Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 21. apríl 2023

Heil og sæl, 

Upplýsingadeildin heilsar ykkur á þessum fyrsta föstudegi sumars með sól í sinni. 

Undanfarin vika hefur verið annasöm í utanríkiþjónustunni að venju. Við skulum fara yfir það helsta. 

Byrjum á gleðifréttum. Nýir rammasamningar við landsnefndir UN Women, UNICEF og Félag Sameinuðu þjóðanna voru undirritaðir í vikunni. Samningarnir ná til þriggja ára og er mikilvægur liður í því að tryggja starfsgrundvöll félaganna og fyrirsjáanleika í starfi þeirra. Greint var frá þessu á vef stjórnarráðsins.

Hin árlega ráðstefna á vegum Alþjóðamálastofnunar, utanríkisráðuneytisins, Norræna hússins í samstarfi við Félag stjórnmalafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? var að venju haldin síðasta vetrardag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti opnunarávarp fyrir fullum sal þar sem hún ræddi þær áskoranir sem ríki heims standa frammi fyrir, þá valkosti sem á hverjum tíma standa til boða og þær afleiðingar sem ákvarðanir stjórnmálafólks hafa í för með sér. Hér má nálgast upptöku af málþinginu.

Rússnesk yfirvöld voru harðlega gagnrýnd víða um heim fyrir handtöku stjórnarandstæðingsins Vladimir Kara-Murza. Utanríkisráðherra tók undir gagnrýnina og fordæmdi handtökuna einnig á Twitter síðu sinni. 

Þá óskaði hún Margus Tsahkna nýjum utanríkisráðherra Eistlands til hamingju með embættið og óskaði honum velfarnaðar í störfum.

Einnig var tilkynnt um það á vef stjórnarráðsins að kjarnorkuknúnum kafbátum bandaríska sjóhersins yrði heimilað að hafa stutta viðkomu við Ísland til að taka á móti kosti og skipta út áhafnarmeðlimum. Íslensk og bandarísk stjórnvöld hafa á síðustu árum aukið samstarf vegna eftirlits og viðbúnaðar á Norður-Atlantshafi og er þessi heimsókn liður í varnarskuldbindingum Íslands og mikilvægt framlag til sameiginlegra varna bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins.

Niðurtalning fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins sem fer fram í Reykjavík um miðjan maí hófst formlega nú þegar mánuður er til stefnu.

Vegna þess að nú styttist í fundinn með tilheyrandi umstangi var haldinn fundur með íbúum og rekstraraðilum í miðbænum vegna götulokana sem munu eiga sér stað á meðan á fundinum stendur. Ljóst er að lokanirnar munu hafa töluverð áhrif á daglegt líf íbúa á svæðinu og valda umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu og því mikilvægt að vel sé staðið að samvinnu við borgarbúa.

Beinum nú sjónaukanum út í heim.

Aðalræðisskrifstofan í New York stóð fyrir flottum viðburði þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gaf fundargestum innsýn inn í íslenskt efnahagslíf. 

Fastanefndin í New York tók undir ákall um að rússnesk yfirvöld létu blaðamenn lausa sem hnepptir hafa verið í varðhald af pólitískum ástæðum. Málið er til komið vegna handtöku Evan Gershkovich, rússnesks blaðamanns sem starfar fyrir Wall Street Journal og hefur skrifað gagnrýnar fréttir af stríðsrekstri Rússlands í Úkraínu.

Og Jörundur Valtýsson fastafulltrúi hélt ræðu á viðburði um fjármögnun þróunar þar sem hann hvatti til tafarlausra aðgerða. 

Sendiráð Íslands í Varsjá stendur fyrir norrænum degi í dag ásamt hinum norrænu sendiráðunum með veglegri dagskrá. Hægt var að fylgjast með beinu streymi frá viðburðinum.

Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington hitti nemendur í American University sem spurðu hana spjörunum úr um Ísland og utanríkismál undir formerkjum „Ask a Diplomat“.

Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum var einnig sérstakur gestur á ráðstefnunni Planet Forward í George Washington University þar sem hún talaði um loftslagsmál, sjálfbærar lausnir og mikilvægi þátttöku ungmenna í umræðu og stefnumótun.

Sendinefnd frá Íslandi stillti saman strengi í sendiráði Íslands í Washington fyrir öryggispólitískt samráð við Bandaríkin sem fram fer í Washington 21. apríl. Auk fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu eru í sendinefndinni fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, Landhelgisgæslunni og embætti ríkislögreglustjóra.  

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands í Japan ávarpaði japönsk fyrirtæki í ferðamennsku á námskeiði sem haldið var af Ferðamálastofu í Tókýó.

María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Berlín var við opnun sýningar Elínar Hansdóttur "What Happens When Nothing Happens". 

Þingmenn EFTA ríkjanna heimsóttu Nýju-Delí í vikunni. Sendiráð Íslands á staðnum tók vel á móti þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ingibjörgu Ísaksen. Guðni Bragason sendiherra ræddi kynjajafnrétti á Indlandi á kynningarfundi sendiherranna á svæðinu og þingmannanna. 

Hátíð Jóns Sigurðssonar fór fram í Jónshúsi í Kaupmannahöfn á sumardeginum fyrsta. Í ár hlaut Dr. Herdís Steingrímsdóttir verðlaun Jóns Sigurðssonar fyrir rannsóknir sínar á sviði vinnumarkaðshagfræði. Sendiráðið óskaði Herdísi hjartanlega til hamingju.

Sendiráð Íslands í Helsinki sagði frá heimsókn Ingu Evu Þórisdóttur, yfirmanni greiningar hjá hinu íslenska Planet Youth módeli sem miðar að því að búa til betra umhverfi fyrir ungmenni. 

Sendiráð Íslands í Lilongwe, Malawi birti myndband með friðarskilaboðum en eins og vitað er fór fellibylurinn Freddy um svæðið fyrir stuttu. Í kjölfar slíkra áfalla er mikilvægt að minna á friðsamlega uppbyggingu og samstarf. 

Flestar sendiskrifstofur sendu frá sér fallegar kveðjur í tilefni af sumardeginum fyrsta. Við birtum hér kveðjuna frá aðalræðisskrifstofunni í Nuuk. Ekki er annað að sjá á myndinni en að sumarið sé styttra á veg komið þar en hér. Einhverjir þórðarglaðir Íslendingar kunna að fagna því í myrkari afkimum sálarinnar.

Í sendiráði Íslands í Peking var heldur betur glatt á hjalla. Þar hljómaði tónlist byggð á ævintýrum hinnar músíkölsku músar Sinfóníuhljómsveitar Íslands; Maximúsar Músikusar í flutningi kínversks barnakórs.  

Við minnum á fréttaveitu okkar um þróunarsamvinnu Heimsljós en í vikunni var sagt frá bakslagi í bólusetningum barna, nýju samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Kamuzu háskólans í Malaví og könnun um heimsmarkmið meðal barna og ungmenna kynnt. 

Við óskum ykkur að endingu gleðilegs sumars með kærum þökkum fyrir gott samstarf á liðnum vetri!

Upplýsingadeild.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta