Hoppa yfir valmynd
01. nóvember 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 1. nóvember 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Norðurlandaráðsþing fór fram í Reykjavík í vikunni og tókst vel til. Einn af hápunktum þess var vafalaust þátttaka Volodómírs Selenskí Úkraínuforseta en hann hitti meðal annars forsætisráðherra Norðurlandanna, forseta Íslands, utanríkisráðherra og þingmenn á Alþingi. Meðal umræðuefna voru friðaráætlun Selenskís fyrir Úkraínu, gangurinn í vörn Úkraínumanna gegn Rússum og stuðningur Norðurlandanna í því efni.

Samvinna um öryggismál, málefni Úkraínu og ástandið í Mið-Austurlöndum voru til umræðu á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í vikunni sem haldinn var samhliða Norðurlandaráðsþingi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sat fundinn sem utanríkisráðherra Svíþjóðar stýrði þar sem Svíþjóð fer með formennsku í norrænu samstarfi utanríkisráðherranna í ár. Sviatlana Tsikhanouskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús, var gestur Norðurlandaráðsþings þar sem hún flutti ávarp og átti fund með norrænu utanríkisráðherrunum á þriðjudag.

  

Þá var nýlega samþykkt löggjöf ísraelska þingsins, Knesset, fordæmd en með henni er starfsemi Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, bönnuð og hún skilgreind sem hryðjuverkasamtök.

Þá lýsti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra yfir áhyggjum vegna þeirra annmarka sem fjallað hefur verið um í tengslum við framkvæmd þingkosninga í Georgíu um síðustu helgi. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hafa farið fram á óháða og ítarlega rannsókn á framkvæmdinni. Spænsku þjóðinni voru sendar samúðarkveðjur í nafni forsætisráðherra en gífurleg flóð hafa átt sér stað þar undanfarna daga í kjölfar hamfararigningar.

Ísland og Króatía áttu tvíhliða samráð í Reykjavík í gær þegar Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, fundaði með Andreja Metelko-Zgombić, ráðuneytisstjóra Evrópumála í utanríkisráðuneyti Króatíu.

  

Harald Aspelund, sendiherra í Helsinki, var viðstaddur þegar arktitektinn og rithöfundurinn Anna María Bogadóttir tók þátt á bókamessunni í Helsinki.

  

Vakin var athygli á norðurslóðaviðburðinum Arktis festival sem fram fer á Norðurbryggju um helgina þar sem Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, og fleiri Íslendingar — meira að segja íslenski hesturinn — taka þátt.

  

  

Davíð Bjarnason, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongwe, var staddur í Mangochi-héraði í Malaví í vikunni í tengslum við framkvæmd þróunarsamvinnuverkefnis Íslands í héraðinu.

Nú eru haldnir Norrænir músíkdagar í Glasgow í Skotlandi þar sem flutt eru verk eftir yfir 120 tónskáld og tónsmiði, þar á meðal fjölda íslenskra. Sendiráð Íslands í London kom að undirbúningi hátíðarinnar og var Sturla Sigurjónsson sendiherra viðstaddur opnunarathöfnina.

Í vikunni fór fram lokaráðstefna í Osló fyrir verkefni sem fjármögnuð eru á sviði menningar innan Uppbyggingarsjóðs EES. Fjallað var um þau verkefni sem unnin hafa verið á síðasta sjóðstímabili og mikilvægi menningarinnar við að ná markmiðum sjóðsins, það er að vinna gegn efnahags- og félagslegum mismun í þeim ríkjum sem aðstoðina þiggja. Högni Kristjánsson, sendiherra Íslands í Noregi, sem jafnframt er sendiherra Íslands gagnvart Grikklandi, einu af fimmtán viðtökuríkjum sjóðsins, var viðstaddur ráðstefnuna ásamt Karí Jónsdóttur sem sinnir menningarmálum í sendiráðinu.

Fyrirtækið Drynja hélt kynningu á vörum sínum í embættisbústaðnum í Osló í síðustu viku. Fyrirtækið er stofnað í kringum hönnunarvinnu Jónínu S. Lárusdóttur á skartgripum og er að stíga sín fyrstu skref á markaðnum með vörulínu sinni. Viðburðinn sóttu um 40 manns, þar á meðal starfsfólk sendiráðsins.

Nokkur fjöldi viðburða hefur farið fram nýverið víða um land í Svíþjóð vegna Íslenskra menningardaga sem sendiráðið í Stokkhólmi stendur að í samstarfi við Sænsk-íslenska samstarfssjóðinn og Norræna félagið. Bryndís Kjartansdóttir, sendiherra, hélt fyrirlestur um Ísland og íslenska sögu hjá Norræna félaginu í Västerås. Fjallað var um heimsóknina í dagblaðinu Vestmanlands Läns Tidning. Rithöfundurinn Rán Flygenring heimsótti Gautaborg og hélt vinnustofur fyrir börn á Gautaborgarsafninu. Hún hélt þar að auki fyrirlestur um bók sína Eldgos sem nýverið kom út á sænsku að undirlagi sendiráðsins.

Þá var sagt frá því á útvarpsstöðinni P4 Jämtland að Bryndís hafi vígt Daga íslenska hestsins (Islandshästdagar) í Wången sem er miðstöð fræða um íslenska hestinn í Svíþjóð.

Loks fór Bryndís í heimsókn til Umeå og var viðstödd sýningu á kvikmyndinni Kulda þar sem jafnframt fór fram samtal við leikstjórann, Erling Thoroddsen og Yrsu Sigurðardóttur, höfund bókarinnar sem myndin byggir á. Þau Yrsa og Erlingur, auk sendiherra, voru síðar gestir í Café Norden Island ásamt veitingahúsaeigandanum og ginframleiðandanum Jóni Óskari Árnasyni. Um er að ræða eins konar spjallþátt á sviði þar undir stjórn tónlistarmannsins og blaðamannsins Fredrik Furu. Sveitarfélagið Umeå bauð sendiherra jafnframt í heimsókn og kynningu á svo kölluðu kynjuðu landslagi borgarinnar. Þá bauð staðgengill landshöfðingja Västerbotten, Lars Lustig, til hádegisverðar til heiðurs sendiherra í embættisbústað landshöfðingjans.

Danssýningin When the bleeding stops eftir Lovísu Ósk Gunnarsdóttur var sýnd í Malmö, Umeå og Stokkhólmi.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Tókýó, leit við á listasýningu í Kýótó sem haldin var fyrir tilstilli íslenska myndlistargallerísins i8 og hins japanska Misako & Rosen.

Starfsfólk Norræna skálans á heimssýningunni sem fram fer í Osaka á næsta ári fundaði nýverið en nú styttist óðfluga í að þau herlegheit gangi í hönd. Ragnar Þorvarðarson, varamaður sendiherra í Tókýó, sótti fundina fyrir Íslands hönd.

Friðrik Jónsson, sendiherra í Varsjá, afhenti Volodómír Selenskí, forseta Úkraínu, trúnaðarbréf sitt í Kænugarði í síðustu viku.

Vilhjálmur Wiium, aðalræðismaður í Winnipeg, tók í vikunni á móti 60 manns í minningarathöfn um kennarann Dustin Geereart sem sérhæfði sig í íslensku og íslenskum miðaldabókmenntum.

Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York fagnaði 79 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna síðastliðinn föstudag og birti mynd frá allsherjarþinginu í september sl.

Bláa hagkerfið bar á góma þegar fulltrúar sendiráðs Íslands í Freetown hittu fulltrúa Alþjóðabankans og sjávarútvegsráðuneytis Síerra Leóne í síðustu viku. Inga Dóra Pétursdóttir, staðgengill sendiherra í Peking, flutti ávarp í tilefni undirritunar nýs samnings á milli Carbon Recycling International og CNTY. Inga Dóra flutti jafnframt ávarp í móttöku í Qingdao í tilefni af 20 ára afmæli skrifstofu Eimskips í Kína. Loks heimsótti hún kynningarbása íslenskra útflutningsfyrirtækja á sjávarútvegssýningunni í Qingdao.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta