Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 15. nóvember 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ferðaðist til London í vikunni og átti þar ýmsa fundi með fulltrúum breskra stjórnvalda og fleirum. Tvíhliða samband Íslands og Bretlands, viðskipti, vísinda- og rannsóknastarf, öryggis- og varnarmál o.fl. voru á meðal umræðuefna á fundum ráðherra.

  

  

Heimsþing kvenleiðtoga, Reykjavik Global Forum, fór fram í vikunni. Íslensk stjórnvöld og Alþingi eru bakhjarlar heimsþingsins og flutti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og einn meðgestgjafa þingsins í ár, ávarp þar. Meira en 500 alþjóðlegir kvenleiðtogar tóku þátt í ár en af þeim má til að mynda nefna Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands, og Mariu Ressa, friðarverðlaunahafa Nóbels, ásamt fjölda forystufólks í jafnréttismálum.

  

Vakin var athygli á árlegri skýrslu fastaráðs ÖSE um mansal og umræðu um hana í síðustu viku. Í skýrslunni kemur fram að pólítískur vilji sé grundvallaratriði í baráttu gegn mansali, ekki síst þegar stríð er háð í Evrópu og óstöðugleiki ríkir víða á ÖSE-svæðinu. Þá skapi flóttamannastraumur og mannúðarkrísa frjóan jarðveg fyrir aukið mansal og vegna þessa sé starf ÖSE til að berjast gegn mansali mikilvægur þáttur í öryggismálum á ÖSE-svæðinu.

  

María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu alþjóðapólitískra málefna, og Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, tóku þátt fyrir Íslands hönd í tvíhliða samráði með Spáni í Madríd í vikunni. 

Pólverjar héldu upp á þjóðhátíðardag sinn í vikunni og var þeim árnað heilla í tilefni þess.

Sendiráðið í Berlín óskaði leikstjóranum Rúnari Rúnarssyni til hamingju með verðlaun sem hann vann á norrænu kvikmyndadögum í Lübeck fyrir stuttmyndina O.

  

Harald Aspelund sendiherra og Ásthildur Jónsdóttir voru viðstödd frumsýningu á leiksýningu sem byggir á skáldsögunni Hildur eftir rithöfundinn Satu Ramö í Turku í síðustu viku. Þá tóku þau á móti hópi frá Ísafirði í tengslum við frumsýninguna.

  

Þá ávarpaði Harald samkomu í Turku þar sem umræðuefnið var konur með fjölmenningarlegan bakgrunn.

  

Sendiherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Helsinki hittust í hádegisverði í vikunni. Harald Aspelund tók þátt fyrir Íslands hönd.

  

Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, sótti á dögunum guðsþjónustu á vegum breska sendiráðsins í Kaupmannahöfn og The Royal British Legion til minningar um þá sem fórnað hafa lífi sínu í stríðsátökum. Eftir guðsþjónustuna lagði sendiherrann, ásamt sendiherrum sautján annarra ríkja, blómsveig við minnisvarðann „Vore Faldne“ við Kastellet í Kaupmannahöfn.

  

Sendiráð Íslands í Lilongwe tók á dögunum á móti hópi í tengslum við verkefni sem það tekur þátt í og snýr að því að meðhöndla fæðingarfistil.

  

Sturla Sigurjónsson, sendiherra í London, átti fund með Valerii Zaluzhnyi, sendiherra Úkraínu og fyrrum yfirmanni úkraínska heraflans, í vikunni. Staða mála í Úkraínu og öryggismál í Evrópu voru meðal umræðuefna þeirra.

  

Þá tóku Sturla og starfsfólk sendiráðsins í London á móti skartgripahönnuðinum Hendrikku Waage en hún stendur þessa dagana fyrir listsýningu þar.

  

Þórður Bjarni Guðjónsson, aðalræðismaður Íslands á Grænlandi, heimsótti listamanninn Elvar Örn á vinnustofu hans, en hann býr og starfar í Nuuk. Elvar hefur verið búsettur þar undanfarin ár og dregur innblástur frá stórbrotinni náttúru Grænlands, sem og frá menningu og samfélagi staðarins.

  

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Kanada, tók þátt í minningarathöfn í Ottawa um fallna hermenn og lagði blómsveig að minnisvarða fyrir Íslands hönd.

  

Ísland átti fulltrúa á CINARS 2024 Biennale í Montreal á dögunum, þar með talið frá sendiráði okkar í Ottawa.

  

Sylvi Listhaug, formaður Framfaraflokksins í Noregi, var gestur á hádegisverðarfundi sendiherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjann í Osló í boði sendiherra Íslands á dögunum. Þróun alþjóðamála og norsk stjórnmál voru meðal umræðuefna.

  

Það er sannarlega mikið um að vera í sendiráðinu í Osló þessa vikuna sem stóð fyrir öðrum hádegisverðarfundi fyrir sendiherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Sérstakir gestir voru fulltrúar frá norskum fjölmiðlum, þau Veslemøy Østrem frá Altinget, Frithjof Jacobsen frá Dagens Næringsliv og Lars Nehru Sand frá NRK. Efst á baugi voru komandi kosningar til Stórþingsins í Noregi í september 2025 en einnig var fjallað um öryggismál, Evrópumál og margt fleira.

  

Farandsýning myndlistarmiðstöðvar Outside Looking In, Inside Looking Out var opnuð í embættisbústað Íslands í Osló í vikunni. Högni Kristjánsson sendiherra og Ásgerður Magnúsdóttir buðu fjölmennum hópi gesta úr menningarlífi Noregs að sækja viðburðinn. Til sýnis voru verk eftir Arnar Ásgeirsson, Emmu Heiðarsdóttur, Fritz Hendrik IV, Hildigunni Birgisdóttur, Melanie Ubaldo, Styrmi Örn Guðmundsson og Unu Björg Magnúsdóttur.

  

Þriðjudaginn 12. nóvember var haldin móttaka í embættisbústaðnum í Osló í samstarfi við Women Tech Iceland með hópi kvenna úr tæknigeiranum í tilefni Nordic Women in Tech Awards. Ólöf Kristjánsdóttir, formaður WomenTechIceland, fjallaði um stöðu kynjanna í tækni og mikilvægi verðlaunahátíða líkt og Nordic Women in Tech Awards. Þá fluttu þær Kolfinna Tómasdóttir og Bridget Burger kveðju frá Höllu Tómasdóttir, forseta Íslands. Miðvikudaginn 13. nóvember fór verðlaunahátíðin fram og unnu þær Sigyn Jonsdottir hjá Öldu og Edda Aradottir hjá Carbfix til verðlauna. Þar að auki var fjöldi íslenskra kvenna í tæknigeiranum tilnefndur til verðlauna á hátíðinni.

  

Sendiráðið í Osló fagnaði íslenskri tungu og bókmenntum með hátíðlegri móttöku í embættisbústað sínum 13. nóvember. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Miðstöð íslenskra bókmennta, Miðstöð norskra bókmennta (NORLA) og Skapandi Ísland sem er samtarfsvettvangur utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu um kynningu á íslenskri list og menningu erlendis.

  

Sendiráðið í Osló, í samstarfi við háskólann í Osló, stóð fyrir málstofu um landnám Íslands í vikunni. Þar héldu prófessorarnir Jón Viðar Sigurðsson og Jon Gunnar Jørgensen hjá háskólanum fyrirlestra um landnámið og Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur fjallaði um mjög áhugaverðan fund í uppgreftrinum sem hún leiðir á bænum Firði á Seyðisfirði.

  

Tvíhliða samráð Íslands og Spánar fór fram öðru sinni í Madríd í vikunni, líkt og áður hefur komið fram, þar sem rætt var um sameiginlega hagsmuni ríkjanna á alþjóðavettvangi og vaxandi samskipti ríkjanna. Ríkin fagna 75 ára stjórnmálasambandi í ár og af því tilefni efndu Íslandsstofa, spænsk-íslenska verslunarráðið og sendiráð Íslands í París til viðskiptadagskrár í Madríd með þátttöku fulltrúa atvinnulífsins.

 

Sendiráðið í Stokkhólmi gerði upp nýafstaðna menningardaga í embættisbústað sínum og fékk til að mynda við liðs við sig rithöfundinn Yrsu Sigurðardóttur og tónlistarkonuna Önnu Grétu.

  

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Tókýó, tók þátt í tengslamyndunarviðburði hjá sendiráði Svíþjóðar í Tókýó ásamt sendiherrum Norðurlandanna sem snerist að mestu leyti jafnréttismál og mikilvægi kynjajafnréttis.

María Erla Marelsdóttir sendiherra og Elín R. Sigurðardóttir skrifstofustjóri tóku þátt í fjölbreyttri dagskrá fyrir Íslands hönd í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP29, í Bakú í Aserbaísjan. Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum (SÞ) tók á móti þingmönnunum Teiti Birni Einarssyni og Berglindi Ósk Guðmundsdóttur í New York í síðustu viku og sögðu frá störfum nefndarinnar og verkefnum hennar á vettvangi SÞ. Sendiráð Íslands í Nýju Delí bauð sendiherra Indlands gagnvart Íslandi velkominn til starfa. Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra í Washington D.C., átti fundi með hinum ýmsu aðilum í Utah og Colorado. Sendiráð Íslands í Freetown tók þátt í viðburði á vegum UNDP í Síerra Leóne.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta