Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 14. febrúar 2025

Heil og sæl.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur verið á ferð og flugi undanfarna daga og við hefjum pakka dagsins á umfjöllun um þátttöku hennar á fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsríkja í Brussel. Samstaða, styrking sameiginlegra varna bandalagsins og langtímastuðningur við Úkraínu voru meginskilaboð fundarins.

Í Brussel átti ráðherra einnig fund með Christopher G. Cavoli, yfirmanni herafla Atlantshafsbandalagsins í Evrópu (SACEUR). Varnir bandalagsins, fælingarmáttur og staða mála á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum voru meðal þess sem rætt var á fundinum. Þá hófst öryggisráðstefnan í Munchen í dag og tekur Þorgerður Katrín þátt þar, ásamt Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Jónasi G. Allanssyni, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Dagurinn í dag hefur að mestu farið í fundi líkt og sjá má á meðfylgjandi færslum.

Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu, staða mála þar og framtíðarhorfur, voru efst á baugi fjarfundar utanríkisráðherra Norðurlandanna sem fram fór í vikunni. Ráðherrarnir ræddu einnig öryggi á norðurslóðum og samstarf á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE).

  

Utanríkisráðherra lagði í vikunni fram frumvarp um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið er varðar bókun 35.

  

Í síðustu viku heimsóttu fulltrúar sendiráðs Íslands í Freetown verkefnastaði fyrir samstarfsverkefni Íslands, stjórnvalda í Síerra Leóne og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) um uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu í sjávarbyggðum Síerra Leóne. Ráðuneytið birti myndir úr ferðinni á Facebook og Instagram.

  

Nýju samstarfsverkefni Íslands, stjórnvalda í Síerra Leóne og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) um upprætingu á kynfæralimlestingum stúlkna og kvenna var formlega hleypt af stokkunum í sendiráði Íslands í Freetown á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynfæralimlestingum stúlkna og kvenna, þann 6. febrúar síðastliðinn.

  

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra tók þátt í óformlegum fundi ráðherraráðs ESB um iðnað og viðskipti sem fram fór í Varsjá dagana 3.-4. febrúar sl. en Pólverjar fara nú með formennsku í ráði ESB. Fundarefnið að þessu sinni var um stöðu evrópsks iðnaðar og samkeppnishæfni ESB með hliðsjón af vaxandi spennu á vettvangi alþjóðastjórnmála og utanríkisviðskipta.

  

Listin var sem fyrr ráðandi í sendiráðinu í Helsinki en þar var sýningin ARCTIC BLUE eftir Josefinu Nelimarkka og Þorvarð Árnason opnuð á dögunum.

  

Knattspyrnulið Víkings Reykjavíkur komst í sögubækurnar þegar liðsmenn þess fóru með sigur á gríska stórliðinu Panathinaikos á Bolt Areena í Helsinki í vikunni. Víkingar unnu 2-1 sigur en seinni umferð viðureignarinnar fer fram í Grikklandi. Harald Aspelund sendiherra var að sjálfsögðu á vellinum.

  

Þá sótti Harald fund með sendiherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna gagnvart Litáen og Gintautas Paluckas, forsætisráðherra Litáen, í Vilníus.

  

Harald flutti að auki ræðu í tengslum við formennsku Finna í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) um nauðsyn þess að beita sér gegn gyðingaandúð.

  

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Einar Gunnarsson, fastafulltrúi í Genf, tóku þátt í málstofu um setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna árin 2025 til 2027. Þá átti sér stað samráð stjórnvalda með frjálsum félagasamtökum um áherslur Íslands í tengslum við setuna.

 

Starfsfólk sendiráðsins í Lilongwe heimsótti verkefni í samstarfshéraðinu Nkhotakota á dögunum.

  

Jóhanna Jónsdóttir, varamaður sendiherra í London, fékk hlýjar móttökur í Cardiff þegar hún heimsótti borgina í vikunni ásamt kollegum frá Norðurlöndunum og Benelux-ríkjunum. Á dagskrá voru fundir með ráðherrum og þingmönnum velska þingsins, borgarstjóra Cardiff og fulltrúum heimastjórnarinnar þar sem meðal annars var fjallað um ríkan menningararf Wales, stjórnmál, efnahagsmál og nýsköpun. Angus McFarlane, ræðismaður Íslands í Cardiff, sýndi Jóhönnu miðborgina og meðal annars hinn sögufræga Cardiff-kastala.

  

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, var staddur í Nýju Delí á dögunum. Þar tók hann þátt í viðburði í kringum fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Indlands, átti fundi og var með erindi á hinni svokölluðu orkuviku - India Energy Week. Honum til halds og trausts var Benedikt Höskuldsson sendiherra.

  

 

  

  

  

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, og Per Unheim viðskiptafulltrúi sóttu ráðstefnuna Arctic 360 á dögunum. Þar voru málefni norðurslóða, eðli máls samkvæmt, til umræðu.

  

Gervigreind var í forgrunni í París á dögunum þegar leiðtogafundur um þann málaflokk fór fram dagana 10. – 11. febrúar. Fulltrúi Íslands á leiðtogafundinum var Logi Einarsson, ráðherra menningar, nýsköpunar og háskóla. Með honum í för voru fulltrúar ráðuneytisins og Almannaróms, miðstöð máltækni. Þá tóku fulltrúar íslensku fyrirtækjanna Datalab og Miðeind þátt í dagskrá ráðstefnunnar.

  

Sendiráð okkar í Tókýó vakti athygli Valentínusardeginum sem ber upp í dag. Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra fékk súkkulaðihúðað jarðarber í tilefni dagsins.

  

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York, átti fund með Dr. Natalia Kanem, framkvæmdastjóra Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA).

Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra í Washington D.C., fundaði með fulltrúadeildarþingmanninum Nick Begich frá Alaska í vikunni. Þá fundaði hún einnig með fulltrúadeildarþingmanninum Russ Fulcher frá Idaho. Sendiráðið í Washington fékk einnig til sín hóp nemenda úr Howard-háskóla í vikunni. Garðar Forberg, varnarmálafulltrúi sendiráðsins í Washington, tók þátt í pallborði um málefni norðurslóða sem Virginia National Guard stóð fyrir.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta