Hoppa yfir valmynd
13. september 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 13. september 2024

Heil og sæl,

Hér er kemur föstudagspóstur vikunnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fundaði með Kurt M. Campbell, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna í morgun þar sem aukið samstarf Bandaríkjanna og Íslands, tvíhliða samskipti ríkjanna, átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, málefni Úkraínu og staða mála á Indó- Kyrrahafssvæðinu voru meðal annars til umræðu.

 

Nýir sendiherrar Danmerkur, Kanada, Svíþjóðar og Evrópusambandsins afhentu Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, trúnaðarbréf sín á Bessastöðum síðasta föstudag.

  

Þórdís Kolbrún Utanríkisráðherra flutti opnunarávarp á opnum fundi utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um EES-samninginn og innri markaðinnn fyrr í mánuðinum. Í opnunarávarpi sínu vék ráðherra orðum sínum að þróun alþjóðamála þar sem grunngildi vestrænna samfélaga eigi í vök að verjast samhliða aukinni verndarhyggju í viðskiptum. Í pallborðsumræðum lagði utanríkisráðherra jafnframt áherslu á pólitíska umræðu um EES-samninginn.

 

Nýr rammasamningur Evrópuráðsins um gervigreind og mannréttindi var undirritaður í Vilníus í Litháen í síðustu viku. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd þegar hann sótti ráðstefnu í Vilníus í síðustu viku sem fjallaði um ábyrgð á alþjóðlegum glæpum í Úkraínu.

  

Og þá lítum við til sendiskrifstofa okkar úti í heimi.

Helga Hauksdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart ÖSE og sendiherra í Vín, flutti ávarp á fyrsta fundinum á öryggissamvinnuvettvangi ÖSE undir formennsku Danmerkur. Í ávarpinu sagði Helga sagði meðal annars að FSC gegndi mikilvægri stöðu á vettvangi ÖSE, ekki síst nú þegar öryggi og stöðugleika í Evrópu stendur ógn af hernaðaraðgerðum Rússlands í Úkraínu.

  

Sendiherrann sótti einnig kveðjuhóf fyrir Helga Maria Schmid sem hefur gegnt hlutverki framkvæmdastjóra Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) síðan 2020 og var fyrsta konan til að gegna því hlutverki.

Sendiráð Íslands í París stóð fyrir viðburðinum „Closing the gender play gap: Towards pay equity in sports“ í samstarfi við OECD í vikunni þar sem sérfræðingar og íþróttafólk kom saman til þess að ræða launamun kynja í íþróttum. Bjarni Benediktson forsætisráðherra og framkvæmdastjóri OECD héldu opnunarávarp á viðburðinum.

  

Hér er hægt að nálgast þráð sendiráðsins um framgang viðburðarins.

Árlegur fundur landsnefnda Norðurlandanna til UNESCO fór fram á dögunum en fundurinn var að þessu sinni haldinn á Íslandi. Halla Tómasdóttir forseti og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sóttu fundinn.

Í París hefur hönnunarmessan Maison&Objet staðið yfir þar sem hönnunarteymið Flétta, sem samanstendur af hönnuðunum Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Bynjólfsdóttur, sýndi verk sín ásamt sjö ungum hönnuðum frá öllum Norðurlöndunum. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, hafhenti þeim Hrefnu og Birtu verðlaunin við hátíðlega athöfn sem haldin var í húsi Danmerkur (Maison du Danemark) á Champs-Élysées í París.

  

Annasöm vika er að baki í Berlín en Auðunn Atlason sendiherra sótti sendiherrastefnu þýska utanríkisráðuneytisins þar sem Annalena Bearbock, utanríkisráðherra Þýskalands, hélt opnunarræðu og sótti svo móttöku í boði Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, þar sem hann ávarpaði diplómatahópinn. Þá sótti sendiherrann ásamt Ágúst Má, varamanni sendiherra, fund með vinahópi Þýskalands og Norðurlandanna í þýska þinginu og tók þátt í pallborðsumræðum á Nordic Talks viðburði Ebba Busch viðskipta- og orkumálaráðherra Svíþjóðar og varaforsætisráðherra hélt ræðu og tók þátt í pallborðsumræðum. Í dag opnar svo málþingið "The Great Defrost" um myndlist í Fælleshús í Berlín.

Í vikunni skrifuðu fulltrúar Íslands, Liechtenstein, Noregs og Evrópusambandsins undir samning fyrir nýtt fjármögnunartímabil undir EES samningnum fyrir tímabilið 2021 til 2028. Kristján Andri Stefánsson sendiherra í Brussel skrifaði undir samninginn fyrir Íslands hönd.

 

Fulltrúi Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna flutti ávarp fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um stöðu mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan.

Sendiráðið í Helsinki hélt viðburð um hönnun og diplómasíu tilefni hönnunarvikunnar í Helsinki. Sendiráið fékk tvo hönnuði til að sýna verk sín, þau Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Antti Hirvonen. Þá sótti Helga Ólafsdóttir, stjórnandi HönnunarMars, einnig viðburðinn.

  

Sendiherrahjónin Pétur Ásgeirsson og Jóhanna Gunnarsdóttir tóku á móti starfsfólki Biskupsstofu og sóknarnefnd Íslenska safnaðarins í Danmörku. Sendiherra sagði frá starfsemi sendiráðsins og þakkaði fyrir gott samstarf varðandi störf sendiráðsprests, sem bæði þjónar íslenska söfnuðinum í Danmörku og aðstoðar við borgaraþjónustu sendiráðsins.

  

Sendiráðið í Kaupmannahöfn fékk heimsókn frá hópi nemenda úr Norðuratlantshafsbekknum í Gribskov gymnasium skólanum en hópurinn fékk fræðislu um störf utanríkisþjónstunnar og sendiráðsins.

  

Starfsfólk sendiráðsins í Lilongwe heimsótti héraðið Mangochi í Malawi til þess að skoða framfarirnar sem þar hafa orðið í ýmsum þróunarsamvinnuverkefnum. Þar á meðal var Brahim vatnskerfið sem þjónar um tíu þúsund manns sem eiga í erfiðleikum með aðgang að hreinu vatni, Katuli markaðurinn sem ýtir undir viðskipti og efnahagsþróun á svæðinu og framfarir í vinnuhópum fyrir efnahagslega valdeflingu kvenna í héraðinu.

  

Anna Jóhannsdóttir nýr fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York afhenti í vikunni trúnaðarbréf sitt til António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Benedikt Höskuldsson, sendiherra Íslands í Nýju Delí, lagði nýverið fyrsta steininn fyrir nýja ávaxta- og hnetuþurrkunarstöð í Kinnaur-héraði á Indlandi ásamt Jagat Singh Negi, garðyrkjuráðherra Himachal Pradesh fylkisins. Þurrkunarstöðin var sett upp af íslenska fyrirtækinu Geotropy í samstarfi við stjórnvöld fylkisins og er knúið af jarðvarmaorku. Í ávarpi sínu lagði sendiherra áherslu á mikilvægi slíkra samstarfsverkefna til þess að efla bændur og styðja matvæla - og orkuöryggi á svæðinu.

 

Tveir íslenskir tónlistermenn hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur tónlistarfólks undir þrítugu við hátíðlega athöfn á tónlistarhátíðinni by:Larm í Osló en það voru það Gabríel Ólafs og Klaudia Gawryluk. Sendiráðið átti góðan fund með tónlistarfólkinu þar sem meðal annars var rætt um tónlistarflóruna á Íslandi, íslenskt tónlistarfók í Noregi og möguleg samstarfsverkefni á næstu misserum.

  

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking, sótti ljósmynda- og kvikmyndasýningu um áhrif árásarstríðs Rússlands á börn í Úkraínu í sendiráði Kanada sem fer fyrir bandalaginu ásamt Úkraínu. Ísland er meðlimur International Coalition for the Return of Ukrainian Children.

Sendiherra sótti jafnframt tónleika Umbru í Peking, en tónlistarhópurinn er á 11 tónleika ferðalagi í Kína. Inga Dóra Pétursdóttir, staðgengill sendiherra tók þátt í hringborðsumræðu á Taiyuan Energy Low Carbon Development Forum og fjallaði um samstarf Íslands og Kína á sviði jarðvarma. Þá fór reglubundin samráðsfundur sendiráðsins í Peking með Icelandic Business Forum fór fram í vikunni.

Bryndís Kjartansdóttir, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, var viðstödd þakkarathöfn sem sendiráð Lettlands í Stokkhólmi hélt fyrir Micael Bydén, æðsta yfirmann sænska hersins. Fleiri fulltrúar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sóttu einnig atöfnina.

  

Sendiráð Íslands í Varsjá tók á móti fulltrúum RANNÍS sem kom til Varsjár til að funda með pólskum starfsfélögum hjá NAWA, National Agency for Academic Exchange og ræða samstarf ríkjanna á sviði vísinda og æðri menntunar.

  

Hannes Heimisson, aðalræðismaður Íslands í Þórshöfn fór í kynnisferð í skipasmiðjuna Mest og hitti forstjórann Mouritz Mohr.

  

Matarhátíðin Taste of Iceland var haldin í New York í síðustu viku þar sem íbúum borgarinnar gafst tækifæri til þess að gæða sér á íslenski menningu, matargerð, hönnun, list, bókmenntum og fleiru. Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra sótti hátíðina ásamt Svanhildi Hólm Valsdóttur sendiherra íslands í Washington D.C.

  

Vilhjálmur Wiium, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg, sótt hátíðina Manitoba Fibre Festival í Manitoba þar sem ull og ýmis textill var til sýnis. Í ár var ull íslensku kindarinnar til sýnis. Vilhjálmur hitti hönnuði og bændur sem rækta íslenskar kindur í Kanada.

  

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta