Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 22. nóvember 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Í vikunni voru þúsund dagar liðnir frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ítrekaði stuðning Íslands við úkraínsku þjóðina og mærði hana fyrir hetjudáð í varnarbáráttu sinni gegn Rússum.

Fáni Úkraínu blakti fyrir utan ráðuneytið á þriðjudag, í samstöðuskyni við úkraínsku þjóðina. 

Þá gerði ráðherra umfangsmiklar árásir Rússa síðustu helgi, þær þyngstu í marga mánuði, að umræðuefni og ítrekaði mikilvægi þess að réttlátum og varanlegum friði verði komið á og endir bundinn á stríðið.

Þá hófst enn einu sinni eldgos á Reykjanesskaga, í sjötta sinn á árinu 2024, og það tíunda frá árinu 2021. Ráðuneytið ítrekaði að um væri að ræða staðbundið eldgos sem hvorki ógnaði lífi né flugumferð.

Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, opnaði fimmtugasta málþing þýsk-íslenska vinafélagsins í Köln. Auðunn hitti einnig borgarstjóra Kölnar í ferð sinni.

  

Auðunn og sendiherrar Norðurlandanna í Berlín birtu sömuleiðis sameiginlega grein á þeim degi sem þúsund dagar voru liðnir frá innrás Rússlands í Úkraínu þar sem stuðningur í garð Úkraínu var ítrekaður. Greinin byggir á yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna fimm og Volodómír Selenskí Úkraínuforseta sem gefin var út í tengslum við þing Norðurlandsráðsþing fyrir fáeinum vikum síðan.

Sendiráðið í Brussel hélt dag íslenskrar tungu hátíðlegan og stóð fyrir „uppdúkki“ (e. pop-up) á íslenskuskóla í sendiráðsbústaðnum. Þar tóku Kristján Andri Stefánsson sendiherra og Davíð Samúelsson á móti fólki. Þá var haldinn viðburður í EFTA-húsinu sem tileinkaður var íslenskri tungu.

  

Harald Aspelund, sendiherra í Helsinki, fylgdi viðskiptasendinefnd frá Langanesbyggð til borgarinnar Oulu í síðustu viku. Tilgangurinn var að kynna sér verkefni á sviði vindorku, rafeldsneytis og græns vetnis.

  

Harald var sömuleiðis viðstaddur 40 ára afmæli Philomela-kórsins í Helsinki. Þar var flutt lag eftir Arngerði Maríu Árnadóttur.

  

Þá heimsótti Harald lettnesku höfuðborgina Riga þar sem hann hitti fyrir heiðurskjörræðismanninn Ineta Rudzite, Árnýju Láru Sigurðardóttur, sem starfar á vegum Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi, og Jón Einar Sverrisson, fulltrúa Íslands hjá Sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force, JEF).

  

Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, hélt opnunarræðu á sýningu Thorvaldsensafnsins í Kaupmannahöfn. Sýningin er haldin til minningar um gjöf Kaupmannahafnar til Reykjavíkur árið 1874 á styttu eftir listamanninn Bertel Thorvaldsen.

  

Sendiráðið í Lilongwe vakti athygli á degi íslenskrar tungu og þýddi nokkur orð fyrir íbúa Malaví.

  

Þá vakti sendiráðið athygli á degi klósettsins og setti í samhengi við verkefni sem það tekur þátt í og styrkir í héruðunum Mangochi og Nkhotakota.

  

Þar fara fleiri verkefni fram, svo sem á sviði mannréttindamála og sem ætlað er að binda enda á ójafnrétti kynjanna.

  

Þá deildi sendiráðið myndum frá heimsókn sinni til Lupachi sem er eitt af þeim héruðum í Malaví sem hvað erfiðast er að ná til þegar kemur að því að veita grunnþjónustu. Davíð Bjarnason, forstöðumaður sendiráðsins, er meðal þeirra sem sótti Lupachi heim.

  

Sturla Sigurjónsson, sendiherra í London, sótti ásamt Jóhönnu Jónsdóttur og Brynju Jónsdóttur, árlegt jólaboð konungsfjölskyldunnar í Buckingham-höll í vikunni. Þar tóku á móti gestum Karl konungur og Kamilla drottning, ásamt Vilhjálmi, prins af Wales. Jóhanna, sem er varamaður sendiherra, klæddist íslenskum þjóðbúningi, eins og hefð er fyrir.

  

Sturla heimsótti á dögunum fyrirtækið ChitoCare Beauty, sem er leiðandi húðvörumerki á sviði líftækni. Þar kynnti hann sér starfsemina og lýsti ánægju sinni með verkefnið og það hvernig það stuðlar að því að kynna íslensk vísindi og sjálfbærni í Bretlandi.

  

Sendiráðið í London setti auk þess saman myndband í tilefni af degi íslenskrar tungu sem sýnir annars vegar frá starfsemi íslenska skólans og íslenska kórsins í Bretlandi.

  

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, tók þátt í athöfn sem haldin var í samstöðuskyni með úkraínsku þjóðinni í tilefni þess að þúsund dagar eru liðnir frá innrás Rússa í Úkraínu.

  

Þá tók Hlynur einnig þátt í athöfn til minningar um Holodomor, hina hræðilegu hungursneyð sem gekk yfir í Úkraínu á árunum 1932 til 1933.

  

Þá flutti Hlynur opnunarávarp á Ottawa-ráðstefnu Planet Youth þar sem saman voru komnir ýmsir sérfræðingar á sviði heilbrigðismála til að ræða mikilvægi þess að ungmenni séu hraust og upplifi gott uppeldi. Hlynur fór yfir reynslu Íslands í því sambandi.

  

Norræna menningarhátíðin Festival Les Boréales var opnuð með pompi og prakt í borginni Caen í Frakklandi í vikunni. Hátíðin er fastur liður í menningarlífi Normandí-héraðs en hún hefur verið haldin árlega síðan 1992 og er sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu. Lilja Stefánsdóttir sótti opnunina fyrir hönd sendiráðs Íslands en þar taka meðal annarra þátt rithöfundarnir Hallgrímur Helgason, Þóra Hjörleifsdóttir, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Jón Kalman Stefánsson.

  

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Tókýó, vék máli sínu að Vatnajökulsþjóðgarði, Surtsey og Þingvallaþjóðgarði, sem allt eru staðir á heimsminjaskrá UNESCO, á viðburði um náttúru og menningu Íslands í sendiráðsbústaðnum í Tókýó.

  

Þá tók Stefán Haukur á móti útflutningsráði á evrópskri tónlist þar sem íslensk tónlist bar meðal annars á góma.

  

Að auki tók Stefán Haukur á móti verðandi sendiherra Japan á Íslandi, Keizo Takewaka.

Friðrik Jónsson sendiherra og starfsfólk sendiráðsins í Varsjá tóku á móti háskólanemum í tilefni af degi íslenskrar tungu um síðustu helgi. Þar fór drjúgur hluti umræðunnar í ævi og verk Jónasar Hallgrímssonar.

  

Þá tóku fulltrúar sendiráðsins í Varsjá þátt í viðburði á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. Friðrik Jónsson flutti þar ávarp. Pólland er eitt af viðtökuríkjum sjóðsins.

  

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, og fastafulltrúar hinna Norðurlandanna kölluðu eftir því við Rússa að herlið þeirra yrði afturkallað frá Úkraínu og endir bundinn á stríðið sem þar geisar. Staðfastur stuðningur Norðurlandanna við Úkraínu var ítrekaður.

Þá tók Anna þátt í störfum þriðju nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna en Ísland fór ásamt sex öðrum ríkjum fyrir ályktun um mannréttindamál. Ísland styður við heimsmarkmið 14 um sjálfbærni hafsins og í sjávarútvegi og hefur lagt sitt af mörkum í því sambandi. Hendrik Daði Jónsson, lögfræðingur á laga- og stjórnsýsluskrifstofu ráðuneytisins, var staddur í New York nýverið þar sem óformlegt samráð átti sér stað um sjálfbærar veiðar. Fulltrúar sendiráðs Íslands í Freetown heimsóttu nýverið Bonthe-hérað í Síerra Leóne, ásamt fulltrúum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Ísland styður við verkefni á svæðinu sem snúa að menntun barna og því að styrkja matvælaframleiðslu. Haldið var upp á dag íslenskrar tungu í sendiráðinu í Peking í samvinnu við nemendur í íslensku í tungumálaháskóla Peking. Sýnd var íslensk kvikmynd og nemendur sýndu myndband á íslensku sem þau höfðu undirbúið af þessu tilefni. Greint var frá deginum á kínverska samfélagsmiðli sendiráðsins.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta