Hoppa yfir valmynd
14. mars 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 14. mars 2025

Heil og sæl.

Við hefjum yfirferðina á því að vekja athygli á fyrirhugaðri ferðaröð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra þar sem hún mun færa skrifstofu sína út á land, nær fólkinu í landinu. Fyrsti viðkomustaður verða Vestfirðir í næstu viku. Þar býður hún upp á opna viðtalstíma á Ísafirði og á Patreksfirði, auk þess sem hún verður með opinn kvöldfund á Dokkunni á Ísafirði.

  

Málefni Úkraínu, staða öryggis- og varnarmála í Evrópu, náið vinsamband Íslands og Tékklands og fyrirhuguð loftrýmisgæsla tékkneska flughersins á Íslandi, var efst á baugi fundar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherar og Jan Lipavský utanríkisráðherra Tékklands sem fram fór í húsakynnum utanríkisráðuneytisins við Austurhöfn í Reykjavík í vikunni.

  

Allsherjarstríð Rússa í Úkraínu er sem fyrr ofarlega á baugi í heimsmálunum. Utanríkisráðherra fagnaði niðurstöðu fundar sendinefnda Bandaríkjanna og Úkraínu, sem fram fór í sádiarabísku borginni Jeddah, þar sem báðar hliðar samþykktu að ramma utan um vopnahlésáætlun. Þar ítrekaði ráðherrann jafnframt að bolinn væri hjá Rússum.

Þá kynnti Þorgerður Katrín tillögu í ríkisstjórn um mótun stefnu í öryggis- og varnarmálum Íslands í vikunni. Stefnunni er ætlað að lýsa helstu öryggisáskorunum til lengri og skemmri tíma með áherslu á ytri ógnir og draga fram markmið Íslands í alþjóðlegu öryggis- og varnarsamstarfi, fjalla um nauðsynlegan varnarviðbúnað, og skipulag og getu sem þurfi að vera til staðar á Íslandi, auk þess að benda á hugsanlegar umbætur á laga- og stofnanaumgjörð varnarmála. Á sama tíma og þessi vinna hefst verður ráðist í nauðsynlegar aðgerðir til að styrkja varnarviðbragð Íslands og stöðu landsins sem samstarfsaðila bandalagsríkja í varnarmálum.

  

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna bar upp síðastliðinn laugardag, 8. mars. Vakin var athygli á honum á reikningi ráðuneytisins á X og á hinum ýmsu miðlum sendiskrifstofa okkar úti í heimi.

  

   

   

   

 

Niðurstöður nýrrar úttektar á vegum utanríkisráðuneytisins, sem framkvæmd var af Verkís verkfræðiskrifstofu, benda til að verkefnið Haven Rescue Home í Kenía, sem utanríkisráðuneytið styrkti með nýliðastyrk fyrir frjáls félagasamtök um fjórar milljónir króna árið 2021, hafi skilað haldbærum árangri.

  

Starfsfólk sendiráðsins í Lilongwe heimsótti einn af framkvæmdastöðum verkefnis í Nkhotakota-héraði á dögunum og kynntu sér aðstæður.

  

Fulltrúar sendiráðsins í Lilongwe voru ásamt fulltrúum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), menntamálaráðuneytis Malaví og héraðsstjórnar Nkhotakota viðstödd setningarviðburð nýs skólamáltíðaverkefnis sendiráðsins og WFP í vikunni. Fyrir framlagið munu um tíu þúsund börn fá heita máltíð úr fjölbreyttri fæðu daglega næstu þrjú árin.

  

Breskir þingmenn hafa stofnað þverpólitískan samstarfshóp um málefni Norðurlanda (Nordic All Party Parliamentary Group). Fyrsti fundur hópsins var haldinn í seinustu viku þar sem fjallað var um öryggis- og varnarmál í Norður-Evrópu. Sturla Sigurjónsson sendiherra í London tók þátt í fundinum.

  

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Vín, sótti á dögunum hátíðarfrumsýningu á heimildarmyndinni „The Day Iceland Stood Still“ eða „Ein Tag ohne Frauen“ eftir Pamelu Hogan og Hrafnhildi Gunnarsdóttur sem sýnd var við mjög góðar undirtektir í Filmcasino í Vín. Fréttamiðillinn W24 var með umfjöllun um myndina og tók viðtal við sendiherra þar sem að hún ítrekaði mikilvægi kvennafrídagsins fyrir árangur Íslands í jafnréttisbaráttunni og hversu nálægur dagurinn er enn í hugum Íslendinga.

  

Friðrik Jónsson sendiherra í Varsjá var til viðtals í Silfrinu þar sem umræðuefnið var stríðið í Úkraínu og staðan í pólskum stjórnmálum.

  

Friðrik ávarpaði sömuleiðis hringborð á dögunum þar sem rætt var um stöðu inngildingu úkraínskra flóttamanna.

Ísland gerði málefni barna að umfjöllunarefni fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í yfirstandandi vetrarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þá voru málefni hafsins umfjöllunarefni annarrar yfirlýsingar sem flutt var í lotunni. Fastanefndin í Genf stóð fyrir hliðarviðburði um málefni þolenda ofbeldis í tengslum við yfirstandandi vetrarlotu mannréttindaráðsins. Þessa dagana fer fram dagskrá í tengslum við kvennanefndarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Íslenska sendinefndin náðist á mynd. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Tókýó, sótti minningarviðburð í tilefni þess að 14 ár voru liðin frá Fukushima-kjarnorkuslysinu í Japan.

Í London eru fjölmörg sendiráð erlendra ríkja, sem gegna einnig hlutverki sendiráðs gagnvart Íslandi. Sendiherrar rúmlega 20 ríkja gagnvart Íslandi, sem allir eru búsettir í London, sátu fund um utanríkisstefnu Íslands í sendiráði Íslands í gær. Fundinum stýrðu Bergdís Ellertsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra og sendiherra í málefnum norðurslóða, og Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu.

  

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta