Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 24. janúar 2025

Heil og sæl.

Ný stjórn tók við völdum í Bandaríkjunum í vikunni. Donald Trump tók þannig í annað sinn embætti forseta Bandaríkjanna og var honum árnað heilla í færslum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra. Þá óskaði utanríkisráðherra kollega sínum vestanhafs, Marco Rubio sem tók formlega við embætti utanríkisráðherra í vikunni, til hamingju og kvaðst vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi.

Þorgerður Katrín hefur undanfarna daga verið stödd í Zagreb í Króatíu en hún átti í dag fund með utanríkisráðherra landsins, Gordan Grlić-Radman. Í kvöld verður hún síðan viðstödd leik Íslands og Króatíu á heimsmeistaramótinu í handbolta og mun þar vonandi verða vitni að íslenskum sigri. Þá fordæmdi utanríkisráðherra aðgerðir Rússa gegn almennum borgurum í Úkraínu og ítrekaði mikilvægi þess að Úkraína yrði áfram studd með ráðum og dáðum þangað til tekst að binda enda á ólöglegt allsherjarstríð Rússa. Ráðherra fordæmdi einnig ákvörðun Rússa um fangelsisdóm yfir þremenningum sem stóðu í málsvörn hins heitna rússneska stjórnarandstæðings Alexei Navalní og sagði hana drifna áfram af pólitík og sýna fram á hörmulega stöðu mannréttinda í Rússlandi. Þá hefur utanríkisráðherra haldið áfram að eiga símafundi með kollegum sínum erlendis. Þannig átti hún samtal við Jan Lipavský, utanríkisráðherra Tékklands, en þar báru á góma fyrirhuguð loftrýmisgæsla Tékka á Íslandi, öflugt samband beggja ríkja og samstaða þeirra með varnarbaráttu Úkraínu. Þorgerður Katrín átti einnig símafund með hinum breska Stephen Doughty, ráðherra í málefnum Evrópu, Norður-Ameríku og þeirra svæða sem eru með sögulega og stjórnarskárlega tengingu við Bretland. Þar ræddu þau öflugt samband ríkjanna, öryggismál og samstöðuna með varnarbaráttu Úkraínumanna. Þorgerður Katrín vottaði fórnarlömbum eldsvoðans í Tyrklandi og fjölskyldum þeirra samúð sína. Þá náðist stór áfangi í vikunni þegar undirritaðir voru fríverslunarsamningar milli EFTA-ríkjanna og Taílands annars vegar og EFTA-ríkjanna og Kósovó hins vegar. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samningana fyrir Íslands hönd í Genf. Þorgerður Katrín fagnaði áfanganum og því að lög sem heimila samkynja hjónaband tóku í vikunni gildi í Taílandi. Martin átti jafnframt fund með Dr. Ngozi Okonjo-Iweala, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, í Davos í tengslum við World Economic Forum. Ráðuneytið vakti athygli á tilnefningarfresti vegna hinna svokölluðu Vigdísarverðlauna sem veitt eru á vettvangi Evrópuráðsins. Þau eru veitt einstaklingum eða samtökum sem lagt hafa sitt af mörkum í þágu jafnréttis. Líkt og nafnið gefur til kynna eru verðlaunin til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforseta heims.

Ísland, Bandaríkin, Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hafa ákveðið að hrinda í framkvæmd fjórum tillögum til að auka öryggi neðansjávarinnviða. Greint var frá tillögunum í vikunni.

  

Svanhildur Hólm Valsdóttir sendiherra í Washington var viðstödd innsetningarathöfn Donald Trump Bandaríkjaforseta á mánudag. Athöfnin átti að fara fram utandyra, eins og hefð er fyrir, en vegna kulda í Washington var ákveðið að færa athöfnina inn í þinghús.

Svanhildur fundaði með öldungadeildarþingkonunni og Íslandsvinkonunni Lisu Murkowski frá Alaska á dögunum. Sendiráð Íslands í Washington fékk til sín góða gesti frá þjóðvarðliði Maine-ríkis. Sendiherra og varnarmálafulltrúi sýndu sínar bestu hliðar og buðu upp á heimabakað brauð og íslenskar pönnukökur. Þá átti Svanhildur fund með þingmanninum Eric Swalwell frá Kaliforníu þar sem tvíhliða samband Íslands og Bandaríkjanna, öryggis- og varnarmál og viðskiptamál voru ofarlega á baugi.

Græna vikan fór fram í Berlín á dögunum en þar tók Auðunn Atlason sendiherra þátt og var meðal annars sendur upp á svið að flaka fisk fyrir framan viðstadda. Um er að ræða stærstu matvælasýningu Þýskalands en hana sækja um 600 þúsund manns.

  

  

Auðunn og hans fólk í sendiráðinu í Berlín sóttu Potsdam heim á dögunum og kynntu sér þar starfsemi jarðvísindastofnunar þar í borg. Þar voru ræddar ýmsar tækninýjungar á sviði jarðvísinda sem og mögulegt samstarf í því efni.

  

Í Brussel flutti Kristján Andri Stefánsson sendiherra opnunarávarp á ráðstefnu sem haldin var á vegum Uppbyggingarsjóðs EES þar sem meginumræðuefnið var baráttan gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi.

  

Kristján Andri flutti einnig opnunarávarp þegar Ljósbrot, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, var sýnd í Brussel í vikunni.

  

Listin var allsráðandi líkt og oft áður í sendiráðsbústaðnum í Helsinki en þar tóku Harald Aspelund sendiherra og Ásthildur Jónsdóttir eiginkona hans á móti hópi starfsmanna hjá hinu opinbera í Finnlandi. Til umræðu var sýningin THREAD CAREFULLY sem fram fer í sendiráðsbústaðnum, eftir þau Siggu Björgu Sigurðardóttur og Mikael Lind.

  

Helga Hauksdóttir, fastafulltrúi og sendiherra Íslands í Vín, sótti í vikunni fund með fulltrúum Norðurlandanna fimm og Eystrasaltsríkjanna þriggja (Nordic-Baltic 8). Fundurinn var í boði sendiherra Danmerkur en Danir fara einmitt með formennsku í NB8-samstarfinu sem kallað er.

Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um samgöngur og innviði var haldin í Reykjavík, dagana 20. til 22. janúar.

  

Sendiráð okkar í Osló er komið á fullt á nýju ári og vakti athygli á hvernig best megi fylgjast með störfum þess á árinu 2025.

  

Þá sótti Högni Kristjánsson sendiherra í Osló fund með kollegum sínum í boði finnska sendiráðsins. Þar voru til umræðu öryggis- og varnarmál, samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og stuðningur við varnarbaráttu Úkraínumanna gegn Rússum.

  

Bryndís Kjartansdóttir sendiherra í Stokkhólmi sótti viðburð á vegum þingmannanefndar Svíþjóðar gagnvart Norðurlandaráði og gerði þar grein fyrir nýafstöðnum þingkosningum á Íslandi og stjórnmálaástandinu hér á landi.

  

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og teymið í sendiráðinu í Tókýó tóku í vikunni á móti forstjóra og stjórnarformanni Íslandsstofu ásamt íslensku stjórnarmönnum norræna Expo 2025 Osaka verkefnisins.

Ragnar Þorvarðarson, varamaður sendiherra í Japan og forsvarsmaður Íslands gagnvart þátttöku á Expo 2025 Osaka heimssýningunni, kynnti þátttöku Íslands í norræna skálanum og þjóðardag Íslands á blaðamannafundi í Tókýó. Þjóðardagurinn er 29. maí.

  

Íslenski hópurinn fór svo og heimsótti norræna skálann í Osaka, en heimssýningin hefst 13. apríl.

  

Friðrik Jónsson sendiherra í Varsjá tók á móti Ásthildi Lóu Þórsdóttur mennta- og barnamálaráðherra í vikunni en hún var þangað mætt til að taka þátt í viðburði á vegum pólsku formennskunnar í ráði Evrópusambandsins sem nú stendur yfir.

  

Þá tók Friðrik á móti Matthias De Moor, fulltrúa Flæmingjalands í Póllandi. Í samtali þeirra voru til umræðu mögulegir samstarfsfletir og stuðningur við Úkraínu.

  

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu, ræddi við Radmila Shekerinska, varaframkvæmdastjóra bandalagsins, um áframhaldandi stuðning við Úkraínu og leiðtogafund bandalagsins sem fram fer í Haag á þessu ári.

Jörundur átti einnig fund með Stellu Samúelsdóttur frá UN Women á Íslandi þar sem jafnréttismál og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi báru á góma. Þórir Ibsen, sendiherra í Peking, átti fund með Li Jiang, skrifstofustjóra á skrifstofu Evrópumálefna í utanríkisráðuneyti Kína. Þar voru samskipti Íslands og Kína voru meðal annars til umræðu en auk þess jafnréttismál, jarðhitamál og kolefnisföngun.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta