Hoppa yfir valmynd
08. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á mánudegi 8. apríl 2023

Heil og sæl, 

Við snerum aftur til vinnu endurnærð eftir páskafrí síðastliðinn þriðjudag, þakklát fyrir hvíldina og til í slaginn. Alþjóðasamfélagið sefur samt aldrei og þrátt fyrir nokkra frídaga var nóg um að vera hjá sendiskrifstofum okkar víða um heim. 

Öryggis- og varnarmál eru almennt ofarlega á baugi þessa dagana og verkefni utanríkisþjónustunnar taka auðvitað mið af því. Atlantshafsbandalagið varð 75 ára þann 4. apríl síðastliðinn og af því tilefni var haldinn utanríkisráðherrafundur bandalagsins í Brussel. Á fundi ráðherranna voru til umræðu helstu mál á vettvangi bandalagsins í aðdraganda leiðtogafundarins sem fer fram í Washington D.C. í júlí. Hermann Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu tók þátt á fundinum fyrir Íslands hönd.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra tilkynnti um innkaup á búnaði fyrir konur í úkraínska hernum auk þess sem stutt verður við innkaup Tékklands á skotfærum fyrir Úkraínu. 

„Það er brýnt að halda áfram að styðja Úkraínu af krafti, en þannig leggjum við ekki aðeins okkar af mörkum til varnar íbúum landsins, heldur sömuleiðis alþjóðalögum í stærra samhengi og okkar eigin öryggishagsmunum. Stefna um stuðning við Úkraínu sem nú liggur fyrir Alþingi mun ramma þennan stuðning inn til lengri tíma, en á sama tíma ætlum við áfram að hreyfa okkur hratt og styðja við frumkvæðisverkefni af þessu tagi,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra af því tilefni. 

Samstarfssamningur við Varðberg var undirritaður í tilefni af fyrrnefndu 75 ára afmæli Atlantshafssáttmálans. Samningurinn nær til afmarkaðra verkefna, þar með talið ráðstefnuhalds, kynninga og fræðslu. 

Þótt varnarmálin séu áberandi þessa dagana eru þau langt frá því að vera eina verkefni utanríkisþjónustunnar. Annað stórt málefni er til að mynda þróunarsamvinna en á dögunum bárust góðar fréttir af útttekt verkefnis Hjálparstarfs kirkjunnar sem fjármagnað er með stuðningi í gegnum rammasamning við utanríkisráðuneytið. Verkefninu, sem er ætlað að minnka atvinnuleysi og tengda fátækt í fátækrahverfum höfuðborgarinnar Kampala. Lesa má meira um árangur verkefnisins í frétt á vef stjórnarráðsins

Íslensk stjórnvöld hafa stutt við verkefni á sviði vatns- og hreinlætismála í afskekktum sjávarþorpum Síerra Leóne frá árinu 2018, í samstarfi við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og þarlend stjórnvöld. Samstarfið við UNICEF á sviði vatns- og hreinlætismála er eitt af lykilverkefnum sendiráðs Íslands í Freetown. Auk áskorana tengdum aðgangi að vatni- og hreinlæti hefur plastmengun töluverð áhrif á lífsviðurværi samfélaga í sjávarþorpunum. Enn fremur setur plastið bæði fæðuöryggi og efnahag Síerra Leóne í hættu. Af þessum sökum hafa tvær endurvinnslustöðvar verið settar upp í þorpunum Tombo og Konakrydee. Þar hafa ungmenni verið þjálfuð í hvernig nýta megi plastúrgang og annað sorp til framleiðslu, t.d. á múrsteinum og orkusparandi eldhlóðum.

Meira má lesa um verkefnið hér

Hildigunnur Engilbertsdóttir forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala afhenti trúnaðarbréf sitt ráðherra utanríkismála í Úganda, Henry Oryem Okello. Á fundi þeirra ræddu þau samstarf ríkjanna á sviði þróunarsamvinnu og á alþjóðasviðinu.

Kvikmyndin Einvera í leikstjórn Ninnu Pálmadóttur var forsýnd í Frakklandi í Les Halles bíóhúsinu í París í gærkvöldi. Leikstjórinn var viðstödd forsýninguna og kynnti myndina fyrir fullum bíósal gesta. Una Jóhannsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi, var einnig viðstödd. Ninna verður á ferð um Frakkland til að kynna myndina þessa viku og næsta stopp er alþjóðlega kvikmyndahátíðin MCM í Marseille.

Sýning íslenska myndlistmannsins Reinar Foreman var opnuð í Galerie de Buci í gær í samstarfi við sendiráð Íslands í París. Sýningin sem ber heitið „Living Gods“ er fyrsta einkasýning listamannsins í Frakklandi en hann hefur áður haldið sýningar í Þýskalandi, Rússlandi og á Íslandi. Í málverkum sínum vinnur Reinar með túlkun á styttum af persónum klassískrar goðafræði þar sem guðirnir lifna við á á litríkum striga.  

Sýningin stendur til 16. maí nk.

Katrín Jakobsdóttir forsætisáðherra heimsótti Brussel til að taka þátt í fundi leiðtogaráðs ESB. Fundurinn var haldinn í tilefni 30 ára afmælis EES samningsins. 

Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi bauð til móttöku í sendiráðsbústaðnum þar sem haldið var upp á innkomu íslenska orkudrykksins Collab á finnskan markað. 

Í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn lék listin aðalhlutverk. Vakin var athygli á árlegri páskasýningu myndlistarmannsins Páls Sólnes.

Auk sýningar Steinunnar Þórarinsdóttur, Human, sem opnar þann 6. apríl næstkomandi í Augustenborg á Suður Jótlandi. Árni Þór Sigurðsson sendiherra kemur til með að flytja ávarp við opnun sýningarinnar. 

María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Þýskalandi opnaði norrænu kvölddagskrána á bókamessunni í Leipzig í ár en norðurlöndin hafa verið þar árlega með sameiginlegan bás og dagskrá um langt skeið. Tveir íslenskir höfundar voru viðstaddir, Halldór Guðmundsson með bók sína sem einungis hefur komið út á þýsku „Im Schatten des Vulkans“ eða í skugga eldfjallsins og Stefán Máni með bók sína „Hyldýpi“. Fjöldi fólks kom á norræna básinn þar sem báðir höfundarnir kynntu bækur sínar og nýútkomnar bækur fjölmargra höfunda voru til sýnis. Þess má geta að bókin „Blokkin á heimsenda“ eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur hefur verið tilnefnd til þýsku barnabókaverðlaunanna.

Í nýlegri fjölmiðlaheimsókn til Malaví varð hús tekið á vinum okkar í fótbolaliðinu Ascent Soccer en eins og landsmenn muna kom lið frá þeim á Rey Cup á síðasta ári þar sem þau gerðu sér lítið fyrir og unnu alla sína leiki. 

Gleðilegi fréttir bárust frá Mangochi héraði þar sem stuðningur Íslands skiptir sköpum fyrir heilmörg verkefni sem stuðla að því að bæta lífsgæði fólks á svæðinu. 

Dásamlegur kórsöngur fyllti sænsku kirkjuna við Harcourt stræti í gær þegar íslenski kórinn í London og kvennakórinn Ljóstbrot tóku höndum saman í vorguðsþjónustu íslenska safnaðarins. Starfsfólk sendiráðs okkar í London var á staðnum.

Vínartertan sló í gegn í Ottawa á hátíð mismunandi menningarheima. Þar notaði sendiráðsstarfsfólk okkar í Kanada tækifærið og vakti athygli gesta og gangandi á nýlegum samningi um nemendaskipti milli Íslands og Kanada. 

Starfsfólk sendiráðs okkar í Stokkhólmi fékk góða heimsókn í dymbilvikunni frá Foreign Affairs Association Stockholm. Félagið fékk góða kynningu frá sendiherra okkar í Svíþjóð Bryndísi Kjartansdóttur um meðal annars starfssemi sendiráðsins og samvinnu ríkjanna tveggja.

Útgáfutónleikar Önnu Grétu vegna plötunnar Star of Spring fara fram í Musikaliska Kvarteret í Stokkhólmi næstkomandi föstudag. Anna Gréta hefur að undanförnu getið sér gott orð í sænsku jazz-senunni sem og alþjóðlega fyrir tónlist sína. 

Íslenskur æðardúnn í öllum sínum gæðum var á dagskrá hjá Stefáni Hauki Jóhannessyni sendiherra Íslands í Japan á fundi hans með japönsku söluteymi Nishikawa, stórs fyrirtækis í sængurfatageiranum þar í landi. 

Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Kína heimsótti rannsóknarmiðstöðima í Jinan háskóla og átti þar fund með LIU Zongming, rektor háskólans.

Þórir var jafnframt með fyrirlestur fyrir nemendur háskólans um utanríkisstefnu Íslands og samskipti við Kína.

Eitt af lykilmálum í íslenskri utanríkisstefnu eru mannréttindi hinsegin fólks. Sendiskrifstofur okkar liggja ekki á liði sínu í baráttunni sem meðal annars felst í öflugu málsvarastarfi.Þann 26. mars sl. var haldinn hátíðlegur svokallaður kváradagur, ígildi konudags og bóndadags fyrir kynsegin fólk. Starfsfólk sendiráðs okkar í Póllandi og fleirum vöktu athygli á deginum.

Eins og áður hefur verið greint frá á þessum vettvangi eru 100 ár liðin frá því að viðskiptatengsl komust á milli Póllands og Íslands nú í ár. Sendiráðsstarfsfólk okkar í Varsjá heldur af því tilefni áfram að vekja athygli á íslenskum fyrirtækjum sem starfa í Póllandi, þeirra á meðal er sjávarútvegsfyrirtækið Marel. 

Á vettvangi fastanefndar Íslands hjá mannréttindaráðinu í Genf hélt Einar Gunnarsson fastafulltrúi ræðu á degi Alþjóðadags gegn mismunun kynþátta fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

Þar að auki kom Einar Gunnarsson fastafulltrúi á framfæri áhyggjum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja af mannréttindabrotum sem fregnir bárust af frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra Íslands í Bandaríkjunum hitti Lindu Fagan Aðmírál ásamt norrænum kollegum, á fundinum var rætt um Atlantshafsbandalagið, norðurslóðir, jafnrétti og fleira. 

Varnarmálafulltrúi sendiráðs okkar í Washington D.C. Garðar Forberg tók þátt í hátíðarhöldum vegna fyrrnefnds 75 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins ásamt kollegum.

Sú ákvörðun var tekin á dögunum að hvorki meira né minna þrefalda framlag Íslands til Global Equality Fund hvers megin markmið er að auka sýnileika hinsegin fólks og gæta þess að mannréttindi þeirra séu virt. 

Á vettvangi fastanefndar Íslands í Sameinuðu þjóðunum í New York eru stóru málin alltaf á dagskrá. Í síðustu viku fór fram umræða um mögulegan alþjóðasamning um glæpi gegn mannúð í laganefnd allsherjarþingsins. Stjórn umræðnanna var í öruggum höndum okkar eigin Önnu Pálu Sverrisdóttur, sendiráðunautar hjá fastanefnd Íslands ásamt kollegum frá Gvatemala og Malasíu.

Helga Hrönn Karlsdóttir lögfræðingur á laga- og stjórnsýsluskrifstofu hélt ræðu fyrir hönd Norðurlandanna þar sem meðal annars var kallað eftir því að fórnarlömbum glæpa gegn mannúð væri sýnd virðing með staðfestingu alþjóðasamnings um málefnið. 

23. mars ár hvert höldum við hátíðlegan dag Norðurlandanna. Norrænt samstarf í sendiráðum og fastanefndum okkar víða um heim er okkur gríðarlega mikilvægt enda er um að ræða öfluga bandamenn sem deila sömu gildum og efla tengslanet okkar á alþjóðavettvangi svo um munar. Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York hélt daginn hátíðlegan með norrænum kollegum í borginni. 

Unnur Orradóttir Ramette sendiherra Íslands í Frakklandi minnti á að óhætt er að ferðast til Íslands þrátt fyrir tíð eldgos um þessar mundir. 

Hjá fastanefnd Íslands gagnvart Evrópuráðinu í Strassborg var greint frá því að Katrín Jakobsdóttir sitjandi forsætisráðherra væri meðal 75 kvenna sem minnst er fyrir framlag þeirra til ráðsins í 75 ára sögu þess. 

Borgarstjóri Reykjavíkur Einar Þorsteinsson heimsótti Strassborg til að taka þátt í umræðum um umhverfismál. Fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu Ragnhildur Arnljótsdóttir tók vel á móti honum. 

Fleira var það ekki að sinni. 

Við óskum ykkur góðrar og gleðilegrar vinnuviku. 

Upplýsingadeild. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta