Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 12. júlí 2024

Heil og sæl,

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar með yfirliti yfir helstu störf utanríkisþjónustunnar í vikunni.

Mikið var um að vera í vikunni vegna leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Washington D.C. í tilefni þess að 75 ár eru liðin frá stofnun bandalagsins. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sóttu leiðtogafundinn þar sem málefni Úkraínu voru í brennidepli. Áframhaldandi og einarður stuðningur Atlantshafsbandalagsins við varnarbaráttu Úkraínu var áréttaður og bandalagsríkin ítrekuðu jafnframt mikilvægi þess að halda áfram að styrkja fælingar- og varnarstöðu sína samhliða því að efla samvinnu við helstu samstarfsríki til mæta nýjum áskorunum. Hér er hægt að lesa nánar um leiðtogafundinn. 

Þá flutti ráðherra ávarp á viðburði utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, í tengslum við Women, Peace and Security (WPS) og tók þátt í pallborði á fundinum. Á leiðtogafundinum hitti utanríkisráðherra Igli Hasani, utanríkisráðherra Albaníu, og ræddu þau vináttu ríkjanna og stuðning þeirra við Úkraínu. Þá hitti ráðherra einnig José Manuel Albares, utanríkisráðherra Spánar. Þá settist ráðherra niður með Leon Panetta, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fyrir viðtal við hlaðvarpið One Decision. Fulltrúar sendiráðs Íslands í Washington voru einnig viðstaddir leiðtogafundinn. Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands gagnvart Bandaríkjunum, sótti móttökuviðburð Mike Johnson, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, fyrir þingmenn NATO-ríkja ásamt Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis og Njáli Trausta Friðbertssyni, þingmanni. Mikið var um að vera hjá fulltrúum sendiráðs Íslands í Washington vegna leiðtogafundarins. Þá var Hermann Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart NATO í Brussel, einnig staddur í New York vegna leiðtogafundarins. Þá snúum við okkur að sendiskrifstofum okkar um víða veröld. Í vikunni flutti Helga Hauksdóttir, sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Vín, ávarp fyrir hönd Norðurlandanna á sérstökum fundi fastaráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir, ráðgjafi hjá fastanefnd Íslands í Vín, hlaut í vikunni jafnréttisverðlaun Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE (OSCE White Ribbon Award). Eva Dröfn fær verðlaunin meðal annars fyrir að hafa átt frumkvæði að því að efna til Barbershop-ráðstefnu fyrir öryggis- og hermálafulltrúa aðildarríkja ÖSE og fyrir að leiða ritun á sameiginlegum ávörpum um jafnréttismál í fastaráði ÖSE. Óskum við henni til hamingju.

  

Sendifulltrúar ESB og EFTA ríkjanna á sviði flug- og siglingamála dvöldu á Íslandi dagana 26.-29. júní í boði innviðaráðuneytisins. Markmiðið með heimsókninni var að styrkja tengslin við ESB og innan EFTA og kynna hagsmuni og sérstöðu Íslands.  

Ísland flutti ávörp fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf.

Fulltrúar Íslands voru viðstaddir við árlegan ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (HLPF) í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Þá kvaddi Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York samstarsfólk sitt en hann kveður fljótlega New York eftir fimm góð ár. Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart Kína, sótti opnun 25. kaupstefnu Quinghai fyrir græna þróun og kynnti hann meðal annars íslensku fyrirtækin Arctic Green, Carbon Recycling International og Marel og lagði áherslu á sjálfbærnistefnu Íslands. Þá var Ísland valið heiðursgestur kaupstefnunnar. Fulltrúar Íslands við íslenska skálann á kaupstefnunni. Þá hitti sendiherra Chen Dehai, framkvæmdastjóra ASEAN-China Centre (ACC), og ræddu þeir tækifæri fyrir græna þróun í Qinghai-héraði í Kína. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Tókýó heimsótti Tama í Tókýó, hitti borgarstjóra Tama, Hiroyuki Abe, og hélt kynningu fyrir nemendur menntaskólanna í Tsurumaki og Otsuma. Sendiráð Íslands í Varsjá bauð Friðrik Jónsson velkominn en hann tekur við sem sendiherra Íslands gagnvart Póllandi, Úkraínu, Rúmeníu og Búlgaríu þann 1. ágúst nk. Óskum við Friðrik velgengni í starfi sem nýr sendiherra. Við ljúkum svo föstudagspóstinum að þessu sinni í Winnipeg.

Í ár fagnar Winnipeg 150 ára afmæli og í tilefni þess var áhersla lögð á tengsl Winnipeg við 11 systurborgir sínar. Reykjavík og Winnipeg urðu formlega systurborgir árið 1971. Í tilefni þessa setti aðalræðisskrifstofa Íslands í Winnipeg upp kynningarbás fyrir Reykjavík. Þá stoppaði Scott Gillingham, borgarstjóri Winnipeg, við básinn og hitti aðalræðismann Íslands, Vilhjálm Wiium.

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum