Hoppa yfir valmynd
25. október 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 25. október 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands hittust í tengslum við Hringborð norðurslóða í síðustu viku. Í kjölfarið fór fram samráðsfundur Íslands og Færeyja.

  

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sótti hátíðarhöld í tilefni af 25 ára afmæli norrænu sendiráðanna í Berlín í vikunni ásamt þjóðhöfðingjum og utanríkisráðherrum Norðurlandanna. Þar flutti forseti Þýskalands hátíðarræðu og sagði meðal annars: „Ég þekki sannarlega ekkert sendiráð sem er opnara og heldur uppi nánara sambandi við almenning.“ Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sótti hátíðarhöldin í fjarveru utanríkisráðherra og okkar fólk í sendiráðinu hafði í nógu að snúast í tengslum við dagskrána.

  

  

  

 

  

 

Samhliða hátíðarhöldunum var samnorræn myndlistarsýning opnuð í sendiráðunum og ávarpaði Auðunn Atlason sendiherra viðstadda af því tilefni. Sýningin stendur yfir þangað til í janúar á nýju ári.

 

Norðurlöndin birtu í vikunni yfirlýsingu þar sem áhyggjum var lýst yfir fyrirhugaðri lagasetningu ísraelska þingsins, Knesset, sem kæmi til með að banna starfsemi Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA.

Harald Aspelund, sendiherra í Finnlandi, tók þátt í árlegum fundi Uppbyggingarsjóðs EES í Litáen í vikunni en það er eitt af umdæmislöndum sendiráðs Íslands í Helsinki.

 

Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, fundaði í vikunni með Michael Vindfeldt, borgarstjóra Frederiksberg, í hinu glæsilega ráðhúsi bæjarins. Ræddu þeir meðal annars nýafstaðna opinbera heimsókna forseta Íslands og kvaðst borgarstjórinn hafa glaðst yfir því að forseti Íslands og hans hátign konungurinn hefðu komið til Frederiksberg, í embættisbústað sendiherrans.

  

Myndlistarsýning Elísabetar Olku, Metamorfose, var opnuð í gær í anddyri sendiráðsins í Kaupmannahöfn. Verkin á sýningunni sækja innblástur í persónulega upplifun Elísabetar á hvernig landslag og veður hafa tilfinningaleg áhrif. Sýningin var vel sótt bæði af Íslendingum búsettum í Danmörku og fólki úr listalífi Danmerkur. Pétur Ásgeirsson sendiherra ávarpaði samkomuna.

  

Okkar fólk í Lilongwe greindi frá því að spjaldtölvur, fartölvur og tölvuskjáir hefðu verið afhent hagstofu Malaví í vikunni. Ætlunin er að tækin nýtist í þeirri viðleitni að safna gögnum og fylgjast með þróun kynbundins ofbeldis.

  

Þá sagði sendiráðið í Lilongwe einnig frá trjáræktarverkefnum í héruðunum Nkhotakota og Mangochi.

  

Breska flugvélamóðurskipið HMS Prince of Wales tekur þessa dagana þátt í flota- og flughersæfingunni Strike Warrior á Norðursjó. Sturlu Sigurjónssyni sendiherra var boðið að heimsækja skipið á rúmsjó í vikunni og var flogið þangað í þyrlu.

  

Aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk gerði upp þátttökuna í Hringborði norðurslóða sem fram fór í Hörpu í síðustu viku. Yfir 700 ræðumenn fluttu erindi á þinginu í rúmlega 250 málstofum og skráðir þátttakendur voru um 2500.

  

Arctic Expedition Cruise Week á vegum AECO, Association of Arctic Expedition Cruise Operators, fór fram í Osló í vikunni. Viðskiptafulltrúi sendiráðsins, Heba Líf Jónsdóttir, tók þátt fyrir hönd sendiráðsins og sem fulltrúi frá Visit Iceland/Íslandsstofu. Fjöldi íslenskra aðila innan ferðageirans sótti viðburðinn og voru með erindi.

  

Líbanon, sem er í umdæmi sendiráðsins í París, átti hug starfsmanna sendiskrifstofunnar þessa vikuna. Á mánudag meðflutti Ísland ályktun um Líbanon á vettvangi UNESCO. Um ein og hálf milljón barna og ungmenna hafa misst aðgengi að menntun og var stofnuninni falið að koma á fót neyðaráætlun til að bregðast við því auk þess að vernda menningar- og náttúruminjar og starfsemi fjölmiðlafólks. Í gær tilkynnti Ísland um 100 milljóna kr. viðbótarframlag til mannúðarmála í Líbanon á stórri fjáröflunarráðstefnu í París þar sem tókst að safna alls einum milljarði bandaríkjadala fyrir Líbanon.

  

Fastanefnd Íslands gagnvart UNESCO hefur verið önnum kafin en haustfundalotu framkvæmdastjórnar UNESCO lauk í vikunni. Ísland leiddi vinnu 40 aðildarríkja vegna ályktunar um aðgang afganskra kvenna og stúlkna að menntun. Þá voru ræddar ályktanir um neyðaraðstoð til Líbanon, Úkraínu og Gaza, nýtt forystuverkefni um friðarfræðslu, gervigreind og hlutverk stofnunarinnar við að sporna gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum í íþróttum, svo fátt eitt sé nefnt. Þá situr Ísland einnig í mannréttindanefnd UNESCO og tekur virkan þátt í umræðum þar.

Kristín Halla Kristinsdóttir, varafastafulltrúi gagnvart UNESCO, flutti ávarp Íslands á opnunarfundi framkvæmdastjórnar.

Haldið var upp á 20 ára afmæli vinabæjasamstarfs Paimpol og Grundarfjarðar með pompi og prakt í Paimpol á Bretagne-skaganum í Frakklandi í síðustu viku. Í tilefni afmælisins var slegið til hátíðar í bænum og boðið upp á fjölbreytta menningardagskrá alla helgina. Íslenskum fánum var flaggað víða um bæinn. Fjörutíu manna sendinefnd frá Grundarfirði undir forystu Bjargar Ágústsdóttur, bæjarstjóra Grundarfjarðar, tók þátt í dagskránni.

  

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra í París, og Katrín María Timonen, nemandi við SciencesPo-háskólann og starfsnemi í sendiráðinu, tóku þátt í hringborðsviðburði Norræna bókasafnsins í París í síðustu viku.

  

Þá heimsótti aðalframkvæmdastjóri UNESCO, Audrey Azoulay, Ísland á dögunum. Hún hitti nemendur Jarðhitaskóla GRÓ, heimsótti Reykjanessjarðvanginn, flutti ávarp á Hringborði norðurslóða og fundaði með forseta Íslands.

Starfsfólk sendiráðsins í Varsjá tók þátt í bleika deginum líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

  

Það gerði okkar fólk í Brussel sömuleiðis.

Friðrik Jónsson, sendiherra í Varsjá, afhenti Yevhen Perebyinis, varautanríkisráðherra Úkraínu, afrit af trúnaðarbréfi sínu. Þá ræddu þeir tvíhliða samskipti ríkjanna og Friðrik ítrekaði staðfastan stuðning Íslands við Úkraínu.

  

Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson sótti Winnipeg heim. Vilhjálmur Wiium, aðalræðismaður í Winnipeg, ávarpaði samkomuna og Jón Kalman í kjölfarið.

  

Ársfundur Alþjóðabankans fór fram í vikunni. Ísland er í kjördæmahópi norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) innan stofnunarinnar.

Skýrsla Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna 2024 var kynnt í vikunni og samhliða því var farið yfir áherslur Íslands í þróunarsamvinnu. Mannréttindi og fjölbreytni báru á góma þegar Ísland tók þátt í fundi þriðju nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York. Sendiráðið í Washington tók í vikunni á móti stórum hópi nemenda úr Verzlunarskóla Íslands. Ferðin er hluti af áfanga í stjórnmálafræði og fékk hópurinn kynningu frá Svanhildi Hólm Valsdóttur sendiherra og starfsfólki sendiráðsins. Starfsólk sendiráðs Íslands í Freetown heimsótti fulltrúa Center for Memory and Reparations sem halda á lofti minningu þeirra sem létu lífið í borgarastyrjöldinni í Síerra Leóne sem stóð yfir árin 1991 til 2002. Þórir Ibsen, sendiherra í Peking, ávarpaði opnun sýningar listamannsins Kristins Más Pálmarssonar, ILLUMINATION, sem fram fer í Peking þessa stundina. Þá ávarpaði Þórir sjávarráðstefnu í Qingdao. Sjálfbærni og bláa hagkerfið voru leiðarstef í ávarpi Þóris.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta