Hoppa yfir valmynd
25.01. 2018 Utanríkisráðuneytið

Íslensk viðvera í Mósambík í rúmlega tuttugu ár

Skrefin til vinnu hafa verið ögn þyngri undanfarnar vikur heldur en venjulega. Nú hef ég nefnilega það verkefni með höndum að loka endanlega sendiráði Íslands í Mapútó. Markar það þáttaskil, en sendiráðið var á sínum tíma fyrsta sendiráð Íslands á suðurhveli jarðar og fyrsta sendiráð okkar í Afríku. Lokunin kemur í kjölfar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda um að ljúka samstarfssamningi um þróunarsamvinnu við stjórnvöld í Mósambík. Formlega lýkur samstarfinu 31. desember næstkomandi. Þetta þýðir lok beins samstarfs, þar sem Ísland stýrir verkefnum og er með puttana í framkvæmd. Hins vegar verður áfram stutt við að minnsta kosti tvö verkefni í landinu sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna framkvæma, annars vegar Unicef og hins vegar UN Women. 

Ísland hefur haft samfellda viðveru í Mósambík frá 1995, mestmegnis í gegnum starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ), en frá 2016 í gegnum utanríkisráðuneytið eftir að starfsemi ÞSSÍ rann inn í ráðuneytið. Er ekki óvarlegt að áætla að einhver hundruð þúsunda manna hafi á einn eða annan hátt notið góðs af íslenskri þróunarsamvinnu í Mósambík. Stærstu verkefnin hafa verið tengd fiskimálum, t.d. var til margra ára unnið að uppbyggingu gæðaeftirlits með sjávarafurðum, með að markmiði að Mósambík gæti flutt þess háttar afurðir inn á markaði Evrópusambandsins. Mikið og fjölbreytt þróunarstarf var unnið í tengslum við fiskveiðar í Cahora Bassa lóninu og hin síðustu ár hefur Ísland átt í samvinnu við Noreg um almennan, og mjög fjölbreyttan, stuðning við fiskimál í Mósambík. Hluti af þeirri samvinnu var uppbygging rannsóknastöðvar í fiskeldi, sem nefnist CEPAQ (Centro de Pesquisa de Aquacultura). Hinn 9. nóvember síðastliðinn var stöðin vígð með pompi og prakt af forseta Mósambíkur, Filipe Nyusi. Er vel við hæfi að ljúka samstarfinu á þann hátt. 

Auk fiskimála hefur Ísland stutt við margskonar önnur verkefni í Mósambík. Nefna má verkefni á sviði heilbrigðismála, fullorðinnafræðslu og menntamála almennt. Verkefni á sviði jafnréttismála vógu þungt um langt skeið og undanfarið hefur verið stutt við vatns- og salernismál við sveitaskóla og nærliggjandi samfélög. 

Eins og eðlilegt er þykir okkur sem unnið hafa í landinu á vegum Íslands sárt til þess að hugsa að viðveru okkar sé að ljúka. En þó er huggun harmi gegn að í gegnum Unicef verður haldið áfram að vinna að vatns- og salernismálum í skólum og nýhafið er samstarf í landinu við UN Women. Það samstarf snýr að friði og öryggi fyrir konur og styður við framkvæmd ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325. Þessi tvö verkefni verða unnin til að minnsta kosti árins 2020. Einnig má nefna að hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna starfa um þessar mundir tveir íslenskir sérfræðingar og annar þeirra verður í Mósambík til 2019. 

En þrátt fyrir allt er erfitt að loka sendiráðinu og hætta beinni aðstoð við Mósambík. Ég hugga mig við að hafa þó fengið tækifæri að búa í landinu og kynnast mósambísku fólki og mósambískri menningu. Hér hefur mér liðið vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta