Hoppa yfir valmynd
27. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 28. júní 2024

Heil og sæl,

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar með yfirliti yfir helstu störf utanríkisþjónustunnar í liðinni viku.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hóf vikuna í Genf þar sem hún sótti ráðherrafund Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA. Á fundinum undirrituðu ráðherrar EFTA-ríkjanna og utanríkisráðherra Chile einnig uppfærðan fríverslunarsamning.

Utanríkisráðherra átti þá einnig tvíhliðafund með Alberto van Klaveren, utanríkisráðherra Chile, og undirrituðu ráðherrarnir viljayfirlýsingu um gagnkvæm réttindi til vinnudvalar ungs fólks í ríkjunum.

Þá hélt ráðherra á fleiri fundi í Genf vegna framboðs Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.

 

Í Genf flutti utanríkisráðherra einnig ávarp í Mannréttindaráði sameinuðu þjóðanna. Stjórnmálasamráð Íslands og Japans fór fram í utanríkisráðuneytinu 24. júní síðastliðinn þar sem tvíhliða samskipti, fjölþjóðleg samvinna og alþjóðleg málefni voru efst á baugi. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri, María Mjöll Jónsdóttir og Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjórar, sátu fundinn fyrir Íslands hönd en Kimitake Nakamura, staðgengill skrifstofustjóra á Evrópudeild japanska utanríkisráðuneytisins, fór fyrir japönsku sendinefndinni. Ráðherra hitti einnig Ngozi Okonjo-Iweala, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og ræddu þær framfarir í fiskveiðum.

Þá snúum við okkur að sendiskrifstofum okkar.

Ísland er meðlimur í ríkjahópi hjá Sameinuðu þjóðunum sem sinnir ötullega málsvarastarfi fyrir réttindum hinsegin fólk á alþjóðavísu. Í vikunni birti hópurinn myndband þar sem meðlimir hinna ýmsu ríkja hópsins lýstu því fyrir áhorfendum af hverju sýnileikinn er mikilvægur, sem hann svo sannarlega er. 

 

Harald Aspelund, sendiherra Íslands gagnvart Finnlandi sótti hádegisverð NATO sendiherranna sem Theresa Bubbear, sendiherra Bretlands gagnvart Finnlandi, hélt í sendiráði Bretlands í Helsinki. Heiðursgestur viðburðarins var enginnn annar en Alexander Stubb, forseti Finnlands.

Þá tók sendiherra á móti Ratu Silvy Gayatri, sendiherra Indónesíu gagnvart Finnlandi og Eistlandi, í sendiherrabústaðnum í Helsinki.

 

Íslenski söfnuðurinn í London hélt þjóðhátíðardaginn hátíðlegan á sunnudaginn þar sem Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London, var gestur. Þar mátti heyra kórsöng og gæða sér á íslenskum pylsum.

 

Sturla Sigurjónsson, sendiherra, heimsótti einig Kelmscott Manor þar sem breski hönnuðurinn, skáldið og Íslandsvinurinn William Morris hafði oft sumardvöl. Sendiherra hitti Kathy Haslam, safnstjóra, og Emily Lethbridge, sýningarstjóra.

 

Hendrik Jónsson tók þátt fyrir hönd Íslands á fundi undirbúningsnefndar Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem málefni hafsins voru til umræðu.

Sendiráð Íslands í Ottawa hélt sameiginlegan jónsmessu- og miðsumarsfögnuð með sendiráðum Norðurlandanna, haldið í sænska sendiherrabústaðnum í Ottawa. Viðburðurinn vakti mikla gleði meðal gesta og hér fyrir neðan er hægt að sjá klippur af fögnuðinum.

 

Fimmtugasta og sjöunda lota framkvæmdaráðs Alþjóðahaffræðinefndarinnar IOC-UNESCO, þar sem Ísland situr í framkvæmdastjórn, hófst í vikunni París og fulltrúar Íslands létu sig ekki vanta.

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart Kína, fundaði með Nguyen Hoang Long, vara-ráðherra í viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Víetnam og Le Thi Thu Hang, vara- utanríkisráðherra í Hanoi. Ræddu þeir tvíhliðasamskipti Íslands og Víetnam, fríverslunarviðræður, ferðaþjónustu og jarðvarmanýtingu.

Við ljúkum svo föstudagspóstinum með sendiráðinu í Washingtond D.C.

Sendiráðið í Washington og Íslandsstofa stóðu fyrir vel sóttri ráðstefnu, Our Climate Future: Colorado-Iceland Clean Energy Summit, í Denver á dögunum þar sem lykilaðilar á sviði orkumála og grænna lausna frá Íslandi, Colorado fylki og víðar frá Bandaríkjunum tóku þátt. Ráðstefnunni var ætlað að skapa vettvang til að deila þekkingu og reynslu á sviði jarðvarmanýtingu og kolefnislausna og stofna til tengsla íslenskra og bandarískra aðila, bæði stjórnvalda og einkaaðila á þessu sviðum.

Jared Polis, fylkisstjóri Colorado og Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington tóku þátt í "Fireside chat" þar sem orkuskipti og tækifæri til samstarfs milli Íslands og Colorado voru meðal umræðuefna. Sendiherra Íslands í Washington tók í gær þátt í einstökum og sögulegum viðburði í bandaríska utanríkisráðuneytinu þegar í fyrsta skipti þrír ráðherrar ræddu málefni og mannréttindi hinsegin fólks í utanríkis- og viðskiptastefnu Bandaríkjanna. Íslandi var mikill heiður sýndur enda eina ríkið sem boðið var til þátttöku af þessu tilefni.

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta