Hoppa yfir valmynd
13. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 13. október 2023

Heil og sæl, 

Þessi vika hefur ekki verið tíðindalítil, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Stormasamar sviptingar á alþjóðasviðinu og í okkar eigin ríkisstjórn settu svip sinn á dagana og meira að segja veðrið tók skarpa stefnu, lóðbeint í vetrargír.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hóf vikuna á fordæmingu á hryðjuverkum Hamasliða í Ísrael og tók þar undir raddir kollega sinna víðsvegar um heim. Lýsti ráðherra yfir sorg vegna voðaverkanna og hvatti til þess að vítahring ofbeldis á svæðinu myndi linna. 

Svo var hafist handa við að koma Íslendingum sem stödd voru í Ísrael heim með sem skjótustum hætti. Icelandir lagði til flugvél sem upprunalega stóð til að flygi til Tel Aviv en vegna öryggissjónarmiða lenti á endanum í Amman í Jórdaníu, þangað sem strandaglóparnir gátu ferðast með rútum. Vélin tók á loft frá Jórdaníu 9. október, tæpum tveimur sólarhringum eftir að árásin átti sér stað. Í vélinni voru 126 Íslendingar ásamt 5 Færeyingum, 4 Norðmönnum, flugáhöfn og fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu. Þar að auki var í vélinni 12 manna hópur þýskra skólabarn. Kunnu þýsk stjórnvöld Íslandi góðar þakkir fyrir björgunina. 

Á þriðjudag hófst árleg Friðarráðstefna sem þetta árið fjallaði um norræna samstöðu um frið. Aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Amina J. Mohammed, ávarpaði gesti og tók þátt í pallborðsumræðum við upphaf ráðstefnunnar. Hún var ánægð með heimsóknina en auk þess að taka þátt í ráðstefnunni átti hún fundi með utanríkisráðherra, utanríkismálanefnd alþingis, forseta Íslands, forsætisráðherra og ungliðum.

Utanríkisráðherra ávarpaði að sjálfsögðu ráðstefnuna og minnti enn á mikilvægi þess að alþjóðalög væru virt

Sama ákall mátti finna í yfirlýsingu Catherine Russel, framkvæmdastjóra UNICEF, einnar helstu samstarfsstofnunar Íslands í þróunarmálum, sem í yfirlýsingu sinni fordæmir alvarleg brot sem eru framin á börnum í Ísrael og á Gaza svæðinu um þessar mundir og ítrekaði mikilvægi þess að farið sé að alþjóðalögum og að mannúðarstofnanir fái að sinna sínu starfi og hafi öruggt aðgengi til að koma hjálpargögnum á rétta staði. Yfirlýsinguna má finna á Heimsljósi, fréttaveitu okkar um mannúðar- og þróunarmál.  

Í lok vikunnar fór ráðherra ásamt fríðu föruneyti til Svíþjóðar á fund leiðtoga ríkja Sameiginlegu viðbragssveitarinnar. Í leiðinni hitti hún forstöðumann sænsks ígildis Íslandsstofu

og átti tvíhliðafund með utanríkisráðherra Svíþjóðar Tobias Billström.

Þá hitti ráðherra á dögunum hagsmunaaðila í viðskiptum, ferðaþjónustu, menningu og háskólasamstarfi með sterk tengsl við Pólland. Fundurinn var skipulagður af sendiráði Íslands í Póllandi.

Hefjum yfirferð yfir líf og störf á sendiskrifstofunum í Vínarborg. Helga Hauksdóttir afhenti forseta Austurríkis, dr. Alexander van der Bellen trúnaðarbréf sitt.

Sendiherra Íslands í Berlín María Erla Marelsdóttir fundaði með forsætisráðherra sambandslandsins Brandenborg, Dr. Dietmar Woidke í Potsdam þar sem þau ræddu samstarf Íslands og Brandenborgar á ýmsum sviðum m.a. jarðhita, vísinda og menningar. Einnig heimsótti hún orkuveitu Potsdam og fundaði með framkvæmdastjóra orku- og vatnsveitukerfa borgarinnar Christiane Preuss, og ræddu þær saman um jarðhitaverkefni í borginni og aframhaldandi samstarf á því sviði. 

Íslenski píanóleikarinn Víkingur Heiðar fékk afhent Opus Classic verðlaunin sem besti hljóðfæraleikari ársins á verðlaunaathöfn í Berlín núna á sunnudaginn var. Sendiráðunautur sendiráðsins í Berlín Ágúst Már Águstsson var viðstaddur athöfnina. 

Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi, sem jafnframt hefur Eistland í umdæmi sínu, sótti hádegisverðarfund utanríkisráðherra Eistlands þar sem tilkynnt var um tilnefningu Eista hvað varðar kjör í Alþjóðlega sakamáladómstólinn.

Okkar fólk í Helsinki hefur haft í nógu að snúast. Á laugardag hittu sendiherrahjónin Hernán Rojas, hljóðtæknimanninn, útvarpsmanninn og framleiðandann, sem hefur á undanförnum árum rannsakað hvernig tónlist getur aukið vitund fólks um sjálfbæra þróun. 

Þá opnuðu þau tvær listasýningar í gær

Sendiráðið þakkaði svo kjörræðismönnum Íslands í Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi og Litáen fyrir komuna en þeir funduðu í sendiráðinu í dag um málefni líðandi stundar og verkefni kjörræðismanna.

Í Kaupmannahöfn sótti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra norrænan ráðherrafund um sjálfbæran hagvöxt sem haldinn var á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. 

Árni Þór Sigurðsson sendiherra hitti svo fulltrúa Íslands á ársfundi þings Atlantshafsbandalagsins sem fór fram í Kaupmannahöfn.

Í London var sett upp ljósmyndasýning Ásgeirs Péturssonar í sendiráðinu.

Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hélt ræðu um gervigreind á vettvangi fyrstu nefndar Sameinuðu þjóðanna.

Í París var Orradóttir Ramette, sendiherra, var viðstödd opnun sýningar listakonunnar Örnu Gnáar Gunnarsdóttur.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra Íslands í Washington hitti þingmanninn Eric Swalwell og átti með honum hugvekjandi fund, meðal annars um samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði viðskipta og varnarmála.

Sendiráðið í Washington fékk jafnframt heimsókn frá nemendum í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ. Starfsmenn sendiráðsins gáfu kynningu um helstu verkefni, áherslur og nýlega hápunkta í starfi og boðið var upp á kaffi og kleinuhringi. Skemmtilegar umræður sköpuðust í kjölfarið. 

Eric Carlson, nýr Senior Arctic Official hjá Bandaríska utanríkisráðuneytinu kíkti líka í sendiráðið og ræddi við Bergdísi Ellertsdóttur sendiherra um þátttöku sína á Hringborði norðurslóða í Reykjavík í næstu viku.  

Og bandarísku öldungadeildarþingmennirnir og Íslandsvinirnir Lisa Murkowski (R-Alaska) og Angus King (I-Maine), sem eru í norðurslóðanefndar öldungadeildarinnar, lögðu fram frumvarpið “Nordic Trader and Investor Parity act“. Markmið frumvarpsins er að gera íslenskum fjárfestum auðveldara fyrir að fara á milli Íslands og Bandaríkjanna í því skyni að eiga viðskipti þar í landi. 

Hér er hægt að sjá frumvarpið sjálft

Í Tókýó voru gagnaver á dagskrá á viðburði í sendiráði Íslands.

Ragnar Þorvarðarson sendiráðunautur hjá sendiráði Íslands í Tókýó hélt til Kyoto þar sem hann sinnti málsvarastarfi á sviði kynjajafnréttis sem er eitt af lykiláherslumálum í utanríkisstefnu Íslands

Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Peking stýrði samtali við vísindamenn um það hvernig karlmenn geti stutt betur við konur í vísindum og rannsóknum, á ráðstefnu á vegum UNDP í Shaozing sem haldin var í tengslum við 2023 World Women Scientist Conference 

Degi evrópskra tungumála var fagnað í Bachów í Póllandi líkt og sendiráð okkar í Varsjá vakti athygli á.

Degi stúlkubarnsins var jafnframt fagnað víða á sendiskrifstofum okkar.

Íslenska heimildamyndin Hækkum rána var sýnd í Brussel í tilefni af degi stúlkubarnsins. Kristján Andri Stefánsson bauð gesti velkomna og talaði um mikilvægi þess að halda áfram baráttunni í átt að jafnrétti. "Þegar konur væru ekki aðilar að vinnumarkaðnum til jafns við karla værum við aðeins að spila með helming liðsins inni á vellinum," segir m.a. í færslu sendiráðs okkar í Brussel á Facebook.

Í London, þar sem Ísland tók ásamt fleiri sendiráðum þátt í verkefninu Ambassador for a Day: 

Í Úganda, þar sem jafnframt var haldið upp á 25 ára afmæli almennrar grunnmentunar:

Og í Malaví: 

Við ljúkum þessum föstudagspósti á fréttum af árlegri skýrslu Mannfjöldstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) sem var í vikunni í fyrsta sinn formlega gefin út og kynnt á Íslandi. Athöfnin fór fram í Kvennaskólanum í Reykjavík í fullum sal af nemendum í kynjafræði sem spurðu fjölmargra hugvekjandi spurninga í kjölfar kynningar á skýrslunni. 

Óskum ykkur góðrar helgar! 

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta