérstakan stuðningssjóð fyrir Úkraínu.

„Ísland hefur leitað allra leiða til þess að leggja varnarbaráttu Úkraínu lið. Á fundinum hér í dag var mikil samstaða og áhersla á að nú væri mikilvægur kafli í stríðinu og mikilvægt að þau sem vilja styðja Úkraínu liggi ekki á liði sínu. Það hefur sýnt sig að stuðningssjóðurinn sem við leggjum nú lið hefur reynst vel, þar eru ákvarðanir teknar hratt svo mikilvægur stuðningur berst hratt þangað sem þörfin á honum er mest. Jafnvel þó Íslendingar hafi ekki vopn eða skotfæri til að senda til Úkraínu þá getum við aðstoðað með öðrum leiðum og það munum við halda áfram að gera,“ segir Þórdís Kolbrún.

Í gær kynnti ráðherra svo áherslur Íslands í Evrópuráðinu fyrir fastafulltrúum ÖSE í Vín. Þar var staða Evrópu í kjölfar innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu og mikilvægi þess að Evrópuráðið og ÖSE standi vörð um lýðræðislegar stofnanir, alþjóðalög og mannréttindi í brennidepli í ávarpi Þórdísar Kolbrúnar.

Á dögunum sögðum við frá 250 milljón króna viðbótarframlagi til alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar í ljósi bágs mannúðarástands víða um heim. Framlagið rennur til áherslustofnana Íslands í mannúðarmálum: Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF), Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og til starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Moldóvu.

Þá birtum við tvö fréttaannála, annars vegar af vettvangi utanríkisráðuneytisins, og hins vegar sendiskrifstofa Íslands víða um heim.

Í síðustu viku var svo formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni formlega ýtt úr vör á upphafsviðburði í Norræna húsinu. Yfirskrift formennskunnar er „Norðurlönd - afl til friðar“ og vísar til þeirrar áherslu sem lögð er á frið sem undirstöðu þeirra sameiginlegu gilda sem Norðurlönd byggja samvinnu sína á: mannréttindi, lýðræði og velferð.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Í Helsinki sótti starfsfólk sendiráðsins ferðaþjónustusýningu þar í borg.

Í Kaupmannahöfn opnaði Helga Hauksdóttir sendiherra myndlistarsýningu Tolla Nature, Love and Peace í Davis Gallery.

Þá sótti hún nýársmóttöku Margrétar Danadrottningar sem haldin er árlega fyrir sendiherra erlendra ríkja í Kristjánsborgarhöll.

Í Osló sótti Högni Kristjánsson sendiherra kvöldverð með starfssystkinum sínum frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum og  Ernu Solberg, formanni Hægri flokksins, og fyrrverandi forsætisráðherra en hún var heiðursgestur sendiherra Svíþjóðar.

Þar í borg hefur okkar fólk haft í nógu að snúast á nýju ári. Viðskiptafulltrúi sendiráðsins Eva Mjöll Júlíusdóttir kynnti t.d. Ísland sem áfangastað á ferðakaupstefnunni TravelMatch í Osló á dögunum.

Í Stokkhólmi átti Bryndís Kristjánsdóttir fund með Per-Arne Håkansson, þingmanni frá Skáni, í sænska þinginu í gær. Meðal þess sem þau ræddu voru fjölbreytt tengsl Íslands og Svíþjóðar, ekki síst þau tengsl sem myndast hafa við Skán vegna þeirra fjölmörgu Íslendinga sem þar búa og sinna m.a. námi og vinnu.

Í Stokkhólmi kíkti sendiherra jafnframt í bókabúðina Söderbokhandeln Hansson & Bruce þar sem íslenskar bókmenntir eru til sölu.

Í París heimsótti okkar fólk bókasafnið í Sainte-Geneviève og norrænan hluta safnsins.

Þá hlaut Una Jóhannsdóttir, staðgengill sendiherra í sendiráði okkar í París, kynningu um Ólympíuleikana sem fram fara þar í borg árið 2024. Ekk nema 560 dagar til stefnu!

Í London var umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í fræðsluferð í Bretlandi í vikunni. „Það var sendiráðinu mikill heiður að skipuleggja morgunverðarfund fyrir nefndarmenn með breskum þingmönnum og sérfræðingum á málefnasviðum nefndarinnar,“sagði okkar fólk í London.

Í Póllandi var ræðismanninum Bogusław Szemioth og samstarfsmanni hans Emil Remisz þökkuð góð störf í þágu lýðveldisins en nú tekur sendiráð Íslands í Varsjá yfir skyldur þeirra.

Þá hvetjum við fólk til þess að kíkja á Facebook-síðu sendiráðsins í Varsjá þar sem starfsfólk þess hefur fengið góða kynningu á undanförnum vikum.

Ísland lét af embætti varaforseta stjórnar UN Women f.h. Vesturlanda á dögunum.

Í Washington kíkti ræðismaður Íslands í Alaska í heimsókn.

Í Ottawa komu háskólanemar í heimsókn í sendiráðið.

Í Tókýó flutti Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði fyrirlestur í sendiráðinu.

Þá var Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra þar í borg einnig til viðtals um málefni fatlaðra á Íslandi.

Í Kína nálgast ár kanínunnar óðfluga.

 

Fleira var það ekki í bili.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta