Hoppa yfir valmynd
04. október 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 4. október 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í Warsaw Security Forum í Póllandi í vikunni og ræddi þar stöðuna í öryggis- og varnarmálum og stríðið í Úkraínu.

Í lok síðustu viku flutti hún ávarp sitt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem hún fór um víðan völl. Virðing fyrir mannréttindum, einstaklingsfrelsinu og alþjóðalögum voru meginstef í ávarpi ráðherra. Þá þakkaði hún Jens Stoltenberg fyrir vel unnin störf á stóli framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og óskaði arftaka hans, Mark Rutte, góðs gengis í komandi verkefnum. Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu, gerði slíkt hið sama.

Þá fengum við heldur betur góðan hóp í heimsókn til okkar en níunda ræðismannaráðstefna Íslands fór fram í vikunni. Alls tóku 129 ræðismenn frá 71 landi þátt í ár. Ráðstefnan var einstaklega vel heppnuð og var þessum burðarásum íslensku utanríkisþjónustunnar meðal annars þakkað fyrir þeirra ómetanlegu störf í þágu Íslands í ávörpum utanríkisráðherra og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins.

  

Þá var fjallað um pólitískt samráð Íslands og Filippseyja sem fram fór í tengslum við ráðherraviku allsherjarþingsins. Bergdís Ellertsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra, og Davíð Logi Sigurðsson sóttu fundinn fyrir Íslands hönd.

 

Fulltrúar ríkja sem skipa ríkjahóp um sprengjuleit- og eyðingu í Úkraínu, áttu sameiginlegan fund í Reykjavík dagana 26. og 27. september. Ísland og Litáen leiða vinnu hópsins sem styður við þjálfun og kaup á margvíslegum búnaði til sprengjuleitar og eyðingar.

  

Þá voru árásir Írana á Ísrael fordæmdar og deiluaðilar hvattir til að sýna stillingu og draga úr stigmögnun.

Félag fyrrverandi þingmanna leit við í sendiráðinu í Berlín í vikunni. Líflegar umræður áttu sér stað um alþjóðamálin og hið trausta samband Íslands og Þýskalands.

  

Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, tók á móti fulltrúum fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum, sem voru í Berlín á vegum Business Sweden og Íslandsstofu, til að leggja hornstein að samstarfi og gagnkvæms þekkingarflutnings á sviði stafrænna lausna í heilbrigðismálum.

  

Þá voru Auðunn og Nicole Hubert, starfsmaður sendiráðsins, viðstödd tónleika Svavars Knúts í Berlín. Martin Hermannsson körfuboltalandsliðsmaður fylgdist einnig með.

 

Sendiráðið í Brussel, sem jafnframt gegnir hlutverki fastanefndar gagnvart Evrópusambandinu, fékk stjórn Samtaka atvinnulífsins í heimsókn í sendiráðið. Meðal annars var rætt um hvernig breytt viðhorf í alþjóðamálum hafa í vaxandi mæli áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins og hvernig sendiráðið skipuleggur sig í að verja hagsmuni Íslands í EES-samstarfinu og gagnvart ESB.

  

Hátíðahöld vegna 30 ára afmæli EES-samningsins héldu áfram, nú hjá EFTA-dómstólnum í Lúxemborg.

 

Harald Aspelund, sendiherra í Helsinki, tók þátt í Helsinki Security Forum 27. til 29. september. Með honum á myndinni er Pia Hansson, forstöðukona Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

  

 

Harald tók einnig þátt á fundum með fulltrúum frá NB8-ríkjunum í Tallinn. Alþjóðamál og öflug samskipta Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna voru til umræðu.

  

Sendiráðið í Helsinki stóð þá fyrir fundi ásamt sendiráðinu í Kanada, Icelandair og Íslandsstofu.

 

Sendiráðið í Kaupmannahöfn vakti athygli á viðburði í Copenhagen Business School í tengslum við opinbera heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Danmerkur í næstu viku.

 

Í Lilongwe var athygli vakin á verkefni sem snýr að því að bregðast við þurrkum í Malaví sem ógnað hafa milljónum manna og fæðuöryggi í landinu.

  

Sendiráðið í Ottawa gerði upp samráðsfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Kanada í kringum allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna en þeir áttu sér stað í New York og Kanada.

  

Sendiráðið í París, sem annast fyrirsvar gagnvart Spáni, óskaði Astrid Helgadóttur, ræðismanni í Barcelona, til hamingju með að hafa verið sæmd heiðursmerki utanríkisþjónustunnar í kringum ræðismannaráðstefnuna í Reykjavík.

  

Sendiráðið í Stokkhólmi fylgdist með bókamessunni í Gautaborg. Rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir var á meðal viðstaddra.

  

Sendiráðið í Tókýó leitar að nýjum starfsmanni.

  

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Tókýó, tók þátt í ljósmyndasamkeppni. Framlag hans má sjá hér.

Friðrik Jónsson, sendiherra í Varsjá, fundaði með úkraínska ræðismanninum Kostyantyn Malovany sem staddur var á Íslandi í tengslum við ræðismannaráðstefnuna fyrr í vikunni.

 

Friðrik var ráðherra sömuleiðis innan handar í tengslum við Warsaw Security Forum.

Hannes Heimisson, aðalræðismaður okkar í Færeyjum, hitti Heðin Mortensen, borgarstjóra í Þórshöfn á dögunum og fór vel á með þeim.

  

Þá tók Hannes á móti Norðurlandadeild Rauða krossins í Þórshöfn.

  

Norrænu sendiráðin í Washington D.C. héldu sameiginlegan bókmenntaviðburð. Rithöfundurinn Hildur Knútsdóttir tók þátt fyrir hönd Íslands.

 

Það styttist í kosningar í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna en Ísland er þar í framboði. Fastanefndin í Genf hefur staðið í ströngu og telur niður dagana.

Þá fór fram sameiginleg móttaka Íslands og Sviss sem bjóða sig bæði fram, en þó innan sitthvors ríkjahópsins. Einar Gunnarsson fastafulltrúi og okkar fólk í Genf tóku þátt í yfirstandandi mannréttindalotu. Fulltrúar fastanefndarinnar í New York ræddu við fulltrúa frá Singapúr og héldu vinnustofu. Sendiráðið í Kampala þakkaði Muni Safieldin, fulltrúa UNICEF í Úganda, fyrir staðfastan stuðning hans í garð barna í landinu á undanförnum árum. Þá vakti sendiráðið í Kampala athygli á verkefnum samtakanna Defend Defenders í Úganda.

Fleira var það ekki þessa vikuna og óskum við ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta