Hoppa yfir valmynd
06. september 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 6. september 2024

Heil og sæl,

Hér kemur föstudagspósturinn með yfirliti yfir helstu störf utanríkisþjónustunnar í fyrstu viku septembermánaðar.

Varnaræfingunni Norður-Víkingur lauk í vikunni eftir árangursríka samvinnu Íslands, Bandaríkjanna og bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins. Áhersla var lögð á öflugar varnir lykilinnviða, skjótan flutning á mannafla og búnaði til landsins og samhæfingu bandalagsþjóða.

 

Samráðsfundur norrænna landsnefnda og fastanefnda gagnvart UNESCO fór fram í Hveragerði í vikunni en Ísland var gestgjafinn í ár. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, opnaði fundinn og lauk honum með ávarpi Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands. Hópurinn átti mjög góðar og gagnlegar umræður til undirbúnings fyrir viðburðarríkt starfsár framundan.

Á þriðjudag tók utanríkisráðuneytið á móti fulltrúum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á fundi ríkjanna um útflutningseftirlit. Fundurinn er vettvangur sérfræðinga til þess að ræða samstarf og framkvæmd útflutningseftirlits.

 

Og þá beinum við sjónum að sendiskrifstofum okkar. Auðunn Atlason, nýr sendiherra Íslands í Berlín, afhenti forseta Þýskalands trúnaðarbréf sitt við hátíðlega athöfn í Bellevue-höllinni í Berlín í vikunni.

  

Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Helsinki, og Ásthildur Jónsdóttir héldu áfram hjólatúr sínum um Finnland í vikunni. Þau hjóluðu hjólastíginn í bænum Kotka sem er þekktur fyrir frábæran landslagsarkítektúr. Í ferð sinni um bæinn hittu sendiherrahjónin Heikki Laasksonen, fyrrum kjörræðismann Íslands, og áttu hádegisverð með bæjarstjóra Kotka, Esa Sirviö, og áttu góða samræðu um bæinn og möguleika til samstarfs. Á ferðum sínum stoppuðu sendiherrahjónin einnig í Virolahden yläkoulu skólanum þar sem þau áttu góða samræður við nemendur skólans um sjálfbærni, starfsemi sendiráðsins og mjúkt vald ríkja.

  

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Kampala heimsótti Nkhotakota héraðið í Úganda til þess að kynnast því hvernig þróunarstarf hefur gengið á svæðinu. Þá hefur námsumhverfið bæst til muna í Kacheyo og Gomadzi grunnskólunum þar sem nýjar kennslustofur hafa verið teknar til notkunar.

 

Þá kvaddi sendiráðið í Lilongwe Reyni Ragnarsson sem starfað hefur í sendiráðinu síðastliðið ár. Við þökkum honum fyrir vel unnin störf.

  

Anna Jóhannsdóttir hefur tekið við sem fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Í vikunni hitti hún nýtt samstarfsfólk í New York.

Aðalræðismaður Íslands í Nuuk sótti fróðlegan fund með fulltrúum Norrænu stofnunarinnar í Grænlandi.

  

Benedikt Höskuldson hefur tekið til starfs sem nýr sendiherra Íslands í Nýju Delí. Hann afhenti í dag trúnaðarbréf sitt til forseta Indlands, Droupadi Murmu, við hátíðlega athöfn í forsetahöllinni í Nýju Delí.

 

Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Ottawa, ávarpaði þingmannanefnd norðurskautssvæðisins (SCPAR) þar sem þingmenn ræddu málefni norðursins. Hlynur veitti innsýn í starf sendiráðsins og tvíhliða samskipti og viðskipti norðurskautsríkja. Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

  

Viðburðaríkar vikur eru að baki í sendiráði Íslands í París, einkum vegna Ólympíuleikanna. Þá heimsóttu Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, París í tilefni Ólympíumóts fatlaðra sem lýkur um helgina. Forsetahjónin, Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason, vöru viðstödd setningarathöfn Ólympíumóts fatlaðra og hvöttu íslenska íþróttafólkið áfram. Þau sóttu móttöku í boði forseta Frakklands og voru heiðursgestir í móttöku á vegum Össurar sem haldin var í samstarfi við sendiráðið til heiðurs íslensku keppendunum og íþróttafólki úr Team Össur. Þá átti forseti góðan fund með borgarstjóra Parísar, Anne Hidalgo.

Þá átti Unnur Orradóttir, sendiherra Íslands í París, góðan fund með þingmanninum Vincent Caure.

Sendiráð Íslands í Peking hélt reglubundin fund með ræðismönnum í umdæmi þess. Rætt var um ræðisráðstefnuna á Íslandi, ræðismenn greindu frá helstu verkefnum í sínu umdæmi og farið yfir ýmis praktísk mál varðandi borgaraþjónustu. Inga Dóra Pétursdóttir, staðgengill sendiherra sótti fyrir hönd sendiráðsins opnun leiðtogafundar samstarfsvettgangs Kína og Afríkuríkja.

Guðmundur Árnason sendiherra og fastafulltrúi Íslands gagnvart stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Róm afhenti framkvæmdastjóra Matvælaáætlunar SÞ (WFP), Cindy McCain, trúnaðarbréf sitt í vikunni og átti við það tækifæri fund með henni og fleiri stjórnendum stofnunarinnar. Fastafulltrúi flutti skilaboð Íslenskra stjórnvalda um áframhaldandi dyggan stuðning við þau brýnu verkefni sem stofnunin sinnir.

Bryndís Kjartansdóttir, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, var viðstödd við frumsýningu ljósmyndasýningarinnar "Point in Time" sem nú stendur yfir í Fotografiska safninu í Stokkhólmi.

  

Á mánudag afhenti Friðrik Jónsson, sendiherra Íslands gagnvart Póllandi, trúnaðarbréf sitt til forseta Póllands, Andrzej Duda, við hátíðlega athöfn í Belweder-höllinni í Varsjá.

  

Sendiherrann heimsótti í vikunni borgina Gdańsk þar sem hann hitti borgarstjórann Aleksandra Dulkiewicz, fulltrúa yfirvalda borgarinnar og fulltrúa fyrirtækja sem eiga í samstarfi við Ísland.

  

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Vín, opnaði í vikunni listasýninguna „Scopes of Inner Transit“ eftir íslenska myndlistamanninn Sigurð Guðjónsson í Francisco Carolinum safninu í Linz. Þá opnaði sendiherra einnig listasýninguna „Iceland: wild, chaotic and unpredictable“ á verkum austurrísku listakonunnar Therese Eisenmann.

 

Fulltrúar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Öryggis- samvinustofnun Evrópu hittust í Vín í vikunni.

Hannes Heimisson tók til starfa sem sendiherra og aðalræðismaður Íslands í Færeyjum í vikunni. Í vikunni fundaði hann með Gunn Hernees, forstjóra Norðurlandahússins í Færeyjum sem á í góðu samstarfi við Ísland um viðburði og menningarmál.

  

Við ljúkum föstudagspóstinum að þessu sinni í Washington D.C. í Bandaríkjunum þar sem Svanhildur Hólm Valsdóttir er nýtekin við sem sendiherra Íslands.

 

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta