Hoppa yfir valmynd
07. febrúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 7. febrúar 2025

Heil og sæl.

Við hefjum yfirferðina á störfum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra undanfarna daga. Hún tjáði sig um nýlega gildistöku ísraelskra laga sem fela í sér bann við starfsemi Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, sem hún segir miður. UNRWA gegni gífurlega mikilvægu hlutverki í aðstoð við Palestínumenn og engin stofnun geti fyllt skarð hennar.

Þá óskaði hún forvera sínum, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, til hamingju með nýtt hlutverk sem sérstakur sendifulltrúi aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins í málefnum úkraínskra barna. Ráðherra vottaði fórnarlömbum hinnar hræðilegu skotárásar í Örebro í Svíþjóð, og fjölskyldum þeirra, samúð sína. Flaggað var í hálfa stöng fyrir utan sendiráðið í Stokkhólmi og þá hefur forseti Íslands jafnframt sent Karli Gústaf 16. Svíakonungi og sænsku þjóðinni samúðarkveðju.

Símtöl Þorgerðar Katrínar við kollega sína héldu áfram en hún heyrði meðal annars í Vivian Motzfeldt, sem fer meðal annars fyrir utanríkismálum Grænlands, í síðustu viku. Rauður þráður þess samtals var hið sterka samband Íslands og Grænlands.

Þá heyrði hún í Kestutis Budrys, utanríkisráðherra Litáen, í síðustu viku. Meðal umræðuefna voru tvíhliða samband Íslands og Litáen, samvinna ríkjanna í tengslum við samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) og málefni Úkraínu.

Fjallað var um loftrýmisgæslu Finna á Íslandi en fjórar finnskar F/A 18 Hornet orrustuþotur gæta loftrýmis Íslands um þessar mundir, í fyrsta sinn síðan Finnland gekk í Atlantshafsbandalagið. Fimmtíu manna sveit úr finnska flughernum kom með þotunum.

  

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri og Einar Gunnarsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í Genf, kynntu setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir starfsfólki utanríkisráðuneytisins, sendiskrifstofum Íslands og sendiskrifstofum ríkja með fyrirsvar gagnvart Íslandi í dag. Í kynningunum var farið yfir áherslur Íslands í setunni sem stendur yfir tímabilið 2025 til 2027 og umfjöllunarefni fyrstu fundalotu Íslands sem aðili að ráðinu að þessu sinni, en hún hefst 24. febrúar nk.

Athygli var vakin á alþjóðlegum degi gegn limlestingum á kynfærum kvenna. Ísland styður sérstakan sjóð Sameinuðu þjóðanna sem vinnur að því að útrýma þessum skaðlega sið á heimsvísu, og leggur baráttunni lið í tvíhliða samstarfi við UNFPA í Síerra Leóne.

 

Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra Íslands í Washington D.C., afhenti í vikunni orðsendingu um skipun sem áheyrnarfulltrúi Íslands hjá samtökum Ameríkuríkja. Luis Almagro, framkvæmdastjóri samtakanna tók við orðsendingunni og áttu þau stuttan fund í kjölfarið. Svanhildur átti að auki samtal um orkumál við Chris Barnard, forseta hugveitunnar American Conservation Coalition (ACC).

Arthúr Björgvin Bollason flutti í vikunni kynningu um bók sína um Ísland í sendiráðinu í Berlín fyrir fullum sal. Auðunn Atlason sendiherra bauð gesti velkomna og Arthúr las stutta kafla úr bók sinni, talaði um Ísland á mjög skemmtilegan og líflegan hátt og svaraði spurningum frá Tilman Spreckelsen fundarstjóra og gestum úr sal. Eftir á gátu gestir tryggt sér árituð eintök af bókinni.

  

Harald Aspelund, sendiherra í Helsinki, var í vinnuheimsókn í Lettlandi í vikunni og sótti þar meðal annars móttöku forseta landsins, Edgars Rinkēvičs.

  

Sendiráðið í Helsinki fagnaði 25 ára starfsafmæli Jyrki Peltonen í vikunni með köku og kaffi. Eru Jyrki sendar síðbúnar hamingjuóskir með þennan stóra áfanga í starfi!

Þá sótti Harald opnunarviðburð Finna vegna formennsku þeirra í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) á þessu ári. Elina Valtonen, utanríkisráðherra Finnlands, var meðal þeirra sem hélt erindi á viðburðinum.

  

Sendiráðið í Lilongwe tók á dögunum á móti Dr. Sveinbirni Gizurarsyni og fjölskyldu en hann rekur fyrirtæki sem hefur það meginmarkmið að hlúa að heilsu og lífi ungra barna í Malaví með framleiðslu á lífsnauðsynlegum og lífsbætandi lyfjum í formum sem henta fyrir börn yngri en fimm ára.

  

Þá tóku Davíð Bjarnason forstöðumaður og starfsfólk sendiráðsins í Lilongwe þátt í fundi í tengslum við framkvæmd verkefna í Nkhotakota-héraði.

  

Sturla Sigurjónsson, sendiherra í London, bauð viðskiptasendinefnd á vegum Bresk-íslenska viðskiptaráðsins velkomna í sendiráðsbústaðnum í vikunni. Sendinefndin tók meðal annars þátt í norrænu viðskiptaþingi sem norrænu viðskiptaráðin í London stóðu fyrir.

  

Þá tók Sturla á móti Melani Onn, þingmanni Grimsby, í vikunni. Þau ræddu sjávarútvegsmál, sölu íslenskra sjávarafurða í Bretlandi og reynslu Íslendinga af fullnýtingu sjávarfangs.

  

Okkar fólk í Ottawa, þar með talið Hlynur Guðjónsson sendiherra, sóttu vetrarhátíð sem embætti landstjóra Kanada stóð fyrir. Þar hafði sérstöku norrænu þorpi verið komið upp þar sem vakin var athygli á norrænni menningu og náttúru.

  

Högni Kristjánsson, sendiherra í Osló, var meðal viðstaddra þegar sendiherra Svíþjóðar í Noregi veitti hina konunglegu Norðurstjörnuorðu til Stian Jenssen sem gegndi embætti skrifstofustjóra á skrifstofu Jens Stoltenberg þegar hann gegndi embætti aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins.

  

Rithöfundurinn Einar Kárason hélt ferð sinni áfram um Svíþjóð og kom meðal annars fram á bókmenntaviðburðum í Stokkhólmi. Sagt var frá heimsókn Einars til Svíþjóðar í síðasta föstudagspósti.

  

Ernesto Lumenario, sem starfað hefur fyrir sendiráð okkar í Tókýó frá árinu 2001, var heiðraður með þriðja stigs heiðursmerki íslensku utanríkisþjónustunnar í móttöku í sendiráðinu. Þetta er viðurkenning fyrir ómetanlegt framlag hans og óbilandi trúmennsku í gegnum árin. Til hamingju, Ernesto!

  

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York, flutti ræðu fyrir hönd Norðurlandanna þar sem hún ítrekaði mikilvægi kynjajafnréttis og valdeflingar stúlkna á fundi á vettvangi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

Þá birti fastanefndin í New York yfirlýsingu sem Ísland tekur undir ásamt 78 ríkjum þar sem stuðningur við Alþjóðlega sakamáladómstólinn er ítrekaður sem og við alþjóðalög og mannréttindi. Sendiráð okkar í Freetown og fulltrúar UNICEF á Íslandi tóku höndum saman og heimsóttu Loko og Moyamba í Síerra Leóne. Þar er meðal annars unnið að því að bæta hreinlæti og aðgang að hreinu vatni. Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður sendiráðsins, og Pálína B. Matthíasdóttir, deildarstjóri á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, voru í ferðinni fyrir hönd ráðuneytisins.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta