Hoppa yfir valmynd
12. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 14. júní 2024

Heil og sæl,

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar með yfirliti um helstu störf utanríkisþjónustunnar í vikunni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti í dag föstudag fund utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins sem fram fór í Porvoo í Finnlandi. Viðbrögð við fjölþáttaógnum, viðnámsþol samfélaga og málefni Úkraínu voru ofarlega á baugi á fundinum.

 

Í heimsókninnni hitti hún meðal annars utanríkisráðherra Póllands og ræddu þau sterkt samband Íslands og Póllands.

Aðalfundur Þróunarbanka Evrópuráðsins var haldinn á Íslandi í síðustu viku. Í tengslum við hann hitti utanríkisráðherra Bjørn Berge, aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, og ræddu þau ýmis málefni. Utanríkisráðherra átti einnig góðan símafund með Bill Blair, varnarmálaráðherra Kanada í vikunni. Aukið samstarf Íslands og Kanada í öryggis- og varnarmálum og þróun öryggismála á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi var til umræðu. 

Í dag föstudag lauk reglubundinni úttekt á viðskiptastefnu Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir sendinefnd Íslands.

 

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á öryggismál voru til umræðu á fyrsta fundi sendiherra og sérstakra erindreka í loftslagsmálum hjá aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í Hörpu í vikunni.

 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sótti ráðstefnu um mannúðarástandið á Gaza sem haldin var í Jórdaníu. Staða mannúðarmála, nauðsyn aukinnar mannúðaraðstoðar og fyrstu skref að enduruppbyggingu Gaza voru rædd.

 

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins tók þátt á uppbyggingarráðstefnu fyrir Úkraínu, sem haldin var í Berlín 11.-12. júní. Meðal þátttakenda var Volodymir Zelensky forseti Úkraínu og Olaf Scholz kanslari Þýskalands, auk mikils fjölda ráðherra, þingmanna og fulltrúa fyrirtækja víðs vegar að. Ráðuneytisstjóri undirstrikaði áframhaldandi stuðning Íslands við Úkraínu í samræmi við nýlega samþykkra þingsályktun og samkomulag ríkjanna um öryggissamstarf. Orkuinnviðir Úkraínu sæta linnulitlum loftárásum Rússlands og því mikil þörf bæði á enduruppbygginu þeirra en ekki síður loftvarnarkerfum til að koma í veg fyrir eyðileggingu þeirra til að byrja með.

Og þá að sendiskrifstofunum okkar:

Sendiráð Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, ásamt Úkraínu, héldu í vikunni sameiginlega þjóðhátíðarmóttöku í Prag. Er þetta í annað sinn að sendiráð Íslands í Berlín, sem er með fyrirsvar gagnvart Tékklandi, tekur þátt í móttökunni og flutti María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Berlín hluta sameiginlegs ávarps ríkjanna.

 

Nemendur Tónlistarskóla Hafnarfjarðar héldu tónleika í Berlín um helgina og heimsóttu sendiráð Íslands í Berlín.

 

Orkufulltrúar ESB og EFTA fóru í tengiliðaferð til Belgíu og kynntu sér meðal annars starfsemi Antwerpen-Brugge hafnarinnar og heimsóttu EQUANS þar sem verið er að byggja vindorkupall. Sigurbjörg Sæmundsdóttir, fulltrúi umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneytisins í Brussel tók þátt fyrir Íslands hönd.

 

Sendiherra Íslands gagnvart Finnlandi, Harald Aspelund, hélt ásamt Dr. Ásthildi Jónsdóttur kveðjuviðburð fyrir sendiherra Litháen, Giedrius Kazakevičius og eiginkonu hans Díönu Kazakevičienè.

 

Fulltrúar frá Íslandi, Finnlandi, Eistlandi, Danmörku, Þýskalandi, Lettlandi, Noregi, Póllandi og Svíþjóð hittust í Helsinki á mánudag. Þar var samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja rætt.

 

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Kampala heimsóttu Karamoja í norðvestur Úganda til þess að fylgjast með árangrinum af samtstarfi Íslands og World Food Programme. Nánar má lesa um verkefnið, sem þegar er farið að skila árangri, í ítarlegri frétt á vef Stjórnarráðsins.

  

Fulltrúar sendiráðisins heimsóttu einnig Buikwe hérað þar sem á að byggja sjö vatnskerfi með stuðningi Íslands.

 

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands gagnvart Danmörku, tók á móti Kvennakór Ísafjarðar og Kvennakórnum Eyju, íslenska kvennakórnum í Kaupmannahöfn, ásamt kórstjórum, í sendiherrabústað. 

 

Þrjár íslenskar hönunarsýningar voru opnaðar í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn á þriðjudag í tengslum við hönnunarhátíðina 3daysofDesign og mikill fjöldi heimsótti sendiráðið.

 

Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiskrifstofu Íslands í Malaví, heimsótti kynjajafnréttisráðuneyti Malawi til að hefja verkefnið "Liu La Amayi Mu Ndale" sem miðar að því að ryðja braut fyrir þátttöku kvenna í stjórnmálum. Verkefnið er stutt af íslenskum stjórnvöldum.

Jóhanna Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands gagnvart Bretlandi, mætti á Wembley ásamt eiginmanni sínum og syni, til að fylgjast með vináttuleik Íslands og Englands þar sem Ísland bar sigur úr bítum!

 

Guðni Bragason, sendiherra í Nýju-Delí, hélt morgunverðarfund með fyrrverandi nemendum úr Jafnréttisskólanum á Íslandi í Kathamandu í Nepal.

 

Á menningarnótt í Þórshöfn 7. júní var opið hús og tónleikar í aðalræðisskrifstofu Íslands í Færeyjum. Um 130 gestir nutu ljósmyndasýningar, tónlistar og veitinga.

 

Sendiráð Íslands í Washington D.C. ásamt öðrum sendiráðum Norðurlandanna tók þátt í gleðigöngu borgarinnar yfir helgina. Þau hlakka strax til næsta árs.

 

Við ljúkum póstinum að þessu sinni í New York, hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Á dögunum fór fram kosning í öryggisráðið þar sem frændur okkar Danir fengu góða kosningu ásamt Grikklandi, Pakistan, Panama og Sómalíu.

Nýr forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna var kosinn og að sjálfsögðu óskað til hamingju af meðlimum fastanefndar sem hétu honum jafnframt hollustu sína.  

Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum Jörundur Valtýsson hélt ræðu fyrir hönd Norðurlandanna þar sem hann ítrekaði stuðning við hið mikilvæga starf sem Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna innir af hendi. 

Kosningar eru nær daglegt brauð í þessari stærstu og merkilegustu alþjóðastofnun sem við tilheyrum. Starfsfólk fastanefndar óskaði þeim ellefu þjóðum sem verða næstu kyndilberar Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna til hamingju með kosninguna og velfarnaðar í þessu mikilvæga verkefni, með góðum óskum um að bæklingafarganið sem fylgir kosningabaráttunni verði endurunnið. 

Guðmundur Ingi Guðbandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra ávarpaði ráðstefnuna um samninginn. 

Málefni hafsins varða okkur Íslendinga miklu enda eigum við tilvist okkar undir heilbrigði þess og gjöfum. Fulltrúi Íslands var í Costa Rica á dögunum til að deila reynslu Íslands og læra af öðrum þjóðum.

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur gleðilegrar lýðveldishátíðar á mánudag og góðrar helgar fram að því. 

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta