Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 17. janúar 2025

Heil og sæl.

Við hefjum yfirferðina á ferð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra til Brussel. Þar hitti hún Maros Šefčovič, framkvæmdastjóra hjá Evrópusambandinu sem er ábyrgur fyrir utanríkisviðskiptum og samskiptum við Ísland, og Kaja Kallas, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Á fundunum lagði utanríkisráðherra áherslu á vilja ríkisstjórnarinnar til að efla samstarf Íslands og Evrópusambandsins enn frekar og að staðinn verði vörður um EES-samstarfið og það styrkt á viðsjárverðum tímum á alþjóðavettvangi. Þá kynnti ráðherra stefnu ríkisstjórnarinnar um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að ESB eigi síðar en árið 2027.

Þá hitti hún Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, í ferðinni en þar lagði hún áherslu á stöðu Íslands innan Atlantshafsbandalagsins, tók upp málefni Úkraínu og áherslur bandalagsins á norðurslóðum og á norðanverðu Atlantshafi. Utanríkisráðherra átti einnig símafund með Mariu Malmer Stenergard, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Þar báru málefni Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á góma, sem og málefni Atlantshafsbandalagsins, Úkraínu og Mið-Austurlanda. Þá fagnaði ráðherra samkomulagi um vopnahlé á Gaza og ítrekaði mikilvægi þess að þangað verði hægt að koma mannúðaraðstoð og að gíslar komist heilir og höldnu heim til sín og fjölskyldu sinnar. Að auki greindi hún frá að Ísland hefði ákveðið að inna af hendi framlag sitt til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) fyrr en til stóð. Þá þakkaði hún framkvæmdastjóra UNRWA, Philippe Lazzarini, fyrir framlag stofnunarinnar til mannúðaraðstoðar á Gaza. Ísland tók sömuleiðis undir yfirlýsingu Evrópusambandsins um málefni Venesúela þar sem kallað er eftir óháðri og gagnsærri yfirferð og staðfestingu á kosningaúrslitum forsetakosninga sem fram fóru þar í landi í fyrra. Þá ítrekaði hún mikilvægi þess að mannréttindi væru virt, sem og rétturinn til mótmæla og tjáningarfrelsi.

Í lok síðasta árs varð Ísland aðili að IMCA, aðgerðabandalagi um örvun fjárfestinga í þróunarríkjum. Í því starfa Norðurlöndin og Bandaríkin saman að blönduðum fjárfestingum í þróunarríkjum, einkum á sviði orku- og loftslagsmála. IMCA samstarfið miðar að því að nýta opinbert þróunarfé til að taka fyrstu áhættu (e. first loss) af fjárfestingum í þróunarríkjum og gera þau þannig að álitlegum fjárfestingakosti fyrir einkageirann, til dæmis lífeyrissjóði og aðra fagfjárfesta. Kynningarfundur um fjárfestingartækifærin sem fylgja þátttöku Íslands í IMCA var haldinn í vikunni í samstarfi við IcelandSIF og Íslandsstofu.

  

Harald Aspelund, sendiherra í Helsinki, ferðaðist í vikunni til Eistlands þar sem hann tók meðal annars þátt í opnun á sýningu úkraínskra listamanna undir yfirskriftinni How I Ended Up in a Bomb Shelter sem fram fór í borginni Narva.

  

Þá fékk sendiráðið í Helsinki til sín gesti, nemendur frá Aalto-háskólanum sem stunda nám í sýningarstjórnun. Nemendurnir fengu þar kynningu á yfirstandandi sýningu í sendiráðinu, ræddu galleríið og þá möguleika sem felast í sendiráðum sem sýna list með þessum hætti.

  

Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, sótti í síðustu viku áramótamóttöku grænlensku landsstjórnarinnar sem haldin er ár hvert á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Þar flutti gestgjafinn, Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, ávarp þar sem hann lagði meðal annars áherslu á að Grænland væri ekki til sölu og allar ákvarðanir varðandi stöðu Grænlands yrðu teknar af Grænlendingum sjálfum.

  

Starfsfólk sendiráðsins í Lilongwe heimsótti á dögunum Makanjira í Mangochi-héraði og kynnti sér þar stöðu uppbyggingar á húsnæði þar sem aðstaða verður fyrir barnsfæðingar og nýbura. Verkefnið er hluti af þeim sem Ísland styrkir undir hatti þróunarsamvinnuáherslna sinna í Malaví.

  

Stórt skref var stigið í átt að aukinni samræmingu og samlegð breskra fyrirtækja og samtaka sem koma að vinnslu og sölu á sjávarafurðum með stofnun Heildarsamtaka sjávarafurðaframleiðenda í Bretlandi (UK Seafood Federation) á fundi nærri Grimsby í vikunni. Þessum nýju samtökum er ætlað að gæta hagsmuna geirans og stuðla að aukinni neyslu sjávarafurða, auk þess að fjalla meðal annars um faglegar áskoranir, verklega þekkingu, siðferði og sjálfbærni, greiða upplýsingamiðlun og hindranalaus viðskipti. Sturla Sigurjónsson, sendiherra í London, var viðstaddur þegar stofnun samtakanna var tilkynnt.

  

Sendiráðið í París stóð á dögunum fyrir móttöku í sendiráðsbústaðnum til heiðurs prófessor François Xavier-Dillmann. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra í París, flutti ávarp í móttökunni.

  

Sendiráðið í Varsjá minntist í vikunni skipverja á pólska skipinu Wigry sem sökk undan ströndum Íslands í janúar 1942. Sérstök minningarathöfn var haldin í Fossvogskirkjugarði.

  

Friðrik Jónsson, sendiherra í Varsjá, tók í síðustu viku á móti fulltrúum alþjóðamálastofnunar í Póllandi. Til umræðu voru alþjóðasamvinna, Evrópusambandið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.

  

Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York óskaði Svíum til hamingju með forsætishlutverk sem þeir tóku nýverið við í framkvæmdastjórn UN Women.

Fulltrúar íslenska sendiráðsins í Freetown voru viðstaddir setningu viðburðavikunnar African Maritime Gender Network sem miðar að því að auka þátttöku kvenna í sjávarútvegi og sjálfbærni í greininni.

Fulltrúar frá Verkís undirrituðu í dag viljayfirlýsingu við svæðisstjórnvöld í Uttarakhand-héraði í Indlandi sem felur í sér fýsileikakönnun í tengslum við jarðhita á svæðinu. Benedikt Höskuldsson, sendiherra í Nýju Delí, var viðstaddur undirritunina.

  

Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra í Washington D.C., var viðstödd viðburð sem haldinn var í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá samþykkt ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið ög öryggi.

Þá tók okkar fólk í Washington D.C. á móti fulltrúum flugfélaganna Icelandair og Southwest Air í sendiráðsbústaðnum þar sem undirritað var samkomulag sem ætlað er að styrkja flugsamgöngur á milli Íslands og Bandaríkjanna.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta