Hoppa yfir valmynd
08. nóvember 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 8. nóvember 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Forsetakosningar fóru fram í Bandaríkjunum á þriðjudag. Donald Trump, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, bar þar sigur úr býtum og óskaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra honum til hamingju með kjörið.

Þá fór seinni umferð forsetakosninga í Moldóvu fram síðastliðinn sunnudag. Maia Sandu tryggði sér þar endurkjör og óskaði utanríkisráðherra henni sömuleiðis til hamingju með kjörið og ítrekaði stuðning sinn við Moldóvu og ánægju með viðleitni stjórnvalda þar í að efla samskipti við vestræn ríki.

Geir Oddsson afhenti í vikunni Zainab Hawa Bangura, framkvæmdastjóra skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí (UNON), skipunarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands gagnvart Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

  

Harald Aspelund, sendiherra í Helsinki, og Ásthildur Jónsdóttir opnuðu sýningarnar Lessons in a Theory of Forms: The Blob and Flying Cups og Candle Saucers eftir listamennina Jón B.K. Ransu og Hrafnkel Birgisson. Sjá má myndbönd af listamönnunum ræða sýningarnar hér fyrir neðan.

  

  

  

Starfsfólk sendiráðsins í Helsinki ferðaðist til Eistlands sem er eitt af umdæmisríkjum þess.

  

Þá óskaði okkar fólk í Helsinki finnska rithöfundinum Satu Rämö, sem búsett er á Íslandi, til hamingju með frumsýningu á leikverkinu Hildur sem byggir á samnefndri bók eftir Rämö.

  

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Kampala og UNICEF í Úganda heimsóttu í nýliðinni viku héruðin Terego og Adjumani á West-Nile svæðinu í norðurhluta landsins, stærsta viðtökusvæði flóttafólks í Úganda. Tilefni heimsóknarinnar var miðannarrýni á samstarfsverkefni Íslands og UNICEF. Ísland hefur frá árinu 2019 stutt við vatns-, salernis- og hreinlætisverkefni við skóla og heilsugæslustöðvar á svæðinu.

 

Um síðustu helgi var hin árlega árlega Arktisk Festival haldin á Nordatlantens Brygge í samstarfi við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, Norðurbryggju, Det Grønlandske Selskab, Arktisk Institut, Polarbiblioteket, Grønlandske og Arktiske Studier KU og Grønlands Repræsentation. Anddyri sendiráðsins var vettvangur fyrir marga vel sótta viðburði, en Pétur Ásgeirsson sendiherra hélt meðal annars fyrirlestur um reynslu sína af ferðalögum á Norðurslóðum. Einnig var boðið upp á ellefu önnur erindi, um allt frá arkitektúr á Norðurslóðasvæðinu yfir í erindi um íslenska hestinn í Danmörku.

  

Þessa dagana er haldin árleg ferðaþjónustukaupstefna í London, World Travel Market, þar sem þrjátíu íslenskir aðilar kynna þjónustu og landshluta. Á undanförnum árum hafa breskir ferðamenn verið annar stærsti þjóðernishópurinn sem hefur sótt Ísland heim og margir þeirra að vetrarlagi. Sturla Sigurjónsson sendiherra leit við í íslenska básnum og spjallaði við skipuleggjendur og fulltrúa fyrirtækja.

  

Útskrifaðir nemendur Jafnréttisskóla GRÓ - þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu komu saman í Nýju Delí. Benedikt Höskuldsson sendiherra ávarpaði viðstadda og fjallaði meðal annars um það góða starf sem unnið er á vettvangi GRÓ.

  

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Kanada, sótti ráðstefnu um tíu punkta friðaráætlun Úkraínu í Montreal undir lok októbermánaðar. Þar ítrekaði hann staðfastan stuðning Íslands við varnarbaráttu Úkraínu.

  

Viðskiptafulltrúi sendiráðsins í Ottawa hitti kollega sína úr norrænu sendiráðunum í Kanada í vikunni. Viðskipti, orkumál, menning og íþróttir voru meðal þess sem bar á góma í dagskrá norrænu kolleganna.

  

Sendiráðið í Ósló kynnti til leiks tvo nýja kjörræðismenn, þau Paal Wendelbo Aanensen, kjörræðismann í Haugesund, og Ninu Svendsen, kjörræðismann í Þrándheimi.

  

  

Fulltrúar sendiráðs Íslands í París heimsóttu eitt af umdæmislöndum sínum, Portúgal, í liðinni viku. Þar var 30 ára afmæli samstarfs Portúgals við EES-ríkin á vettvangi Uppbyggingarsjóðs EES fagnað. 

Bryndís Kjartansdóttir, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, tók á móti gestum til að fagna útgáfu bókarinnar Stories Concerning Heimaey eftir myndlistarmanninn og ljósmyndarann Erik Berglin. Í bókinni er að finna samansafn smáfrásagna íbúa Heimaeyjar um nóttina örlagaríku þegar eldgos hófst þar árið 1973. Þar er einnig að finna ljósmyndir eftir íslenska ljósmyndara sem teknar voru á tímum eldgossins sem listamaðurinn hefur umbreytt í ný verk sem miðla sögum einstaklinganna sem deila sögu sinni í bókinni.

  

Listamennirnir Sunna Svavarsdóttir og Þorsteinn Eyfjörð Þórarinsson taka þátt í listasýningu sem fram fer þessa dagana við listaháskóla í Tókýó. Sendiráðið í Tókýó vakti athygli sýningunni.

 

Einar Már Guðmundsson rithöfundur tók þátt í bókmenntahátíð í Þórshöfn og í Runavík dagana 2. og 3. nóvember. Hátíðin var á vegum Rúnavíkurbæjar og aðalræðisskrifstofu Íslands í Þórshöfn.

  

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, ávarpaði allsherjarþingið á dögunum og vék þar máli sínu að stöðu hinsegin fólks og virðingu fyrir mannréttindum.

Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður sendiráðsins í Freetown, fór yfir það hvernig kynjajafnrétti og þátttaka kvenna í orkugeiranum býður upp á fjölbreyttari sjónarmið, betri stjórn og aukna nýsköpun á viðburði SEforALL. Inga Dóra Pétursdóttir, staðgengill sendiherra í Peking, sótti CIIE-kaupstefnuna í Shanghai fyrir hönd sendiráðsins. Þar tók hún þátt í norrænum hringborðsumræðum um viðskipti með þátttöku Lin Ji, viðskiptaráðherra Kína, ávarpaði kynningarviðburð Össurar, heimsótti höfuðstöðvar CCP, IS Seafood, Marels og Össurar. Þá kíkti hún á sýningarbása íslenskra fyrirtækja og tók þátt í hringborðsumræðum um norræna nýsköpun og sjálfbærar lausnir.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta