Hoppa yfir valmynd
22. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 22. september 2023

Heil og sæl, 

Nú er liðin vika frá því að síðasti föstudagspóstur leit dagsins ljós og það þýðir bara eitt: það er aftur kominn föstudagur. 

Í vikunni var sagt frá því á stjórnarráðsvefnum að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna segja skipta miklu máli að Ísland hafi gott orðspor í alþjóðasamfélaginu og langflestir telja þátttöku Íslands í alþjóðasamvinnu styrkja fullveldi Íslands og að hagsæld þjóðarinnar byggi að miklu leyti á alþjóðlegum viðskiptum.

Í ljósi þessa er skemmtilegt að segja frá liðinni viku sem var venju fremur viðburðarrík í utanríkisþjónustunni.

Í New York fór fram allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem að öllum öðrum þingum ólöstuðum hlýtur að teljast stærsti viðburður í alþjóðasamfélaginu ár hvert. Í upphafi hvers þings hittast þjóðarleiðtogar aðildarríkjanna 193 í New York á svokallaðri ráðherraviku og ráða ráðum sínum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra mætti að sjálfsögðu á þingið ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem fór fyrir sendinefnd Íslands. 

Á öðrum sendiskrifstofum var ekki slegið slöku við frekar en fyrri daginn en við byrjum yfirferð vikunnar í New York og fikrum okkur svo áfram um heimskortið.

Áðurnefnd ráðherravika allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna hófst með látum þegar fundarhamar sem notaður er á þinginu, gjöf frá Íslandi til Sameinuðu þjóðanna, brotnaði. Reyndar er það ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist en sögu hamarsins lesa í þessari skemmtilegu samantekt

Fall er fararheill eins og Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands í New York komst að orði og hefur þingið gengið ágætlega síðan með fjöldamörgum viðburðum alla vikuna. 

Það hófst á leiðtogafundi um heimsmarkmiðin. Þá var boðað til leiðtogafundar um lofstslagsmál og ráðherrafunda um heilbrigðismál, fjármögnun þróunar og undirbúningsfundar fyrir leiðtogafund um framtíðina sem haldinn verður á næsta ári.

Þingið er líka tækifæri til að hitta fjölmarga þjóðarleiðtoga á tvíhliðafundum og nýtti utanríkisráðherra það í heilmiklum mæli, auk þess sem undirritaðir voru rammasamningar við fjórar áherslustofnanir í alþjólegri samvinnu Íslands um þróunar- og mannúðarmál: UN Women, UNICEF, UNFPA og UNRWA.

Fastanefnd Íslands í New York ber hitann og þungann af heimsókn ráðherranna til New York á allsherjarþingið ár hvert. Umfangið er mikið en vinnan er bæði skemmtileg og gefandi eins og sést á uppljómuðum andlitum sendinefndarinnar í upphafi vikunnar. 

Það var ekki síður mikið umleikis hjá sendiráði Íslands í Peking en þar í borg fór fram Alþjóðleg jarðvarmaráðstefna, Arctic Green Energy, með þátttöku Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þórir Ibsen sendiherra opnaði sérstaka dagskrá um samstarf Íslands og Kína á sviði jarðvarmanýtingar þar sem meðal annars Halla Hrund Logadóttir, Orkumálastjóri flutti ávarp. Fjöldi fyrrverandi nemenda jarðhitaskólans sóttu ráðstefnuna og móttaka var haldin í sendiráðinu af tilefninu þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands var heiðursgestur. 

Þá tók Þórir Ibsen sendiherra þátt í hringborðsumræðum um samskipti Kína og Evrópu, sem haldið var á vegum kínversku hugveitunnar Centre for China and Globalization. Sendiherrar frá Evrópuríkum ræddu viðskiptamál og samstarf á sviði loftslagsmála við WU Hongbong, sérlegan fulltrúa Kína í málefnum Evrópu. Þeir skiptust og á skoðunum um stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu.

Í Brussel fóru fram fundir bæði Fastanefndar EFTA og Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Sesselja Sigurðardóttir, staðgengill sendiherra, tók þátt í fundunum fyrir Íslands hönd. 

Þá heimsótti stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga Brussel á dögunum. Kristján Andri Stefánsson sendiherra tók á móti hópnum og sagði frá starfsemi sendiráðsins og hagsmunagæslu í tengslum við EES samninginn.

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Kampala, ásamt héraðsyfirvöldum í Namyingo, öðru tveggja samstarfshéraða Íslands í Úganda, tóku fyrstu skóflustunguna í byggingu tveggja skóla og hreinlætisaðstöðu við sjö skóla í Namayingo héraði. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið í desember. 

Norrænu frumkvöðlaverðlaunin voru afhent í Kaupmannahöfn og af því tilefni komu sendiherrar Norðurlandanna, þeirra á meðal sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Árni Þór Sigurðsson, saman í finnska sendiráðinu til að ræða um sameiginlega reynslu við að styrkja lýðræðisleg gildi og menningu með áherslu á ungt fólk. 

Í Malawi hélt sendiráðsstarfsfólkið upp á alþjóðadag friðar og sagði frá friðarverkefni sem Ísland vinnur með þarlendum stjórnvöldum. 

Guðni Bragason sendiherra Íslands í Nýju Delí bauð nokkrum úr hópi Indversk-íslenska viðskiptaráðsins (IIBA), sem hyggja á ferð til Íslands í lok september, til kvöldverðar. 

Í París tók fastafulltrúi okkar hjá OECD sem jafnframt er sendiherra Íslands í Frakklandi, Unnur Orradóttir Ramette, þátt í viðburði sem sendiráðið hélt í tengslum við alþjóðlega jafnlaunadaginn sem Ísland átti þátt í að koma á laggirnar fyrir fjórum árum síðan. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hélt lykilávarp. 

Það var skammt stórra högga á milli í París því síðar í vikunni heimsótti Karl III Bretakonungur borgina og sótti sendiherrann athöfn við Sigurbogann sem haldinn var honum til heiðurs.

Og svo opnaði hún sýningu á málverkum listakonunnar Arngunnar Ýrar Gylfadóttur "Jökullinn, fegurðin og hið óþekkta í íslenskri samtímalist" í embættisbústaðnum í París.

 













Sendiráð Íslands í Stokkhólmi stóð fyrir vel heppnuðum viðburði í samstarfi við Íslandsstofu um ýmislegt sem Ísland hefur upp á að bjóða í ferðamannabransanum.

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands í Japan tók þátt í alþjóðlegri jarðvarmaráðstefnu Indónesíu sem haldin var í níunda sinn á dögunum. Þar kom hann á framfæri reynslu og þekkingu Íslands á sviði nýtingar jarðvarma.  

Sendiráð Íslands í Varsjá hélt upp á jafnlaunadaginn og greindi frá erindi Kristjönu Guðbjartsdóttur sem hún hélt í borginni um jafnrétti á Íslandi. 

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra Íslands í Washington, ásamt kollegum frá Grænlandi og Færeyjum gerði vestnorrænni menningu hátt undir höfði með glæsibrag.

Við ljúkum föstudagspóstinum að þessu sinni á því að minna á tvo viðburði framundan sem vert er að kanna nánar og auðvitað skrá sig á: 

Friðarráðstefnuna sem fram fer í Hörpu 10. og 11. október næstkomandi

og ráðstefnu um plast á Norðurslóðum en nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér snemmskráningar afsláttinn sem rennur út þann 30. september næstkomandi. 

Lesefnið fyrir helgina finnið þið í Heimsljósi, - upplýsingaveitu okkar um þróunar- og mannúðarmál en þar var meðal annars greint frá því að fulltrúar Íslands úr nýstofnuðu sendiráði Íslands í Sierra Leone voru viðstaddir útskriftarathöfn vegna fæðingarfistils þar í landi og fjallað um frumkvæði Íslands að umræðum um stöðu kvenna í Afganistan á títtnefndu allsherjarþingi.

Hlýjar haustkveðjur,
upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta