Hoppa yfir valmynd
22. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á mánudegi, 22. maí 2023

Heil og sæl. 

Upplýsingadeildin heilsar ykkur bráðhress á mánudegi. Miklar annir vegna undirbúnings leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fór fram í síðustu viku komu í veg fyrir útgáfu föstudagspóstsins síðustu vikurnar. Undirbúningurinn reyndi verulega á drjúgan hluta starfsfólks ráðuneytisins sem lagðist á eitt og úr varð glæsileg framkvæmd þessa stærsta alþjóðlega viðburðar sem haldinn hefur verið á Íslandi. 

Á leiðtogafundinum bar hæst samþykkt Reykjavíkuryfirlýsingarinnar og stofnun alþjóðlegrar tjónaskrár fyrir Úkraínu. Stuðningur við Úkraínu, ályktun í þágu úkraínskra barna, og skuldbinding ríkjanna við mannréttindi, lýðræði og réttarríkið voru megináherslur yfirlýsingarinnar. Þá skuldbinda aðildarríkin sig með yfirlýsingunni til að framfylgja að fullu ákvörðunum Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir tjónaskrána vera áþreifanlegt framlag leiðtoga aðildarríkja Evrópurráðsins í þágu Úkraínu.

„Með henni höfum við stigið þýðingarmikið skref til að tryggja ábyrgðarskyldu vegna brota Rússlandshers í Úkraínu. Þessi stund markar því tímamót sem við höfum unnið markvisst að með Evrópuráðinu og mörgum öðrum þjóðum og ég er mjög stolt yfir að þau eigi sér stað hér í Reykjavík,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Við opnun fundarins á þriðjudag flutti Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, ávarp í gegnum fjarfundarbúnað. Þá fluttu ávörp þau Emmanuel Macron, forseti Frakklands, Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, auk Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Blaðamannafundur í Hörpu markaði lok formlegrar dagskrár fundarins þar sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra kynntu helstu niðurstöður leiðtogafundarins ásamt þeim Denys Shmyhal forsætisráðherra Úkraínu, Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands og Mariju Pejčinović Burić, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Fundinum lauk með því að Þórdís Kolbrún afhenti Rinkēvičs útskorinn fundarhamar eftir listakonuna Sigríði Kristjánsdóttur til marks um að formennsku Íslands í Evrópuráðinu væri lokið og nýtt formennskutímabil undir stjórn Lettlands hafið.

Þrátt fyrir stífa dagskrá fundarins átti ráðherra jafnframt nokkra fundi á hliðarlínu ráðstefunnar, þar á meðal tvíhliða fund með utanríkisráðherra Spánar, José Manuel Albares, og með fulltrúum Evrópuráðsins, ÖSE og Rinkēvič. 

Fjölmargar myndir af fundinum má svo finna á Flickr-síðu utanríkisráðuneytisins.

Þó svo að undirbúningur fyrir leiðtogafundinn hafi verið fyrirferðamikill er hann ekki það eina sem starfsfólk utanríkisþjónustunnar hefur tekið sér fyrir hendur að undanförnu. Förum yfir atburði liðinna vikna.

Íslenskar bókmenntir og kvikmyndir voru hafðar í öndvegi á Íslandsdeginum svokallaða sem haldinn var í byrjun mánaðarins í Strassborg í tilefni af formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Íslandsdagurinn var lokaviðburður menningardagskrár formennskunnar sem staðið hefur yfir í Strassborg frá því að Ísland tók við henni í nóvember síðastliðnum.

Kafbátaeftirlitsæfingin Dynamic Mongoose 2023 fór fram á hafsvæðinu milli Íslands og Noregs og lauk þann 5. maí sl. Æfingin var á vegum Atlantshafsbandalagsins en Ísland var að þessu sinni gestgjafaríki hennar. Kafbátaleitaræfingin Dynamic Mongoose hefur farið fram árlega frá 2012. Markmið hennar er að auka getu bandalagsríkja til að vinna saman að kafbátaeftirliti við flóknar og krefjandi aðstæður og æfa sameiginleg viðbrögð við aðsteðjandi ógnum.

Þá heimsótti Christopher G. Cavoli, yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins (SACEUR), Ísland og kynnti sér starfssemi öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Hann átti jafnframt fund með Þórdísi Kolbrúnu þar sem þau ræddu þróun öryggismála í kjölfar árásarstríðs Rússlands gegn Úkraínu, aukinn varnarviðbúnað bandalagsins og framlag Íslands, ekki síst til varna og eftirlits á Norður-Atlantshafi.

Í byrjun mánaðarins fór fram samráðsfundur um stefnu íslenskra stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Utanríkisráðuneytið boðaði til fundarins og bauð til samráðs fjölmarga einstaklinga sem hafa á einn eða annan hátt haft aðkomu að þróunarsamvinnu síðustu árin, meðal annars frá félagasamtökum, landsnefndum stofnana Sameinuðu þjóðanna, GRÓ – þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, atvinnulífinu, stofnunum, ráðuneytum og fræðasamfélaginu. Utanríkisráðherra ávarpaði fundinn og þakkaði gestum í fundalok innlega fyrir þátttökuna, enda verða umræður og innlegg fundargesta nýtt við vinnslu stefnunnar.

Árlegur samráðsfundur IDAHOT+ fór fram í Reykjavík nú nýverið í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á ráðstefnunni og Þórdís Kolbrún  flutti opnunarávarp. Greint var frá því á vef Stjórnarráðsins að Ísland væri komið upp í fimmta sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe) og í fyrsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu en niðurstöðurnar voru kynntar á fundinum.

Þá að sendiskrifstofunum.

Högni Kristjánsson sendiherra í Osló sótti Evrópuráðstefnu um lýðræði og mannréttindi sem er haldin árlega í Kristiansand í samstarfi sveitarfélagsins og Evrópuráðsins. 



Þá tók sendiráðið í Osló líka á móti fjölmennri sendinefnd frá Íslandi, skipaðri bæði aðilum frá hinu opinbera og einkageiranum sem komu til að kynna sér nýtingu vindsins í fjögurra daga vettvangsferð um Noreg. Ferðin var skipulögð af Grænvangi í samstarfi við sendiráðið og tóku sendiherrahjónin Högni  og Ásgerður I. Magnúsdóttir meðal annars á móti sendinefndinni í embættisbústað Íslands í Osló. 



Þar að auki tók sendiherrann þátt í viðburði sem skipulagður var af sendiráðinu í samstarfi við Byggðastofnun og Norsk-íslenska viðskiptaráðið NIH þar sem Íslendingar með farsæla reynslu á norskum markaði kynntu störf sín og deildu hagnýtum ráðum með stórum hópi frá Íslandi. 



Nóg hefur verið um að vera hjá sendiráði Íslands í Washington.

Bergdís Ellertsdóttir Sendiherra Íslands í Washington opnaði ráðstefnuna CHARGE Energy Branding í Houston, Texas. 


Sendiherra settist jafnramt í sófann hjá hlaðvarpsstjórnendum The Yonder Boys og ræddi við þá um Ísland og endurnýjanlega orku.

Þá heimsótti hún einnig Greentown Labs Houston, frumkvöðlasetur á sviði loftslagslausna, ásamt Nótt Thorberg, forstöðukonu Grænvangs.

 
Sendiráðið í Washington tók á móti áhugasömum hópi starfsfólks frá Hagstofu Íslands þar sem þau fengu kynningu á hlutverki og verkefnum sendiráðsins.  

Þá stýrði Bergdís einnig umræðum um fiskveiðistjórnun og eftirlit á Nordic Innovation Summit í Seattle, þar sem hún var stödd ásamt háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og fjölda aðila úr íslenska og norræna nýsköpunargeiranum.

Davíð Logi Sigurðsson, staðgengill sendiherra, sótti svo upplýsingafund í tilefni af degi jarðar (Earth Day) þar sem John Kerry, sérstakur erindreki Bandaríkjaforseta í loftslagsmálum fór yfir stöðu mála. 

Norrænir sendiherrar í Svíþjóð, þeirra á meðal Bryndís Kjartansdóttir, sendiherra, hittu fyrrum forsætisráðherrann Magdalenu Anderson í finnska sendiráðinu þar í borg.

  

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan greindi frá mögulegu framtíðarsamstarfi Japans og Íslands á sviði jarðvarma sem rætt var á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis- orku og loftslagsráðherra og Nishimura Yasutoshi efnahags- og viðskiptaráðherra Japans í Reykjavík á dögunum.

Sendiráð Íslands í Varsjá bauð í bíó

og til fleiri viðburða í tengslum við „safnanótt“ þar í borg

Sem sumir voru svo vinsælir að færri komust að en vildu

Þá tók sendiherra Íslands í Póllandi, Hannes Heimisson, þátt í málþingi um leiðtogafund Evrópuráðsins sem fór nýverið fram í Reykjavík, sem bar yfirskriftina: Szczyt Rady Europy w Reykjaviku: Nowe otwarcie? Sem útleggst á íslensku sem: Evrópuráðsfundur í Reykjavík. Ný opnun?

Sendiráð Íslands í Frakklandi greindi frá útgáfu bókar Halldórs Armands sem kemur út á frönsku þann 19. maí næstkomandi. 

New York búar fengu að bragða á Íslandi en viðburðurinn Taste of Iceland fór þar fram dagana 10. - 13. maí.



Norrænar aðalræðisskrifstofur í New York buðu til viðburðar á svölum Chrysler byggarinnar með yfirskriftinni „Unlock your Startup“.

Þá naut Nikulás Hannigan, aðalræðismaður Íslands í New York, leiðsagnar Jenna Chrisphonte og Bill Rauch um Perelman Performin Arts Center sem er hluti nýbyggingarinnar á svæðinu þar sem tvíburaturnarnir stóðu áður.

Sendiráð Íslands í Malaví undirritaði samning við þarlend stjórnvöld um uppbyggingu grunnþjónustu Nkhotakota-héraðs. Verkefnið mun taka til menntunar, heilsu, ungmenna, kynjajafnréttis, hreinlætis og loftslagsmála. Samningurinn er sögulegur í sögu þróunarsamvinnu Íslands í Malaví en í 34 ár hefur þróunaraðstoðin verið meira eða minna bundin við Mangochi-hérað. Með þessu skrefi stækkar svið þróunaraðstoðar Íslands í landinu töluvert. 

Og fulltrúar sendiráðs Íslands og sendiráðs Írlands í Malaví heimsóttu Mangochi-hérað til að fylgjast með verkefnum þar um landamæravörslu og afstýringu átaka.

Þá ávarpaði Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Malaví, Wealth Women Summit, þar sem hundrað malavískum konum var veitt viðurkenning.

Sendiráð Íslands í Lundúnum greindi frá því að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid hafi verið viðstödd krýningu Karls III. Bretakonungs. 

Þá hélt sendiráðið, í samstarfi við Nordic Energy Research, skosku ríkisstjórnina og sveitastjórn Hjaltlandseyja, Net Zero Islands Network, viðburð, þar sem skipst var á þekkingu og hugmyndum um grænar lausnir.



Í Helsinki var mikið umleikis í kringum fund norrænna forsætisráðherra en með stuttum fyrirvara var tilkynnt að forseti Úkraínu, Volodymyr Selenskí yrði einnig gestur fundarins. 

Þá heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlandanna Álandseyjar. Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Helsinki tók þátt í heimsókninni. 

Harald lét ekki þar við sitja heldur hjólaði einnig frá Álandseyjum til Turku ásamt eiginkonu sinni Ásthildi Jónsdóttur þar sem þau heimsóttu ræðismann Íslands Jan Nygård sem fylgdi þeim í vel skipulagða dagskrá.

Ferðin var hluti af ævintýrum sjálfbæru sendiherrahjónanna sem fara hjólandi um Finnland og segja skemmtilega frá á samfélagsmiðlum. 

Framtakið hefur vakið þónokkra athygli og á dögunum fjallaði elsta dagblað Finnlands, Åbo Underrättelser um heimsókn þeirra til Åbo.

Sendiráð Íslands í Danmörku kynnti sýningu verðlaunamyndarinnar Hross í oss, sem sýnd var í Husets Biograf 10. maí síðastliðinn.

Nýlega heimsótti sendiherra Íslands í Berlín, María Erla Marelsdóttir, jarðhitavirkjun hjá Stadtwerke München í suður-Þýskalandi og ræddi hún við stjórn orkuveitunnar um uppbyggingu og notkun jarðvarma í München og í Bæjaralandi. Einnig tók hún þátt í málstofu á vegum þýska jarðhitasambandsins og var með erindi um þróun á notkun jarðhita á Íslandi.

Orkumál voru áberandi í Berlín en HS Orka og Orka náttúrunnar gáfu innsýn inn í íslenskan orkumarkað á viðburði þar í borg sem lesa má meira um hér. 

Þá hefur mikið verið um að vera í menningunni í Berlín, sem endranær. María Erla sendiherra var viðstödd opnun sýningar Guðnýjar Guðmundsdóttur í Gallery Gudmundsdottir.

Og norræna tónlistarhátíðin Nordischer Klang fer fram í Greifswald á næstu dögum með þátttöku íslenskra tónlistarmanna að sjálfsögðu.

 

Síðastliðinn miðvikudag bauð sendiráð Íslands í Berlín og skrifstofa Evrópuráðsins í Stassborg aðilum af þýska sambandsþinginu, ráðuneytum, stofnunum, blaðamönnum ásamt sendiherra Úkraínu í Berlín, Oleksii Makeiev, til fundar í húsnæði norrænu sendiráðanna í Berlín. Sendiherra Íslands, María Erla Marelsdóttir, ávarpaði fundinn, en efni fundarins var komandi leiðtogafundur Evrópuráðsins í Reykjavík, þar sem Úkraína verður einna helst í brennidepli.

Viðburðaröð sendiráðs Íslands í Ottawa, sendiráðs Kanada á Íslandi, Norðurslóðanets Íslands og Polar Knowledge Canada heldur áfram 23. maí næstkomandi, nú með vefnámskeiði um fjölbreytni og jafnrétti í tengslum við vinnustaðamenningu.


Sendiráðið í Nýju-Delhí studdi ráðstefnuna "Arctic and Antarctic, the Future of Arctic Ice" þar sem Hjalti Ómar Ágústsson sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu á Akureyri flutti fyrirlestur hinn 28. apríl síðastliðinn um stöðu kvenna á Norðurslóðum. Ráðstefnan var haldin af stofnuninni „Science and Geopolitics in the Arctic and the Antarctic“ (SaGAA) og er helsta sérfræðingaráðstefna á Indlandi um Norðurslóðir. 

 
Þórir Ibsen sendiherra í Peking var í vikunni á ferð í Shangdon fylki Kína í boði héraðs- og borgarstjórna. Í för með honum voru fulltrúar frá samstarfsaðila Carbon Recycling International í Kína. Voru ýmis iðnaðarsvæði sótt heim auk þess sem sendiherra átti fundi með héraðs- og sveitarstjórnafólki um íslenska græna tækni í matvælaiðnaði, orkuvinnslu og föngun kolefnis og endurnýtingu þess. Þá flutti hann erindi um íslenska reynslu og þekkingu á þessum sviðum ásamt fulltrúa Carbon Recycling International á málstofu um samstarf um notkun grænnar tækni og tækni sem dregur úr losun CO2 í iðnaði og orkuvinnslu.

https://twitter.com/ThorirIbsen/status/1658727540087717890?s=20

 

 

 

Við minnum að endingu á fréttaveituna Heimsljós!

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta