Hoppa yfir valmynd
13. desember 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 13. desember 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti stjórnarfund Þróunarseturs Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD Development Centre) sem fram fór í París í vikunni. Þar voru efst á baugi fjármögnun þróunarsamvinnu og græn og réttlát orkuskipti.

  

Þórdís Kolbrún þakkaði Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáen, fyrir samstarfið og vináttuna undanfarin ár en hann hverfur til annarra starfa nú þegar ný ríkisstjórn tekur við í Litáen.

Íslensk stjórnvöld hækkuðu nýverið framlag til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) um 24 prósent, en viðræðum vegna 21. endurfjármögnunar stofnunarinnar, sem á sér stað þriðja hvert ár, lauk síðastliðinn föstudag í Seúl. Framlög Íslands byggja á samþykktri fjármálaáætlun Alþingis en framlögin eru hluti af framlögum Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

  

Stuðningur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) við Úkraínu og hlutverk stofnunarinnar í öryggismálum í Evrópu og alþjóðlegum aðgerðum til að byggja upp og viðhalda friði voru á meðal umræðuefna á árlegum ráðherrafundi ÖSE sem fór fram á Möltu í síðustu viku. Í ávarpi sínu á fundinum fordæmdi Helga Hauksdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart ÖSE, alvarleg brot Rússlands á alþjóðalögum með allsherjarinnrás sinni í Úkraínu og gagnrýndi framgöngu þeirra innan stofnunarinnar harðlega. Þá fjallaði hún um alvarlegt mannréttindaástand í Belarús og þróun mála í Georgíu.

  

Vakin var athygli á mannréttindadeginum, 10. desember, á reikningi ráðuneytisins á X.

Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, opnaði árlega jólasögustund sendiráðsins fyrr í vikunni. Matthias Scherwenikas leikari las Aðventu Gunnars Gunnarssonar fyrir fullum sal í þrettánda sinn en upplesturinn er samstarfsverkefni sendiráðsins með menningarmiðstöðinni Skriðuklaustri.

Í vikunni fór fram móttaka í EFTA-húsinu þar sem því var fagnað að Pólland tekur senn við formennsku í ráði Evrópusambandsins. Finnur Þór Birgisson, varamaður sendiherra í Brussel, flutti þar ræðu fyrir hönd Íslands og fór yfir helstu vörður á liðnu ári þar sem 30 ára afmæli EES-samningsins var fagnað.

  

Harald Aspelund, sendiherra í Helsinki, var í vinnuheimsókn með fulltrúum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Tallinn í Eistlandi í vikunni.

  

Harald og Ásthildur Jónsdóttir, eiginkona hans, sóttu móttöku í boði Alexander Stubb Finnlandsforseta í tilefni þjóðhátíðardags Finna í síðustu viku.

  

Davíð Bjarnason, forstöðumaður sendiráðsins í Lilongwe, hitti Dr. Michael Usi, varaforseta Malaví, á mannréttindadaginn og flutti ræðu þar sem hann ítrekaði mikilvægi þess að mannréttindi væru virt í hvívetna. Ísland og Malaví munu bæði eiga sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á nýju ári.

  

Benedikt Höskuldsson, sendiherra í Nýju-Delí, ræddi samband Íslands og Indlands og loftslagsmál við nemendur IIMT-háskólans í Meerut á dögunum.

  

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, og eiginkona hans, Lulu, sóttu jólaboð á dögunum þar sem þau hittu forsætisráðherrann Justin Trudeau og utanríkisráðherrann Melanie Joly.

  

Þá gafst okkar fólki í Kanada tækifæri á að kynna sér jólahefðir Úkraínumanna í húsakynnum úkraínska sendiráðsins í Kanada.

  

Sendiráðið í Osló fékk í vikunni jólaheimsókn frá fulltrúum Icelandair sem komu færandi hendi með piparkökur, malt og appelsín og íslenskt góðgæti.

  

Í vikunni fór einnig fram afhending friðarverðlauna Nóbels í Osló en þau féllu að þessu sinni í skaut japönsku grasrótarsamtakanna Nihon Hidankyo sem eru samtök eftirlifenda kjarnorkuárásana á Hiroshima og Nagasaki. Í ræðum og erindum meðlima samtakanna var lögð áhersla á mikilvægi útrýmingar kjarnorkuvopna. Af þessu tilefni skipulagði sendiráðið, í samvinnu við Rvk Studios, Good Chaos, Universal Pictures International og Focus Features, sérstaka sýningu á kvikmyndinni Snertingu sem byggir á samnefndri bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar.

  

Íslensk hönnun var í öndvegi á viðburði sem haldinn var í embættisbústaðnum í París síðastliðinn föstudag, þar sem fyrirtækin Drynja og L’Atelier islandais héldu stutta kynningu á vörum sínum. Íslenska hönnunarmerkið Drynja leggur áherslu á að bjóða upp á breytilega skartgripi og fylgihluti, sem eru handgerðir úr náttúrlegum efnum. Vefverslunin L’Atelier islandais selur sérvalda og vandaða íslenska hönnun.

  

Þá fór varnarmálasamráð Íslands og Frakklands fram í París og Brest í vikunni. Fulltrúar varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins og sendiráðsins í París tóku þátt fyrir Íslands hönd.

Starfsfólk sendiráðsins í Varsjá er komið í jólaskap en Friðrik Jónsson sendiherra tendraði í vikunni ljósin á jólatréi sem skartar íslensku fánalitunum.

  

Friðrik tók einnig þátt í umræðu um fæðuöryggi Póllands og ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.

Jan Hernik, starfsmaður sendiráðsins í Varsjá, sótti á dögunum fund um verkefni á sviði menntunar sem framkvæmd voru fyrir tilstilli Uppbyggingarsjóðs EES í tengslum við fjármögnunartímabilið 2014 til 2021.

  

Hannes Heimisson, aðalræðismaður í Færeyjum, tók í vikunni á móti Elsu Berg, líffræðingi og nýkjörnum borgarstjóra í Þórshöfn. Tilefni heimsóknarinnar var ekki aðeins að heilsa upp á starfsfólk aðalræðisskrifstofunnar heldur til að taka fjarpróf við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, þar sem Elsa stundar framhaldsnám í náttúruvísindum. Elsa Berg er borgarfulltrúi Þjóðveldisflokksins og tekur formlega við embætti borgarstjóra í Þórshöfn 1. janúar næstkomandi.

  

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi gagnvart Atlantshafsbandalaginu, fjallaði um mikilvægi mannréttinda í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi í myndbandsávarpi á dögunum.

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi gagnvart Sameinuðu þjóðunum, flutti ávarp í allsherjarþinginu um ástandið á Gaza. Ísland tilkynnti um 70 milljóna króna viðbótarframlag til neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) á framlagaráðstefnu sem fram fór í New York á dögunum. Anna Pála Sverrisdóttir, mannúðarstjóri á skrifstofu alþjóðapólitískra málefna, sótti ráðstefnuna fyrir Íslands hönd. Guðrún Þorbjörnsdóttir, starfsmaður fastanefndarinnar í New York, sótti ráðstefnuna International Conference on Financing for Development á dögunum en þar voru til umræðu loftslagsmál, kynjajafnrétti og góðir stjórnunarhættir. Sendiráðið í Freetown vakti athygli á nýlegu samkomulagi Íslands og UNICEF sem snýr meðal annars að bættu aðgengi að hreinu vatni. Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður sendiráðsins, undirritaði samkomulagið fyrir Íslands hönd. Þá sótti Kjartan Atli Óskarsson, sendiráðsritari í Freetown, viðburð og hélt ávarp í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.

Sendiherrar norrænu sendiráðanna í Stokkhólmi áttu í vikunni fund með Jessicu Rosencrantz, Evrópumálaráðherra Svíþjóðar. Bryndís Kjartansdóttir sendiherra tók þátt fyrir Íslands hönd.

  

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta