Hoppa yfir valmynd
02. ágúst 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 2. ágúst 2024

Heil og sæl.

Hér kemur tvöfaldur sumarföstudagspóstur meðan margir bíða eflaust verslunarmannahelgarinnar spenntir.

Halla Tómasdóttir tók við embætti forseta Íslands við hátíðlega athöfn í gær. Ráðuneytið óskar henni velgengni í nýja hlutverki sínu.

Ólympíuleikarnir í París hófust í síðustu viku og mikil spenna ríkir fyrir þessari sögufrægu íþróttaveislu sem nú stendur yfir en fimm einstaklingar taka þátt fyrir Íslands hönd að þessu sinni. Sendiráð okkar í París fylgist grannt með stöðu mála.

Og áfram af íþróttum en stúlknalið Ascent Soccer hitti Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra meðan það var statt hér á landi til þess að taka þátt á knattspyrnumótinu Rey Cup og hélt fyrir hana kynningu. Um er að ræða fyrsta skipti þar sem stúlkna- eða kvennalið frá Malaví keppir í Evrópu. Drengjalið Ascent Soccer er sömuleiðis statt hér á landi og hyggst verja titil sinn sem það vann á mótinu í fyrra. Sendiráð okkar í Lilongwe vakti athygli á ferð liðanna og óskaði þeim góðs gengis. Er tekið undir það heilshugar á þessum vettvangi. 

Bresk flugsveit er væntanleg til landsins í byrjun næstu viku, en þá hefst loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins. Flugsveitin samanstendur af fjórum F-35 orrustuþotum og 180 liðsmönnum. Hægt er að lesa nánar um verkefnið á vef stjórnarráðsins.

 

GRÓ - Þekkingamiðstöð þróunarsamvinnu gaf út ársskýrslu sína þar sem meðal annars kom fram að alls útskrifuðust 92 sérfræðingar árið 2023 úr fimm til sex mánaða námi í skólunum fjórum sem starfræktir eru á vegum GRÓ, það er Jafnréttisskólanum, Jarðhitaskólanum, Landgræðsluskólanum og Sjávarútvegsskólanum. 

 

Úganda átti stóran þátt í verkefnum GRÓ og við lok árs 2023 voru alls 117 manns frá Úganda sem höfðu tekið þátt í einum af fjórum skólum GRÓ.

Kjartan Atli Óskarsson, sendiráðsritari í sendiráði Íslands í Freetown í Síerra Leóne, var í vikunni viðstaddur opnun á skurðstofu vegna fæðingarfistils og flutti þar ávarp. Í ræðu sinni kom hann meðal annars inn á mikilvægi þess að styðja verkefni sem miða að því að tryggja heilsu kvenna og efla mæðravernd.  

 

Bergdís Ellertsdóttir, fráfarandi sendiherra okkar í Washington D.C., var kvödd af kollegum á vettvangi Norðurslóðamála í vikunni eftir fimm ára starf sem sendiherra Íslands gagnvart Bandaríkjunum. Kveðjuboðið var skipulagt af Rachel Kallander, ræðismanni í Alaska, en þar voru meðal annars viðstaddir sendiherrar ESB og Portúgal gagnvart Bandaríkjunum, öldungardeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski og fulltrúadeildarþingmaðurinn Mary Peltola frá Alaska. Við þökkum henni fyrir vel unnin störf og óskum henni velgengni.

Og enn meira af íþróttum en Landsmót íslenska hestsins í Þýskalandi fór fram í bænum Saarwellingen í Saarlandi með 246 skráða keppendur, en Sendiráð Íslands í Berlín er verndari landsmótsins. Varmaður sendiherra í Berlín Ágúst Már Ágústsson heimsótti bæinn af tilefni landsmótsins og átti fund með bæjarstjóra Saarwellingen, þar sem hann skrifaði sig inn í gylltu bók bæjarins.

Sendiráð okkar í Berlín greindi frá opnun tónlistarhátíðarinnar Bayreuther Festspiele sem haldin er árlega í bænum Bayreuth en þar eru flutt óperuverk eftir tónskáldið Richard Wagner. Þorleifur Örn Arnarsson er leikstjóri opnunarverks hátíðarinnar, en um er að ræða óperuverk sem fjallar um Tristan og Ísold, og Ólafur Sigurðarson fer með eitt af hlutverkunum í því.

Þá vakti sendiráðið einnig athygli á ljóðalestri Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur á ljóðahátíðinni Poesiefestival Berlin.

 

Þá var óformlegur fundur heilbrigðisráðherra ESB, með þátttöku EFTA ríkja, einnig haldinn 24. og 25. júlí í Várkert Bazár og hann sótti Hrönn Ottósdóttir, fulltrúi heilbrigðsráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel fyrir hönd Íslands. Á fundinum var meðal annars fjallað um sameiginlegar aðgerðir gegn hjarta- og æðasjúkdómum, nánara samstarf og möguleika á sameiginlegum aðgerðum á sviði líffæragjafa og líffæraígræðslu.

 

Sendiráð Íslands í Lilongwe tók þátt í verkefninu "Liu La Amayi Mu Ndale" í Mangochi sem miðar að því að efla stjórnmálaþátttöku kvenna. Sigurður Þráinn Geirsson, sendiráðsritari, flutti ræððu á opnunarviðburði verkefnisins og ítrekaði mikilvægi þátttöku kvenna í stjórnmálum.

  

Sendiráðið í Lilongwe kvaddi Ingu Dóru Pétursdóttur, forstöðumann sendiráðsins, og Kristjönu Sigurbjörnsdóttur, sendiráðunaut, en þær hafa báðar sinnt gríðarmiklu hlutverki í starfi sendiráðsins um árabil. Við þökkum þeim fyrir vel unnin störf og óskum þeim velgengni.

 

"Íslendingadagurinn" eða íslendingahátíð Manitoba hefst í dag þar sem tækifæri gefst til að fagna og njóta íslenskrar menningar.

 

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart Kína hélt ávarp við opnun ferðamálaráðstefnu Shanxi, í gömlu miðborg Taiyuan. Þá átti hann fund með héraðsleiðtogum um viðskiptatengsl á sviðum endurnýjanlegrar orkuvinnslu, kolefnisföngunar og endurnýtingar og ferðaþjónustu.

Þórir hélt jafnframt kynningu á Íslandi sem vinsælum ferðamannastað. Jafnframt ræddi hann við GE Yang frá Financial Times Chinese.com í viðtali um bláa hagkerfið á Íslandi og í Kína Stefán Jóhannesson, sendiherra Íslands í Tókýó, tók þátt í ráðgjafahópi um Evrópusamþættingu í fyrstu heimsókn hópsins til Úkraínu.

Þjóðbúningafélag Íslands heimsótti Færeyjar og héldu áhugaverða kynningu og viðburð þar sem íslenski þjóðbúningurinn var kynntur.

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar verslunarmannahelgar.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta