Hoppa yfir valmynd
27. september 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 27. september 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Utanríkisráðherra tekur þessa dagana þátt í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og tengdri dagskrá og nýtur þar liðsinnis okkar góðu fastanefndar í New York.

Þar hefur hún átt fjölda tvíhliða funda, til að mynda með utanríkisráðherra Nýja-Sjálands, Winston Peters. Þá hitti hún Sviatlönu Tsikhanouskaya sem þakkaði fyrir stuðning Íslands við frjálst og lýðræðislegt Belarús. Auk þess tók hún þátt í umræðum um mannúðarkrísuna í Súdan og átökin sem þar geisa. Undir þeim tilkynnti hún 70 milljóna króna viðbótarframlag Íslands í því efni. Þá fundaði hún með filippseysku fjölmiðlakonunni Mariu Ressa en hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2021. Frelsi fjölmiðla bar eðli máls samkvæmt á góma í samtali ráðherrans og Ressa. Ísland styður fjögur ríki sem hyggjast hefja mál á hendur Talíbanastjórninni í Afganistan þar sem til stendur að gera grein fyrir brotum hennar á kvennasamningi Sameinuðu þjóðanna. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra var sömuleiðis viðstaddur allsherjarþingið í New York og hitti þar António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðherra þakkaði Mariju Buric, fráfarandi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, fyrir gott samstarf undanfarin ár.

Auðunn Atlason sendiherra og Ágúst Már Ágústsson, varamaður sendiherra, reimuðu á sig hlaupaskóna í góða veðrinu í Berlín en þeir munu taka þátt í fimmtugasta Berlínarmaraþoninu í næstu viku.

 

Þá vakti sendiráðið athygli á þátttöku íslenskra hljómsveita á tónlistahátíðinni Reeperbahn í Hamborg en þar spiluðu meðal annars sveitirnar Kiasmos, Kusk og Óviti og Múr.

 

 

Þá var sendiherra viðstaddur þegar rithöfundurinn Sjón las upp úr ljóðabók sinni, Næturverkum, en þátttaka þess síðarnefnda er hluti af upplestrarröð á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

 

Í Helsinki var sömuleiðis nóg um að vera en Harald Aspelund sendiherra skipaði í vikunni Arto Lahtela kjörræðismann Íslands í mótttöku en hann tekur við af Tero Ylinenpää sem gegndi stöðunni í átta ár.

 

Þá tóku sendiherrahjónin, Harald og Ásthildur Jónsdóttir, á móti fulltrúum sýslumannsembættanna í sendiherrabústaðnum í Helsinki þar sem góðar umræður áttu sér stað.

 

Þá mátti heyra djasstóna í sendiherrabústaðnum en Ingibjörg Elsa Turchi og hljómsveit léku þar fyrir viðstadda.

Þá héldu þau Kristín Einarsdóttir og Jón Karlsson, sem fara fyrir verkefninu Leikur að læra, kynningu og hittu sendiherrann.

 

Sendiráð okkar í Kaupmannahöfn fékk Guðmund Inga Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda til sín í heimsókn fyrir rúmri viku en hann afhenti Nordic Pioneer Prize-verðlaunin í sendiráðsbústaðnum.

  

Okkar fólk í Malaví gerði grein fyrir þeim árangri sem náðst hefur við framkvæmd verkefnis í Nkhotakota sem snýr að því að bæta aðgengi, gæði og jafnrétti í námi í skólum á svæðinu.

 

Sturla Sigurjónsson, sendiherra í London, var viðstaddur sýningu á verki listakonunnar Steinunnar Þórarinsdóttur við St. Mary the Virgin's-kirkjuna en hún er hluti af stærri sýningu Steinunnar sem ber heitið Vessel.

 

Starfsfólk sendiráðsins var þá viðstatt sýningu danshöfundarins Lovísu Óskar Gunnarsdóttur, When the Bleeding Stops í London en hún hafði hlotið styrk frá sendiráðinu þegar henni var boðið að flyja sýninguna í Dublin í fyrravor.

  

 

Listin var allsráðandi í London en listahátíðin Women in Art Biennale stendur þessa dagana yfir í Chelsea á King's Road.

 

Í Nuuk var haldið upp á vestnorræna daginn og má sjá fjölda skemmtilegra mynda frá honum á Facebook-síðu aðalræðisskrifstofu Íslands þar.

  

Þá fór alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Nuuk á dögunum en leikstjórinn Rúnar Rúnarsson var meðal annars viðstaddur hana vegna kvikmyndarinnar Ljósbrots en þess má geta að hún hlaut verðlaun á hátíðinni.

  

 

Kristín Anna Tryggvadóttir, staðgengill sendiherra í Nýju-Delí, hitti Chinenye Ifechukwu Anekwe, sjálfboðaliða á vegum Sameinuðu þjóðannan, og Aishwarya Sehgal frá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Staða þeirrar fyrrnefndu er fjármögnuð á grundvelli starfs GRÓ - Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu.

 

Sendiráð okkar í Ottawa vakti athygli á fundi sem fram fór í vikunni um málefni Úkraínu. Bill Blair, varnarmálaráðherra Kanada, var viðstaddur fundinn.

 

Þá heimsótti viðskiptafulltrúi sendiráðsins í Ottawa Nunavut-viðskiptaráðstefnuna sem fram fór á Grænlandi.

 

Í Osló hittust sendiherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjana í Osló í sænska sendiherrabústaðnum með aðstoðarseðlabankastjóranum Pål Longva. Þar var rætt mat Seðlabanka Noregs á efnahagsástandinu og framtíðarhorfur.

  

Þá stóð sendiráðið fyrir viðburði í sendiherrabústaðnum undir Oslo Innovation Week. Fimm nýsköpunarfyrirtæki frá Íslandi mættu og voru með kynningar fyrir gesti ásamt fjórum íslenskum fyrirlesurum sem sögðu frá sögum sínum úr viðskiptabransanum. Sendiráðið var einnig með svokallaða yfirtöku á Instagram-reikningi ráðuneytisins, sem glöggir lesendur tóku ef til vill eftir, þar sem sagt var frá nýsköpunarvikunni.

 

Sendiráð okkar í París vakti athygli á umfjöllun í frönskum fjölmiðli um íslensku lopapeysuna.

 

Þá var ýmislegt í gangi í Stokkhólmi, einkum í tengslum við íslenska menningardaga, sem haldnir eru næstu vikurnar.

  

  

Sendiráðið í Stokkhólmi tók í vikunni þátt í tungumálakaffi til að fagna evrópska tungumáladeginum. Þar fengu ungmenni tækifæri til að kynna sér fjölmörg evrópsk tungumál. Í íslenska básnum var áherslan lögð á að kynna hina sérstöku íslensku nafnahefð, sem vakti forvitni margra þátttakenda.

 

Bryndís Kjartansdóttir sendiherra ávarpaði kvikmyndagesti sem mættir voru til að sjá kvikmyndina Kulda og sagði frá menningardagskrá haustsins. Þá var hún einnig viðstödd bókamessuna í Gautaborg.

  

 

Okkar fólk í Tókýó vakti athygli á íslenska skyrinu. Hér má sjá Stefán Hauk Jóhannesson sendiherra og varamann hans, Ragnar Þorvarðarson, með skyrdollu í hönd.

 

Friðrik Jónsson, sendiherra í Varsjá, ávarpaði ráðstefnu í tengslum við loftslagssamstarf Íslands og Póllands á grundvelli Uppbyggingarsjóðs EES.

 

Hannes Heimisson, aðalræðismaður í Færeyjum, heimsótti Runavík og heilsaði upp á borgarstjórann, Tórbjørn Jacobsen.

 

Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Svanhildur Hólm Valsdóttir, fundaði á dögunum með Mike Sfraga, sem var í vikunni formlega staðfestur af Bandaríkjaþingi sem sendiherra Bandaríkjanna í málefnum norðurslóða.

Norrænu sendiráðin í Washington stóðu í vikunni fyrir norrænum bókmenntaviðburði, Nordic Voices, í samstarfi við Library of Congress. Hildur Knútsdóttir var fulltrúi Íslands en bókin hennar Myrkrið á milli stjarnanna/Night Guest kom núverið út í Bandaríkjunum. Síðastliðna helgi tók Admiral Pierre Vandier frá Frakklandi við stöðu yfirmanns breytingaherstjórnar NATO (ACT) í Norfolk. Sendiherra og varnarmálafulltrúi sendiráðs voru viðstödd hátíðarathöfn af þessu tilefni. Á myndunum eru einnig Rob Bauer formaður hermálanefndar NATO og Jóna Sólveig Elínardóttir, POLAD, sem er ráðgjafi yfirmanns JFC Norfolk. Einar Gunnarsson, fastafulltrúi í Genf, ávarpaði mannréttindalotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna en Ísland fór fyrir mismunandi ríkjahópum í hinum ýmsu málum. Þá náðist samkomulag um fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Kósovó í höfuðborginni Pristina. Skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu og fastafulltrúi gagnvart stofnunum SÞ í Róm, (FAO, WFP og IFAD) funduðu í vikunni með fulltrúum stofnananna þriggja. Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) gegnir vegamiklu hlutverki í stefnumótun í málefnum hafsins á alþjóðavettvangi og situr Ísland í stjórn stofnunarinnar næstu tvö árin. Matvælaáætlun SÞ er áherslustofnun í mannúðaraðstoð í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og veita stjórnvöld framlög, auk kjarnaframlaga, til svæða þar sem fæðuskortur er alvarlegur, s.s. í Afganistan, Jemen og Súdan, auk þess að starfa með stofnuninni í samstarfslöndum Íslands með því að tryggja skólabörnum heilnæma máltíð á skólatíma. Þriðja stofnunin, Aðlþjóðaþróunarsjóður landbúnaðarins (IFAD) fjármagnar verkefni og veitir lán til þróunarríkjanna m.a. til að vinna að sjálfbærri þróun lamdbúnaðar og tryggja fæðuöryggi. Sameiginlega EES-nefndin kom saman og samþykkti 96 upptökugerðir. Ný framkvæmdastjórn EFTA tók við í haust og var henni árnað heilla á fundinum.

Inga Dóra Pétursdóttir, staðgengill sendiherra í Peking flutti erindi um reynslu Íslendinga á ráðstefnu um sjálfbæra orku og eyríki.

Embættismannanefnd Eystrasaltsráðsins hélt fund sinn í Tallinn, Eistlandi, 25-26. september.  Emil Breki Hreggviðsson, fulltrúi Íslands í ráðinu, sótti fundinn. Um var að ræða fyrsta fundinn í formennsku Eistlands í ráðinu. Endurskoðun á starfsemi Eystrasaltsráðsins mun hefjast í formennsku Eistlands. 

 

Fleira var það ekki þessa vikuna og óskum við ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta