Hoppa yfir valmynd
05. júlí 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 5. júlí 2024

Heil og sæl,

Hér kemur vikulegt yfirlit yfir störf utanríkisþjónustunnar í fyrstu viku júlímánaðar.

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kvaddi sendiherra Póllands, Kanada og Evrópusambandsins sem kveðja Ísland í sumar og þakkaði þeim fyrir störf sín hér á landi.

 

Þá beinum við sjónum að störfum sendiskrifstofa okkar úti í heimi.

Á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín efndi Ísland meðal Norðurlandanna til fundar með pallborðsumræðum um kynjasjónarmið í loftslagsaðgerðum. Í pallborði sátu fulltrúar frá norrænu ríkjunum og tók Tinna Hallgrímsdóttir, loftslags- og sjálfbærnisérfræðingur, þátt fyrir hönd Íslands. Aðalávarp flutti Dr. Galyna Trypolska, vísindamaður hjá vísindaháskóla Úkraínu. Erindi Trypolska fjallaði um hræðileg áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu, meðal annars hvernig aukin losun koltvísýrings hefur bein áhrif á lífsskilyrði kvenna og stúlkna þar.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir, sendiráðunautur í Brussel frá umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu heimsótti Noreg ásamt fulltrúum í vinnuhópi ráðs ESB um orkumál. Heimsóttu þau m.a. Alta vatnsaflsvirkjun, Hammerfest LNG höfnina í Melkøya og North Cape.

  

Ísland tók til máls fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í 56. lotu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf þar sem áhersla var lögð á að taka tillit til mannréttinda í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun. Einnig kallaði Ísland eftir að binda enda á brot á alþjóðlegum mannréttindalögum í Sýrlandi.

Um helgina var hinsegindögum fagnað í Finnlandi með gleðigöngu. Harald Aspelund og Ásthildur Jónsdóttir marseruðu í göngunni með öðrum diplómötum til stuðnings við réttindabaráttu hinsegin fólks.

 

Þá tók sendiherra á móti U16 liði kvenna í fótbolta í sendiherrabústaðinn en þær keppa í Norðurlandamótinu.

 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heimsótti Dublin þar sem hann hitti m.a. nýskipaðan ræðismann Íslands, Þorfinn Gunnlaugsson. Írland er eitt af umdæmisríkjum sendiráðs Íslands í London en Ísland og Írland eiga langa sögu og eiga góð tengsl.

Í ár hélt íslenska sendiráðið í London utan um norrænu samvinnuna vegna gleðigöngunnar í London.

  

Sendinefnd Íslans gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York tekur við varaformennsku í efnahags- og fjármálanefnd fyrir 79. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

Á undirbúningsfundi fyrir Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna lagði Ísland áherslu á sjálfbærni í fiskveiðum og sjávarfangi.

80 ára afmæli íslenska lýðveldisins var fagnað í Mumbai á miðvikudag við hátíðlegan viðburð á vegum aðalræðismanns Íslands í Mumbai, Gul Kripalani, og sendiráðsins í Delhí. Guðni Bragason sendiherra Íslands gagnvart Indlandi flutti hátíðarræðu og flutti kveðjur forseta Íslands. Ræddi hann einnig mikilvæga þætti í samskiptum ríkjanna og nefndi sérstaklega fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Indlands, sem undirritaður hefði verið fyrr á árinu.

  

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Ottowa sótti uppselda sýningu Laufeyjar á Djasshátíð Ottowa, kvöld sem þau munu sannarlega seint gleyma.

Sendiráð Íslands í Ottowa vakti athygli á samstarfi íslenska fyritækisins Planet Youth og kanadískra stjórnvalda með það markmið að innleiða íslenska forvarnarmódelið í fjölda samfélaga í Kanada.

Sendiherrahjónin í Osló, Högni Kristjánsson og Ásgerður Ingibjörg Magnúsdóttir, heimsóttu Rjukan svæðið í Telemark í boði Per Lykkesem hefur unnið að uppbyggingu í kringum Hardangervidda þjóðgarðinn. Meðal annars heimsóttu þau miðstöð þjóðgarðsins og Vemork safnið.

  

Sendiráð Íslands í París var viðstatt við upplýsingafund franskra stjórnvalda um Ólympíuleikana í París en þeir hefjast 26. júlí. Mikil spenna er í París yfir leikunum.

Sendiráðið tók einnig þátt í gleðigöngu Parísar um helgina.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart Japan, hélt kynningarviðburð í sendiráði Íslands í Tókýó þar sem framúrskarandi íslenski laxinn var sýndur.

Þá sótti sendiherra einnig vináttuleik Færeyja og Japan í handbolta í Tókýó þar sem Færeyjar hlutu sigur.

Þátttakendur Norðurlandanna í heimssýningunni í Osaka 2025 (Expo2025) hittust á fundi alþjóðlegra þátttakenda í Nara í Japan. Norðurlöndin munu sýna samnorrænan skála á heimssýningunni.

Sendiáð Íslands í Varsjá kvaddi Hannes Heimisson sem lýkur nú störfum sínum sem sendiherra í Póllandi og heldur svo til Færeyja þar sem hann mun gegna hlutverki ræðismanns Íslands.

  

Við ljúkum að þessu sinni föstudagspóstinum í Washington D.C.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra Íslands í Washington óskaði Bandaríkjamönnum til hamingju með þjóðhátíðardaginn 4. júlí, en hún sótti skrúðgöngu á afar heitum en fallegum þjóðhátíðárdegi í Washington.

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta