Hoppa yfir valmynd
24.01. 2018 Utanríkisráðuneytið

Fátækt í tölum: Úganda

Nýjasta mannfjöldarannsókn Úganda (UBOS, Uganda National Household Survey) sýnir að þurrkar og önnur náttúruöfl skertu lífskjör verulega á síðastu árum og fátækum landsmönnum fjölgaði úr 19% af fólkinu í 27%. (Miðað við mælingu 2013.) Samkvæmt þessu búa 10 milljónir manna nú við fátækt, sem jafngildir því að hafa innan við 130 krónur á dag til ráðstöfunar.  

Þetta er verulegt hrap og sýnir svo ekki verður um villst að landið býr við óstöðugan efnahag í mörgu tilliti. 75% landsmanna eiga mikið undir akuryrkju, beint sem sjálfsþurftarbændur, eða óbeint í óformlega hagkerfinu. En landbúnaður stendur aðeins undir 23% af landsframleiðslu. Verði skakkaföll af völdum náttúruafla eða markaða sveiflast hagsældartölurnar gríðarlega á stuttum tíma.

Ung láglaunaþjóð

Úgandar eru taldir vera um 38 milljónir manna, en þar af er helmingur undir 15 ára! Á hverju ári bætist við ein milljón barna svo skólakerfi og heilsuþjónusta hafa ekki undan. Aðeins helmingur fullorðinna er í fastri vinnu. Miðgildi mánaðarlauna í landinu er innan við 5000 IKR, mun lægra í sveitum en borgum. Hins vegar eru mánaðarleg útgjöld heimila meiri,  eða um 9-10.000 krónur á mánuði, sem þýðir að fólk þarf að hafa úti allar klær til að afla aukatekna eða aukaafurða með ræktun.

Úgandíska þjóðin er illa nærð. Hitaeininganeysla á dag er kringum 1500 á mann (miðgildi), og sagt að þriðjungur landsmanna stríði við ,,óviðunandi" næringarástand, sem varðar bæði orkuþörf og fjölbreytni í fæðuvali.  Þriðja hvert barn er vaxtarskert.

Óheilnæmt umhverfi

Höfuðborgin Kampala er sögð ein mengaðasta borg heims sem ekki kemur á óvart þeim sem gengur um götur. En malarían er helsta veikindaorsök (27%) og þar á eftir öndunarfærasjúkdómar (18%), meðal annars vegna þess að yfir 90% landsmanna nota eldivið til matargerðar. Skógareyðing í landinu nemur næstum 100 þúsund hekturum á ári. Nýjstu tölur sýna að skógarþekja landsins fór úr 25% frá árinu 1990, niður í 11% 2015, og hefur nú á aðeins tveimur árum minnkað enn og stendur í 9%. Landið verður skóglaust á innan við 20 árum ef svo  heldur áfram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta