Hoppa yfir valmynd
17. maí 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 17. maí 2024

Heil og sæl, 

Haldið ykkur fast, hér kemur hvorki meira né minna en þrefaldur föstudagspóstur. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hélt til Georgíu í vikunni ásamt utanríkisráðherrum Eistlands, Lettlands og Litáens. Ferð ráðherranna var farin í framhaldi af sameiginlegri yfirlýsingu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8-ríkjanna) sem gefin var út síðasta föstudag. 

„Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hafa stutt dyggilega við vegferð Georgíu í átt að efnahagslegum og lýðræðislegum umbótum, allar götur síðan þjóðin öðlaðist sjálfstæði á ný,“ segir Þórdís Kolbrún. „Við óttumst að nýsamþykkt lög um meint gagnsæi erlendra áhrifa muni hafa neikvæð áhrif á stöðu Georgíu í hinum frjálsa heimi og þá er hún í andstöðu við greinilegan meirihlutavilja georgísku þjóðarinnar líkt og viðbrögð almennings bera með sér. Við þessu vildum við bregðast, en valið er að lokum alltaf í höndum Georgíu.“

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál var til umræðu á Alþingi í vikunni þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hafði framsögu og veitti andsvör. Í skýrslunni eru atburðir síðasta almanaksárs í utanríkismálum Íslands raktir ítarlega. 

Utanríkisráðherra kom að venju víða við. Til að mynda opnaði hún ráðstefnu sem haldin var í tilefni af 30 ára afmæli EES samningsins. Í máli sínu minnti hún á að undirritun EES samningsins hefði verið mikið heillaspor fyrir þjóðina og að árangur Íslands af EES samstarfinu væri óumdeilanlegur fyrir hagsæld lands og þjóðar.

Þá ávarpaði ráðherra einnig málþing í tilefni af 75 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins. Í ávarpi sínu fór hún yfir sögu Íslands innan bandalagsins sem eitt af tólf stofnríkjum þess. Hún gerði að umtalsefni áherslu Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, sem undirritaði Atlantshafssáttmálann fyrir Íslands hönd árið 1949, á að aðild Íslands snerist ekki einvörðungu um að tryggja okkar eigin varnir heldur um að leggja eitthvað af mörkum til sameiginlegra varna þeim gildum sem eru undirstaða okkar frjálsa samfélags. 

Í heimsókn sinni til Færeyja á dögunum hitti Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra Færeyja Høgna Hoydal og ræddu þau traust og náið samband frændþjóðanna. 

Í sömu heimsókn var ný langtímastefna fyrir norrænt varnarsamstarf (NORDEFCO) til ársins 2030 undirrituð á fundi varnarmálaráðherra Norðurlandanna.

Ný sendiskrifstofa Íslands í höfuðborg Síerra Leone, Freetown var formlega opnuð í byrjun mánaðar og var boðið til sérstakrar hátíðarmóttöku af því tilefni og var skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu Elín R. Sigurðardóttir viðstödd hátíðarhöldin.

„Það skiptir máli að nú sé loksins búið að opna sendiskrifstofuna okkar í Freetown formlega en undirbúningur hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Helstu verkefni skrifstofunnar snúa að þróunarsamvinnu og þar með er Síerra Leóne orðið þriðja samstarfsríki Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu, til viðbótar við Malaví og Úganda. Við viljum gera gagn auk þess að dýpka samstarf við Síerra Leóne og opnun sendiskrifstofunnar í Freetown er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra af tilefninu.

 

Tuttugu og fimm sérfræðingar frá fimmtán löndum voru útskrifaðir frá Sjávarútvegsskóla GRÓ við hátíðlega athöfn á miðvikudaginn. Hópurinn hefur dvalið á Íslandi við nám síðustu sex mánuði og er sá 25. sem lýkur námi við skólann. Með útskriftinni á miðvikudaginn hafa því 488 nemendur frá 60 samstarfslöndum útskrifast frá skólanum.

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífsins í þróunarsamvinnu tók þátt í Íslensku nýsköpunarvikunni 14-16 maí sl. Markmiðið var að vekja athygli á sjóðnum meðal nýskapandi fólks og fjárfesta sem eru utan hefðbundins áhugahóps um þróunarsamvinnu og benda á þau mýmörgu tækifæri til nýsköpunar sem eru í Afríku. Á skjánum voru myndbönd um verkefni sem sjóðurinn hefur styrkt og Tawonga Msowoya frá Malaví, sem nýlokið hefur 6 mánaða námskeiði hjá jafnréttiskóla GRÓ, hafði viðveru á svæði sjóðsins og svaraði spurningum gesta. Þess má geta að kaffi frá Malaví sem Íslendingar hafa fjárfest í var í boði á nýsköpunarvikunni.

Sameiginlegt lið Íslands og Svíþjóðar tók þátt í stærstu netvarnaræfingu heims sem skipulögð er af Netvarnarsetri Atlantshafsbandlagsins í Tallin. Æfingin er sett upp sem keppni, þar sem liðin vinna að því að hnekkja hörðum net- og tölvuárásum óvinveittra aðila og er mikilvægur liður í að styrkja netvarnir á Íslandi.

Viðskiptafulltrúi sendiráðs Íslands í Osló, Heba Líf Jónsdóttir tók þátt í vinnustofu þar sem Ísland var kynnt sem áfangastaður fyrir norskum aðilum innan fjölmiðlageirans. 

Kórinn LAFFÍ hélt afmælistónleika þann 30. apríl síðastliðinn í St. Edmunds kirkju í Osló. Kórinn leggur áherslu á íslenska tónlist og samastendur af 20 söngvurum, öll með sína tengingu við Ísland og/eða íslenska tungu og vakti sendiráðsstarfsfólk okkar í Osló að sjálfsögðu áhuga á tónleikunum. 

Sendiherra Íslands í Noregi Högni Kristjánsson heimsótti norsku Atlantshafsnefndina og fundaði með framkvæmdastjóra hennar, Kate Hansen Bundt.  

Starfsfólk sendiráðs okkar í Osló vekur athygli á bók eftir sagnfræðiprófessorana Hans Jacob Orning (UiO) og Svein Harald Gullbekk (Kulturhistorisk Museum) um íslenska munkinn og pílagrímann Nikulás Bergsson sem á augljóst erindi við alla íslenska lesendur

Glæný jazz hátíð lítur dagsins ljós í Noregi í júní með dyggum stuðningi sendiráðs okkar í Osló. Á hátíðinni verður kastljósinu beint að íslensku og norsku jazz senunni. 

Sendiherra Finnlands var gestgjafi sendiherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Osló á fundi sem átti sér stað þann 6. maí síðastliðinn. Högni S. Kristjánsson sendiherra Íslands í Noregi sótti að sjálfsögðu fundinn þar sem heiðursgestur var Erna Solberg formaður Hægri flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. 

Þá sótti hann fund sendiherra Eistlands þar sem heiðursgestur var umhverfis- og loftslagsráðherra Noregs, Andreas Bjelland Eriksen. Einnig tóku þátt sendiherrar Norðurlandanna og annarra Eystrasaltsríkja í Osló.

Utankjörfundakosning vegna forsetakosninganna á Íslandi stendur nú sem hæst. Á öllum sendiskrifstofum er vel tekið á móti Íslendingum á svæðinu sem vilja kjósa utan kjörfundar. 

Í sendiráði Íslands í Osló fór fram á dögunum fundur um framtíð íslenskra bókmennta í Noregi. Menningarfélagið Ísdagar áttu frumkvæðið og stýrðu fundinum en þátt tóku fulltrúar norskra forlaga, þýðenda og sendiráðsins. 

Bandalag íslenskra skáta sótti norrænt þing skátabandalaga í Þórshöfn. Skátarnir litu að sjálfsögðu við hjá Ágústu Gísladóttur aðalræðismanni okkar í Þórshöfn.

Og það var fleira um að vera í Þórshöfn. Píanósnillingurinn Víkingur Heiðar flutti Goldberg tilbrigðin við mikinn fögnuð tónleikagesta. Fjölskyldan leit svo við á skrifstofunni hjá aðalræðismanni eftir tónleikana. 

 

Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn átti fund með Ole Magnus Mølbak Andersen framkvæmdastjóra ríkisskjalasafnsins í Kaupmannahöfn í safninu sjálfu. Við það tækifæri fékk hann að skoða nokkur gömul dönsk skjöl sem tengjast sögu Íslands. 

Árni Þór sendiherra heimsótti líka fulltrúa frá dönsku ferðaþjónustunni á viðburði sem haldinn var í samstarfi Visit Iceland, Icelandair og Bæjarins Beztu. Þorleifur Jónsson frá Inspired by Iceland upplýsti gesti um kosti Íslands og hvatti Dani til að velja sér Íslands sem næsta áfangastað. 

Heimsóknum sendiherra var þá ekki lokið en hann sótti einnig Haderslev á Jótlandi heim og var sérlegur gestur Sønderjysk fodbold í leik gegn AaB í toppslag dönsku B-deildarinnar.

Þá opnaði sendiherra íslenska kvikmyndadaga í Cinemateket í Kaupmannahöfn. Kvikmyndadagarnir standa yfir til 22. júní og áttu tveir íslenskir leikstjórar mynd á opnunarkvöldinu, þær Edda Sól Jakobsdóttir með stuttmyndina Fjallasaga og Elsa María Jakobsdóttir með Villibráð. Í lok kvöldsins var boðið til móttöku í sendiráðinu.

Ms Hülya Kytö framkvæmdastjóri samtakanna Daisy Ladies heimsótti sendiráð Íslands í Helsinki og fræddi sendiherra Íslands í Finnlandi Harald Aspelund og starfsfólkið allt um þeirra mikilvæga starf með konum af erlendum uppruna í Finnlandi. 

Félag íslenskra bókaútgefenda - FIBUT og utanríkisráðuneytið hafið samstarf um að styðja við bakið á þýðendum íslenskra bókmennta með þriggja ára tilraunaverkefni þar sem hópi þýðenda er boðið að velja sér bækur af Bókamarkaði félagsins. Finnski rithöfundurinn Tapio Koivukari er í hópi þessara þýðenda. Hann heimsótti sendiráð Íslands í Helsinki á dögunum ásamt eiginkonu sinni  Huldu Leifsdóttur og veitti bókakassanum viðtöku.

Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi og eiginkona hans Dr. Ásthildur Jónsdóttir tóku hjartanlega á móti hópi leikskólakennara frá Geislabaugi og Reynisholti í starfsferð þeirra til Finnlands. 

Ekkert lát var á heimsóknum í Helsinki en starfsmenn sveitarfélags Húnaþings tóku líka hús á þeim hjónum þar sem þau fengu kynningu á starfsemi sendiráðsins og leiðsögn um Gallerie Käytävä þar sem sýningin, Sunup, fer fram eftir listakonua Þórdísi Erlu Zoega.

Þá komu til hjónanna í Helsinki vinahópur Listasafnsins Ateneum í Helsinki en þau fengu einnig leiðsögn um sýninguna Sunup, í Galerie Käytävä.

Harald Aspelund sendiherra var einnig viðstaddur verðlaunaafhendingu í samkeppni minnisvarða fyrir legstað fyrrum forseta Finnlands Martti Ahtisaari. 

Þá færum við okkur yfir til Stokkhólms en þar á bæ óskar fólk sænska konunginum til hamingju með afmælið þann 30. apríl ár hvert eins og vera ber. 

og veröldinni allri til hamingju með alþjóðadag íslenska hestsins.

Sendiherra Íslands í Stokkhólmi, Bryndís Kjartansdóttir, í samstarfi við Íslandsstofu og Fråga Lou AB bauð til viðburðar um fjárfestingar á íslenskum fasteignamarkaði. 

Þá var sendiráðsstarfsfólk í sendiráðinu í Stokkhólmi þess heiðurs aðnjótandi að fá að færa þýðandanum John Swedenmark væna bókargjöf sem er komin til vegna fyrrnefnds samstarfs Félags íslenskra bókaútgefenda og utanríkisráðneytisins þar sem mikilvirkir þýðendur íslenskra bókmennta á erlend tungumál fá bókargjöf í viðurkenningarskyni fyrir vel unnin störf. 

Bryndís Kjartansdóttir sendiherra Íslands í Svíþjóð ásamt sendiherrum frá Norðurlöndum og Eystarsaltsríkjunum bauð til viðræðna um breytt öryggislandslag á svæðinu og stöðu Svíþjóðar sem nýjasta bandalagsríkis Atlantshafsbandalagsins. 


Vestur-Íslendingarnir og starfsfólk aðalræðisskrifstofu okkar í Winnipeg tóku hjartanlega undir hamingjuóskir til Atla Örvarsonar sem vann á dögunum sín fyrstu BAFTA verðlaun. 

Verðlaunin vann hann fyrir tónlistina í sjónvarspseríunni Silo.

Í Ottawa var vakin athygli á íslensku kvikmyndinni The Day Iceland Stood Still sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni Hot Docs Canadian International Documentary Festival. 

Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada tók þátt í athöfn í tilefni af minningardegi um helförina. Athöfnina sóttu einnig forsætisráðherra Kanada Justin Trudeau og leiðtogi stjórnarandstæðunnar Pierre Poilievre. 

Netnámskeið um kvennafrídeginn verður haldið í samstarfi sendiráðs Íslands í Ottawa og sendiráðs Kanada í Reykjavík þann 5. júní næstkomandi. 

Umræður um öryggis- og varnarmál fóru fram á meðal varnarmálaráðherra Kanada Bill Blair og sendiherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á svæðinu. Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Samstarf Íslands við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin nær vítt og breitt og er mikið á meðal sendiherra viðkomandi ríkja á hverjum stað fyrir sig. Með þessu náum við að útvíkka tengslanet okkar svo um munar. Sænski sendiherrann í Ottawa bauð til fundar þar sem þessi bönd voru styrkt. Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada var að sjálfsögðu þar. 

Hann sótti einnig fund sem sendiherra Danmerkur í Kanada hélt þar sem áætlun Kanada um konur, frið og öryggi var rædd. 

Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Bergdís Ellertsdóttir, heimsótti Denver, Colorado í síðustu viku en þar fór fram menningarhátíðin Taste of Iceland. Sendiherra opnaði hátíðina formlega í móttöku á veitingastaðnum Coohills.

Hátíðin var að sjálfsögðu vel kynnt og lét sendiherra ekki sitt eftir liggja í þeim efnum.

Í ferðinni til Denver var tækifærið nýtt til að eiga samtal við fulltrúa borgaryfirvalda þar sem mögulegt samstarf á sviði ferðamála, nýsköpunar og orkumála var rætt.

Þingmannanefnd Maine og sendiráð Íslands í Washington eiga í sérlega góðu sambandi. Fulltrúar frá sendiráðinu þáðu fundarboð nefndarinnar á dögunum með þökkum. 

Þá áttu sér stað árlegar viðræður um samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála. 

Sendiherra Íslands í Washington Bergdís Ellertsdóttir hitti fulltrúa frá Colorado fylki í Bandaríkjunum sem koma hingað til lands á jarðvarmaráðstefnu sem fer fram á Íslandi nú í lok mánaðar. Heimsóknin var liður í undirbúningi fyrir aðra ráðstefnu, Colorado-Iceland Clean Energy summit sem haldin verður í Denver í júní.

Þá nýtti starfsfólk sendiráðs okkar í Washington tækifærið til undirbúningsheimsóknar á tilvonandi fundarstað fyrir fyrrnefnda ráðstefnu. 

Útskriftarárgangur lögfræðinga úr Háskóla Íslands frá árinu 1990 heimsótti fastanefnd Íslands í New York og fékk þar góða innsýn inn í störf Sameinuðu þjóðanna og hlutverk fastanefndar Íslands.

Fleiri fréttir frá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Ísland gerðist meðflutningsaðili ályktunar á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um að gera 25. maí að alþjóðadegi fótbolta. 

Að hlýða á íslenskan jazz árla morguns á japanskri útvarpsstöð er sennilega sjaldgæfur lúxus sem stóð árrisulum Japönum þó engu að síður til boða í vikunni. 

Fulltrúar frá sendiráði Íslands í Tókýó og Össuri fræða gesti samnorrænnar Jónsmessuhátíðar sem fer fram í Múmíndalnum í Japan um velferð og jafnrétti á Íslandi. 

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Tókýó tók þeim tíðindum að sjálfsögðu fagnandi að hin víðfræga myndabók Ránar Flygenring um ævi Vigdísar Finnbogadóttur verði þýdd og gefin út á japönsku.

Hægt verður að njóta verka nokkurra þekktra íslenskra listamanna í Tókýóborg um helgina.

Sendiráð Íslands í Peking stóð fyrir málstofu um fríverslunarsamning Íslands og Kína í samvinnu við Icelandic Business Forum. Nú eru 10 ár frá því að samningurinn tók gildi og hefur hann verið mjög farsæll fyrir viðskipti ríkjanna. Málstofuna sóttu fulltrúar íslenskra fyrirtækja í Kína, viðskiptavinir þeirra og fulltrúar kínverskra stjórnvalda.

Forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala Hildigunnur Engilbertsdóttir fór í vettvangskönnun til verktaka sem sjá um uppbyggingu og viðhald á sjö vatnskerfum sem Ísland á veg og vanda að í Buikwe héraði í Úganda. 

Fótbolti heldur áfram að sameina fólk og gleðja í Malaví. 

Í ár eru 35 ár liðin frá því að Ísland hóf þróunarsamvinnu  í Malaví og ýmislegt verður gert til að halda upp á þau tímamót. 

Það vantar ekki tímamótin því Evrópuráðið fagnar líka 75 ára afmæli um þessar mundir með ýmsum hætti. Fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu fagnar að sjálfsögðu með. 

Nýlega fór Arctic Circle Forum ráðstefna fram í Berlín þar sem yfir 100 manns héldu erindi, þar á meðal Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og þingkonan Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Arctic Circle ráðstefnunnar og fyrrverandi forseti Íslands opnaði ráðstefnuna. Einnig tók þingkonan Oddný Harðardóttir þátt. Þá var á ráðstefnusvæðinu sýnt myndband með verkum RAX og bauð sendiherra til móttöku í Felleshus, sameiginlegu húsnæði norrænu sendiráðanna, í tilefni ráðstefnunnar og heimsóknar ráðherra. Ráðherra nýtti einnig tækifærið og heimsótti íslensku tölvuleikjaframleiðendurna Klang Games og gervigreindarklasann Merantix.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri átti pólitískt samráð í vikunni með kollegum sínum í utanríkis-, varnarmála- og þróunarsamvinnuráðuneytum Þýskalands. Var fundað með ráðuneytisstjórum sem fara með mannréttindi og fríverslun, alþjóða- og öryggispólitík, varnarpólitík og alþjóðlega þróunarsamvinnu, auk þess sem fundað var með Evrópumálaráðherra Þýskalands. Umræður snerust að miklu leyti um stuðning ríkjanna við Úkraínu og stöðu alþjóðamála í víðara samhengi, sem og mögulega samstarfsfleti Íslands og Þýskalands í Evrópu og víðar. Auk funda í ráðuneytum leiddi ráðuneytisstjóri viðburð á vegum hugveitunnar IISS um þróun öryggisumhverfisins á norðurslóðum og fundaði með formanni Öryggisráðstefnunnar í München.

Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, var viðstaddur minningarguðsþjónustu í Westminster Abbey, þar framlag heilbrigðisstarfsfólks var heiðrað. Guðsþjónustan var haldin 12. maí, sem jafnframt er fæðingardagur Florence Nigtingale.

Sendiherra sótti einnig árlega móttöku hugveitunnar Chatham House fyrir helstu samstarfsaðila sína.

Cameron lávarður, utanríkisráðherra Bretlands, flutti í gærkvöldi ávarp um alþjóðamál í viðhafnarkvöldverði Michael Minelli, borgarstjóra fjármálahverfis Lundúnaborgar (Lord Mayor of the City of London), sem haldinn var í embættisbústað hans. Sturla Sigurjónsson, sendiherra, var á meðal gesta.

Sturla Sigurjónsson var einnig gestur í garðveislu Karls Bretakonungs við Buckingham-höll 8. maí.

 

Kór Laugarneskirkju var boðið til móttöku í sendiráði Íslands í London. Var kórinn á ferð til að halda tónleika í bænum.

Staðgengill sendiherra Íslands í París Una S. Jóhannesdóttir var viðstödd alþjóðlega heimssýningu kvikmyndar Rúnars Rúnarssonar, Ljósbrot, í Cannes fyrr í vikunni.

Eliza Reid forsetafrú heimsótti Elysée höll í vikunni og tók forsetafrú Frakka, Brigitte Macron á móti henni. Ræddu þær ýmis mál svo sem geðheilbrigðismál eftir heimsfaraldur, fyrirmynd Íslands í jafnrétti kynjanna og Ólympíuleikana sem senn hefjast í París.

Nemendur af náttúrufræðibraut Tækniskólans heimsóttu sendiherrabústaðinn í París í síðustu viku og kynntu sér starfsemi sendiráðsins og fastanefnda OECD og UNESCO.

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Frakklandi tók á móti starfsfólki skrifstofu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í embættisbústað og sagði frá starfsemi sendiráðsins og fastanefndanna í París. Var hópurinn í fræðsluferð til Parísar og kynntu þau sér meðal annars rannsóknina og lærdóminn sem dreginn var um brunann í Notre Dame, sérstaklega varðandi björgun menningarverðmæta.

Árlegu þróunarsamráði Norðurlandanna og UNESCO lauk í dag þar sem farið var yfir árangur þróunarsamvinnuverkefna. Auk þess var í fyrsta sinn haldinn strategískur fundur um framtíðarsamstarf við stofnunina. Ísland styður verkefni á vettvangi UNESCO sem snúa að frjálsri fjölmiðlun og öryggi blaðamanna í fátækari löndum, eflingu menntakerfa í fátækustu ríkjunum og verkefni Alþjóðahaffræðinefndarinnar IOC.

Hannes Heimisson sendiherra Íslands í Póllandi var einn 46 sendiherra á vegum Diplomats for Equality, sem undirritaði stuðningsbréf við réttindi LGBTQIA+ fólks í Póllandi. 

Í síðustu viku tók starfsfólk sendiráðs Íslands í Varsjá þátt í Safnanótt í Varsjá. Dagskráin í sendiráðinu lagði áherslu á áttatíu ára afmæli lýðveldisins og sjálfstæðisbaráttu Íslands. 

Í lok apríl var kynning í sendiráði Íslands í Varsjá á nýju íslensk-pólsku orðabókinni. Þangað komu fulltrúar verkefnahópsins: Stanisław Bartoszka, framkvæmdastjóri pólska hluta verkefnisins og þýðandinn Aleksandrę Marię Cieślińską, auk Þórdísar Úlfarsdóttur ritstjóra og Halldóru Jónsdóttur verkefnastjóra frá Stofnun Árna Magnússonar.

Fleira var það ekki að sinni. 

Við óskum ykkur góðrar og gleðilegrar hvítasunnuhelgar!

Upplýsingadeild.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta