Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 31. janúar 2025

Heil og sæl.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sótti í vikunni athöfn til minningar um fórnarlömb helfararinnar sem haldin var í Auschwitz í Póllandi. 80 ár eru liðin frá því að eftirlifendur í fangabúðum nasista í Auschwitz-Birkenau voru frelsaðir.

 

Staða alþjóðamála, aukið Evrópusamstarf á sviði öryggis- og varnarmála, mikilvægi innri markaðarins, og góð tvíhliða samskipti voru helstu umræðuefnin á fundum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra með Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, og Ignacy Niemczycki, aðstoðarráðherra Evrópumála í forsætisráðuneyti Póllands, sem fram fóru í Varsjá í vikunni.

 

Þá gerði ráðherra málefni hinsegin fólks að umfjöllunarefni sínu í færslu á Facebook, það bakslag sem orðið hefur í mannréttindamálum og hvernig Ísland hyggst beita sér á meðan setu þess í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna stendur árin 2025 til 2027.

  

Ráðherra heldur áfram að heyra í kollegum sínum úti í heimi en hún átti símtal við Elinu Valtonen, utanríkisráðherra Finnlands, meðal annars um norrænt samstarf og fyrirhugaða loftrýmisgæslu Finna hér á landi.

Hún átti einnig fjarfund með fulltrúum Noregs og Liechtenstein, að drjúgum hluta til um aðildina að innri markaðnum og EES-samninginn. Þorgerður Katrín vottaði fjölskyldum fórnarlamba hins hræðilega flugslyss í Washington D.C. samúð sína.

Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna funduðu í Helsinki þar sem Finnland gegnir formennsku í norræna varnarsamstarfinu (NORDEFCO) í ár. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sótti fundinn fyrir hönd Íslands. Á fundinum ræddu ráðherrarnir þétt og náið samstarf Norðurlandanna á sviði varnarmála, sem er sterkara en nokkru sinni fyrr. Þá var áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu til umræðu, til að mynda stuðningur við eigin hergagnaframleiðslu Úkraínu.

  

Harald Aspelund, sendiherra í Helsinki, sótti fund með sendiherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja gagnvart Litáen með varnarmálaráðherra Litáen.

 

Sendiráð okkar í Kampala fjallaði um samstarfsverkefni sitt og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í Karamoja sem miðar að því að útvega næringarríkar máltíðir fyrir skólabörn.

 

Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, sótti í vikunni fund dönsku Lýðræðisstofnunarinnar, DIPD, í Kristjánsborgarhöll. Forseti danska þingsins, Søren Gade, flutti opnunarræðu fundarins. Hann talaði um þróun lýðræðis í heiminum og lýsti áhyggjum sínum á stöðu þess, sem virðist á undanhaldi.

  

Davíð Bjarnason og starfsmenn sendiráðs okkar í Lilongwe gróðursettu í vikunni tré ásamt íbúum í Nkhotakota-héraði. Um er að ræða hluta af verkefni sem miðar að því að gróðursetja 390 þúsund tré í Nkhotakota og Mangochi.

  

Fjölsótt ráðstefna um ástand villtra laxastofna var haldin í London í vikunni. Hún var skipulögð af samsteypu nokkurra verndarsamtaka undir heitinu „The Missing Salmon Alliance“. Sendiráð íslands í London hafði milligöngu um þátttöku Guðna Guðbergssonar, sviðsstjóra hjá Hafrannsóknarstofnun, sem flutti framsögu um villta laxastofna á Íslandi. Auk hans var Sturla Sigurjónsson sendiherra viðstaddur og tók meðal annars þátt í fundi með Andreas Bjelland Eriksen, umhverfisráðherra Noregs, og fulltrúum félagasamtaka.

  

Inga Lísa Middleton og Bryndís Fjóla Pétursdóttir fluttu áhugaverðan fyrirlestur og svöruðu spurningum gesta um íslenska þjóðsagnahefð, álfa, tröll og huldufólk, og áhrif hennar á íslenska menningu, listir, og tengsl þjóðarinnar við náttúru landsins í sendiráðinu í London í vikunni. Samhliða því samtali opnaði Inga Lísa einnig sýningu á nýjum verkum sínum í sal sendiráðsins þar sem sjá má íslenska fossa.

  

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Austurríki, þáði nýlega ásamt eiginmanni sínum, Hafþóri Þorleifssyni, boð forseta Austurríkis, Alexander van der Bellen, í nýársmóttöku fyrir fulltrúa erlendra ríkja í Austurríki. Í ávarpi sínu í móttökunni ræddi forseti Austurríkis um alþjóðamál og stöðu stjórnmála í heiminum, sem er víða flókin og erfið úrlausnar. Hann vék einnig að stöðu landsmála í Austurríki og viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

  

Benedikt Höskuldsson sendi Indverjum sérstaka kveðju í tilefni þess að 76 ár voru liðin frá því að Indland varð lýðveldi.

Sendiráð Íslands í París fjallaði um Bocuse d'Or matreiðslukeppnina í Lyon þar sem Sindri Guðbrandur Sigurðsson tók þátt en hann naut þar aðstoðar Hinriks Arnar Halldórssonar. Sindri lenti í 8. sæti í keppninni sem er virtasta matreiðslukeppni í heimi.

Sem liður í bókmenntakynningarátaki sendiráðsins í Stokkhólmi, sem vefsíðan Läs isländska böcker hefur verið stofnuð um, heimsækir rithöfundurinn Einar Kárason Svíþjóð og tekur þátt í fimm viðburðum í þremur borgum. Fyrsti viðburðurinn fór fram á borgarbókasafni Gautaborgar á fimmtudag þar sem Einar var gestur í samtalsröðinni Internationell författarscen. Yfir 120 gestir sóttu viðburðinn, þar á meðal hluti Íslendingakórsins í Gautaborg sem söng fyrir viðstadda.

  

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra var stödd í Varsjá í vikunni en hún tók þar þátt í fundi, sem haldinn var sem hluti af formennskuáætlun Pólverja í ráði Evrópusambandsins, ásamt kollegum sínum.

  

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, flutti ræðu um málefni Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðannna, UNRWA, og mikilvægi þess að mannúðaraðstoð sé tryggð fyrir fórnarlömb átakanna á Gaza og víðar. Lög um bann við starfsemi UNRWA í Ísrael tóku gildi í vikunni.

Nikulás Hannigan, varafastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, flutti ræðu um stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar fagnaði hann því að loksins hefði tekist að koma á vopnahléi á Gaza og hvatti deiluaðila til að virða og standa rétt að framkvæmd samkomulags um vopnahléið. Anna átti sömuleiðis fund með fastafulltrúum Norðurlandanna og Indlands um stöðuna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra í Washington D.C., afhenti í vikunni trúnaðarbréf sitt til stjórnvalda í Mexíkó sem er einmitt eitt af umdæmislöndum sendiráðs okkar í Bandaríkunum. Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður sendiráðsins í Freetown, og Pálína B. Matthíasdóttir, deildarstjóri á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, kynntu sér afrakstur verkefnis í fiskiþorpinu Tombo í Síerra Leóne. Þá var verkefni UN Women í Síerra Leóne sem snýr að kynjajafnrétti, sem Ísland styður, ýtt úr vör í vikunni. Ásdís, Pálína og Kjartan Atli Óskarsson, starfsmaður sendiráðsins, voru viðstödd viðburð þar sem verkefnið var kynnt.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta