Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 14. apríl 2023

Heil og sæl!

Upplýsingadeildin heilsar ykkur endurnærð eftir páskafrí og flytur ykkur fréttir af því helsta sem átt hefur sér stað í utanríkisþjónustunni á undanförnum vikum.

Atlantshafsbandalagið varð 74 ára þann 4. apríl sl. og daginn eftir fór fram sögulegur fundur í Brussel þar sem Finnland fékk formlega inngöngu í bandalagið. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra sótti fundinn þar sem hún undirstrikaði mikilvægi þess að Svíþjóð tæki þátt í leiðtogafundinum í Vilníus sem fullgilt bandalagsríki. Þá ítrekaði hún að þvert á það sem Rússlandsforseti ætlaði sér með stríðsrekstrinum hefði bandalagið aldrei verið öflugra og bandalagsríkin væru tvíefld í stuðningi sínum við Úkraínu. Sagt var frá fundinum á vef Stjórnarráðsins.

Þar var janframt greint frá jákvæðri niðurstöðu á jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands sem tekin var fyrir á fundi nefndarinnar í París rétt fyrir páska. Í niðurstöðunum kemur meðal annars fram að með skýrri og einbeittri nálgun á tiltekin málefnasvið, stofnanir og samstarfslönd, hafi Ísland nýtt styrkleika sína í þróunarsamvinnu og hámarkað framlag sitt til málaflokksins þrátt fyrir smæð. 

Sendiráðið í París tók af þessu tilefni á móti Martin Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra

sem hitti í leiðinni Caroline Ferrari staðgengil ráðuneytisstjóra í franska utanríkisráðuneytinu. Á fundinum ræddu þau formennsku Íslands í Evrópuráðinu, leiðtogafundinn sem fer fram í Reykjavík í maí, stríðið í Úkraínu, málefni norðurslóða og jafnréttismál.

Ráðherra greindi jafnframt frá því að íslensk stjórnvöld hefðu heitið 500.000 bandaríkjadölum til uppbyggingar sjálfbærra og umhverfisvænna orkuinnviða í Úkraínu.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti árlega ályktun um ástand mannréttinda í Íran sem ríkjahópur undir forystu Íslands lagði fram þann 4. apríl sl. Ályktunin tryggir áframhaldandi umboð sérstaks skýrslugjafa til að fylgjast með og gefa mannréttindaráðinu reglubundna skýrslu um ástand mannréttindamála í Íran. 

Þá áttu yfirmenn herafla þátttökuríkja í sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF) fund þar sem þeir ræddu þróun öryggismála og samstarf um viðbúnað og viðbragð á Norður-Atlantshafi, norðurslóðum og Eystrasalti í Helsinki í vikunni. Jónas Gunnar Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu sótti fundinn fyrir Íslands hönd. 

Og þá að sendiskrifstofunum. Í Vínarborg skrifuðu 45 ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar, Ísland þar á meðal, undir svokallað Moscow Mechanism Invocation sem miðar að rannsókn á brottnámi barna af hendi rússneskra yfirvalda í stríðinu við Úkraínu.

Sendiráðið í París greindi frá útgáfu bókar Fríðu Ísberg "Merking" sem kom út á frönsku á dögunum.

Listviðburðir hafa heldur betur sett svip sinn á lífið í sendiráðinu í Berlín undanfarið. Benedikt Krisjánsson flutti Jóhannesarpassíu Bachs við góðar undirtektir í sölum Berlínarfílharmóníunnar á föstudeginum langa.

Myndlistarsýningin "I will keep close to you" með verkum eftir Önnu Jónu Friðbjörnsdóttur var opnuð á skírdegi í Künstlerhaus Bethanien.

og Sigurður Sævarsson tók þátt í tónlistarviðburði sem haldinn var í kirkjunni við Hohenzollernplatz á laugardegi fyrir páska.

Sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Helga Hauksdóttir, opnaði formlega sýningu Errós "The Power of Images"

Í Helsinki var að sjálfsögðu mikið umleikis vegna inngöngu Finnlands í NATO þann 4. apríl sl. og óskaði sendiráðið Finnum til hamingju.

Sendiráð okkar í Lilongwe, Malawi, deildi fréttum af því hvernig Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna notaði dróna til að dreifa mat og hjálpargögnum vegna hamfaranna sem urðu í kjölfar fellibylsins Freddy á dögunum. Þakkar stofnunin sendiráðinu sérstaklega fyrir þeirra framlag til að þessi hjálp mætti verða að veruleika. 

Þá greindi sendiráðið frá áformum um byggingu miðstöðvar fyrir fæðingar- og nýburahjálp sem unnið verður að ásamt héraðsstjórn í Mangochi héraði 

og deildi þeim gleðifréttum að 20.000 manns njóti nú grundvallar heilbrigðisþjónustu á svæðinu sem fjármögnuð er af íslenskum stjórnvöldum en fólk þurfti áður að ferðast yfir 20 km til að verða sér úti um samskonar þjónustu. 

Sendiráðið í London deildi tveimur blaðagreinum úr dagblaðinu The Guardian. Annarri um það hvernig litla Ísland gat orðið svo framarlega á heimsvísu í klassískri tónlist og hinni um 5 stjörnu dóm kvikmyndarinnar Volaða land eftir Hlyn Pálmason sem farið hefur sigurför um heiminn að undanförnu.

Þá fengu sendiráðið ásamt Sturlu Sigurjónssyni sendiherra sérstakar þakkir fyrir að deila mynd af Churchill frá heimsókn hans til Alþingis sumarið 1941 með safni sem heldur utan um arfleifð hans.

Í Nýju-Delí lagði Guðni Bragason sendiherra Íslands áherslu á samvinnu um sjálfbæra þróun, ferðamennsku, nýsköpun og kynjajafnrétti í ávarpi sínu á alþjóðlegri ráðstefnu um tækifæri í viðskiptum og ferðamennsku í einu af systurfylkjunum sjö; Nagaland.

Sendiráð Íslands í Kanada stóð að vel heppnaðri málstofu 12. apríl undir yfirskriftinni Geothermal Utilization and Value Chains in Iceland í samstarfi við Green by Iceland og Orkuklasann. Málstofan fjallaði um þróun jarðvarmanotkunar á Íslandi og hvernig þessi reynsla gæti verið yfirfæranleg á Kanada. Upptökuna má nálgast hér. Sama dag flutti Hlynur Guðjónsson sendiherra lokaorð á vefskeiði ICAN (Icelandic Arctic Cooperation Network) og WiRE (Women in Renewable Energy) um orkuskipti á Norðurslóðum.

Í Osló tók Þorvaldur Hrafn sendiráðunautur þátt í hádegisverðarfundi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. 

Sænska sendiráðið óskaði rithöfundinum Sjón til hamingju með að hafa unnið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. 

Sendiráð Íslands í Póllandi sagði lesendum sínum á Facebook skemmtilega frá íslenskum hefðum tengdum páskunum.

og greindi jafnframt frá því að Hannes Heimisson sendiherra hefði fengið kynningu á varðveislu á listaverkum í listaháskóla Varsjár en deild innan skólans um varðveislu listmuna hefur sýnt á því áhuga að kortleggja þörfina á varðveislu íslenskra listaverka, einkum á pappír. 

Þann 1. apríl fagnaði aðalræðisskrifstofa okkar í Færeyjum því að 16 ár væru liðin frá opnun hennar. Sérstaklega var tekið fram að ekki væri um aprílgabb að ræða. 

Alþjóðaheilbrigðisdeginum var fagnað 7. apríl síðastliðinn og af því tilefni var sagt frá verkefni í Sierra Leone sem íslensk stjórnvöld standa að ásamt Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Verkefnið miðar að því að útrýma svokölluðum fæðingarfistli, vanda sem er nánast óþekktur í samfélögum á Vesturlöndum en útbreiddur í fátækari ríkjum eins og Síerra Leóne þar sem heilbrigðisþjónustu hefur verið ábótavant. 

Þórdís Sigurðardóttir sendiherra í Úganda átti fund með fulltrúa Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Úganda, Mary Otieno. Þær ræddu meðal annars tækifæri til að standa enn betur að mæðravernd á svæðinu. 

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Kína hélt opnunarávarp á einni stærstu stoðtækjakaupstefnu þar í landi. 

Hann heimsótti jafnframt bás Össurar á sýningunni. 

Þá átti hann fund með vara-borgarstjórum Zhumadian í Henan og ræddi viðskiptatækifæri einkum á sviði heilsufarstengdrar þjónustu og ferðaþjónustu.

Í Genf lýstu norrænu og baltnesku löndin yfir áhyggjum af ástandi mannréttinda í Mali. 

og Finnland flutti ræðu fyrir hönd sama hóps um ástand mannréttinda í Libýu. 

Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York tók á móti utanríkismálanefnd Alþingis. 

Glæpir gegn mannkyni voru til umræðu í 6. nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í sérstakri umræðu sem fastanefndin stýrði ásamt Gvatemala og Malasíu.

Sendiráð Íslands í Washington deildi innslagi úr fréttaskýringaþættinum 60 Minutes þar sem fréttamaðurinn góðkunni Bill Whitaker ræddi við Kristínu Jónsdóttur jarðskjálftafræðing um eldgosið í Geldingardölum. 

Fleira var það ekki í bili. Við minnum á fréttaveitu okkar um þróunar- og mannúðarmál, Heimsljós og óskum ykkur góðrar helgar!

Upplýsingadeild.

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta