Hoppa yfir valmynd
11. október 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 11. október 2024

Heil og sæl!

Við hefjum leik á gleðifréttum en Ísland hlaut í vikunni kjör í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Nítján ríki voru í framboði fyrir átján laus sæti ráðsins fyrir þriggja ára kjörtímabil sem hefst í byrjun árs 2025 og er til ársloka 2027.

„Mikil ábyrgð felst í því að taka sæti í mannréttindaráðinu sem hefur það helsta markmið að efla og vernda mannréttindi um heim allan. Við erum þakklát fyrir þann breiða stuðning sem okkur var sýndur í kosningunum í dag og við tökum við þessu verkefni af auðmýkt og alvöru, tilbúin að leggja okkur öll fram,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

  

Í ferðinni átti utanríkisráðherra einnig tvíhliða fund með utanríkisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen.

Á mánudag minntist utanríkisráðherra þess að ár væri liðið frá hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael.

Yfirmenn hermála á Íslandi, Bandaríkjunum, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Kanada og Svíþjóð héldu fund á öryggissvæðinu í Keflavík á miðvikudag þar sem öryggismál á norðurslóðum voru til umræðu.

Í gær fór fram árlega friðarráðstefnan Imagine Forum Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Bergdís Ellertsdóttir sendiherra og staðgengill ráðuneytisstjóra flutti opnunarerindi og Hermann Þór Ingólfsson sendiherra tók þátt í samtali með Svitlönu Zalishchuk, ráðgjafa í ríkisstjórn Úkraínu og fyrrverandi þingmanni. Hér er hægt að horfa á ráðstefnuna.

Skrifstofustjóri alþjóðapólitískra málefna og fulltrúar sendiráðs tóku þátt í reglubundnum samráðsfundi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með Bandaríkjunum í Washington í vikunni um alþjóðapólitík og öryggismál.

Að venju var nóg um að vera hjá starfsfólki okkar úti á pósti í vikunni. Starfsfólk sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn hafði í nógu að snúast í tengslum við ríkisheimsókn forseta Íslands. Óhætt er að mæla með Instagram-yfirtöku sendiráðsins á reikningi utanríkisþjónustunnar þar sem fylgjendur gátu skyggnst bakvið tjöldin í heimsókninni. Efnið er aðgengilegt í „Highlights“.

 

Högni Kristjánsson sendiherra Íslands í Osló átti vinnufundi í Aþenu en Grikkland er eitt af þremur umdæmisríkjum sendiráðsins.

 

Nú um helgina opnar einmitt grísk-íslenska myndlistarhátíðin HEAD2HEAD í Reykjavík. Nánari upplýsingar um hana hér að neðan:

Samstarf og tengsl Íslands og Maine-ríkis voru í forgrunni heimsóknar sendiherra til Maine í vikunni. Sendiherra fundaði með hinum ýmsu aðilum t.d. fulltrúum Eimkipa sem eru með höfuðstöðvar sínar í Portland Maine. Einnig heimsótti sendiherra og fylgdarlið þjóðvarðlið Maine (Maine National Guard) í höfuðstöðvum þeirra í Augusta þar sem þau fengu kynningu á víðtækri starfsemi þeirra. Sendinefndin fékk við það tækifæri að fylgjast með stöðufundi þjóðvarðliðsins í aðgerðastjórn þeirra með öllum 54 ríkjum og yfirráðsvæðum Bandaríkjanna í tengslum við björgunaraðgerðir vegna fellibylsins Milton í Flórída.

 

Í Maine átti sendiherra afar góðan fund með Chellie Pingree, þingkonu Demókrataflokksins frá Maine sem er einn stofnenda sérstaks Íslandsvinahóps meðal þingmanna fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, flutti ávörp í annarri og þriðju nefnd Sameinuðu þjóðanna í allsherjarþinginu í vikunni.

Í London sóttu Jóhanna Jónsdóttir, varamaður sendiherra, og Brynja Jónasdóttir, annar sendiráðsritari, athöfn til heiðurs sjómönnum í St Pauls dómkirkjunni.

Haustmessa íslenska safnaðarins í London var einnig haldin í vikunni.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Tókýó, fundaði með Yoshiko Ikeda, sem fer fyrir sjálfbærnimálum hjá NTT DATA Group.

Sendiráð Íslands í Póllandi tók á móti Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra í vikunni sem fundaði með pólskum starfssystkinum sínum og heimsótti íslensk fyrirtæki í Póllandi.

Fyrrverandi starfsmenn finnska umhverfisráðuneytisins heimsóttu sendiherrahjónin í Helsinki í vikunni og fengu leiðsögn um Gallerie Kaytava og fræddust um sjálfbærniáherslur Íslands.

 

Sendiherrahjónin tóku sömuleiðis á móti hópi frá Ríkisendurskoðun á dögunum.

 

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking, og Inga Dóra Pétursdóttir, varamaður sendiherra, funduðu með Charlotte Zhao hjá Arctic Green Energy.

Stjórn Samtaka atvinnulífsins heimsótti sendiráð Íslands í Brussel í síðustu viku.

Hannes Heimisson, aðalræðismaður Íslands í Færeyjum, fundaði með Bjørt Samuelsen forseta Lögþingsins, í gær.

 

Alþjóðadegi kennara var fagnað í Malaví.

 

Á dögunum var því fagnað við Vínarháskóla að 40 ár eru liðin frá stofnun deildar norrænna tungumála. Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Vín, ávarpaði gesti við athöfnina og talaði meðal annars um mikilvægi tungumála fyrir sjálfsmynd þjóðar.

 

Aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk birti mynd frá nýlegri heimsókn forseta og varaforseta Norðurlandaráðs, ásamt Kristinu Háfoss framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs.

 

Varamaður sendiherra í París, Una Jóhannsdóttir, var viðstödd opnun sýningarinnar LANDSCAPE GAME var opnuð í galleríinu Un Coin de Ciel í 14. hverfi Parísarborgar í gær. Þar sýna listamennirnir Stéphanie Rivray, Christophe Gibourg og Ivan Toulouse verk sín sem eru innblásin af íslenskri náttúru. Öll eiga listamennirnir það sameiginlegt að hafa dvalið á Íslandi og unnið í ljósmyndum, teikningum og þrykklituðum myndum af náttúru Íslands.

Í dag var lögð inn umsókn Íslands um tilnefningu Svæðisgarðsins Snæfellsness á skrá UNESCO yfir svonefnd MAB eða Maður og lífhvolfssvæði (e. Man and Biosphere). Yrði Snæfellsnes fyrsta UNESCO MAB svæðið á Íslandi og tengir verkefnið náttúru- og félagsvísindi við efnahagsmál, menntun og rannsóknir til þess að bæta lífsgæði og stuðla að bættri afkomu íbúa, og vernda náttúruleg og manngerð vistkerfi. Hér má sjá Áslaugu Dóru Eyjólfsdóttur, aðalritara landsnefndar UNESCO, afhenda dr. António Abreu, ritara MAB verkefnisins, umsókn Íslands í höfuðstöðvum UNESCO í París.

Fleira var það ekki að þessu sinni. Góða helgi!

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta