UNRWA sinnir fimm milljónum flóttamanna frá Palestínu
Ákvörðun Trumps Bandaríkjaforseta, að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og að færa sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem, hefur beint sjónum alþjóðasamfélagsins að botni Miðjarðarhafs á ný. Deila Ísrael og Palestínu er enn óleyst og engin skýr lausn í sjónmáli.
Ákvörðunin hefur ekki aðeins aukið spennu í Ísrael og Palestínu heldur teygir hún sig til nágrannaríkjanna. Ákvörðun Trumps hefur verið fordæmd víða um heim og í Jórdaníu hefur verið mótmælt nánast upp á hvern einasta dag síðan ákvörðunin var gerð kunn.
Segja má að Jórdanía sé nánasta nágrannaþjóð Palestínumanna. Í stríði Araba við Ísraelsmenn 1948 tók Jórdanía yfirráð Vesturbakka Jórdanar og þúsundir Palestínumanna flúðu frá herteknum svæðum Ísraelsmanna yfir til austurbakka Jórdanar. Í sex daga stríðinu 1967 hörfuðu Jórdanar frá Vesturbakkanum og á ný flúðu þúsundir Palestínumanna yfir til Jórdaníu.
Engin skýr mörk hvar flóttamannabúðir byrja og enda
Eftir þessi stríð voru stofnaðar samtals 10 flóttamannabúðir í norðvesturhluta Jórdaníu sem allar áttu að vera til skamms tíma. Palestínuflóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, sá um flóttamannabúðirnar en árið 1949 fékk stofnunin umboð til þriggja ára til að tryggja grunnþjónustu, menntun og heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir Palestínuflóttamenn í Jórdaníu, Sýrlandi, Líbanon, Vesturbakkanum og Gaza. Nú, 69 árum eftir fyrra stríð Ísraelsmanna og Araba, 50 árum eftir sex daga stríðið 1967, og 22 endurnýjanir á umboði UNRWA, eru skráðir palenstínskir flóttamenn í Jórdaníu 2,2 milljónir. Flóttamannabúðirnar, sem áður voru í útjöðrum borga og bæja, eru nú orðnar hluti af þeim. Búðirnar eru opnar og það eru engin skýr mörk um hvar flóttamannabúðirnar byrja eða enda. Samkvæmt manntali jórdanskra stjórnvalda árið 2015 var íbúafjöldi Jórdaníu 9,5 milljónir en samkvæmt óformlegum tölum á um helmingur íbúa landsins ættir sínar að rekja til Palestínu. Það er því ekki að furða að samstaða með Palestínumönnum sé mikil í Jórdaníu.
Staða Palestínuflóttamanna í Jórdaníu er önnur en á hinum fjórum starfsstöðvum UNRWA, sem eru í Líbanon, Sýrlandi, Gaza og á Vesturbakkanum. Palestínumenn sem flúðu frá herteknum svæðum Palestínu og yfir til austurbakka Jórdanar fengu jórdanskt ríkisfang. Undanskildir eru Palestínumenn sem flúðu frá Gaza eftir stríðið 1967 og telja þeir um 150.000 af 2,2 milljónum skráðum flóttamönnum frá Palestínu í Jórdaníu. Þrátt fyrir jórdanskt ríkisfang voru þeir flóttamenn sem höfðu þurft að yfirgefa heimili sín og þráðu ekkert frekar en að snúa heim. Staða Palestínuflóttamanna erfist í karllegg og það er algengt að nú 50-70 árum síðar, njóti þriðja kynslóð Palestínuflóttamanna menntunar í einum af 171 skólum UNRWA í Jórdaníu. Í skólana 171 ganga 121.000 börn í fyrsta til tíunda bekk en þar að auki rekur UNRWA í Jórdaníu 25 heilsugæslur, tvo iðn- og tækniskóla og tæplega 60.000 einstaklingar fá lágmarksstyrki í gegnum félagsþjónustu UNRWA. Hjá vettvangsskrifstofu UNRWA í Jórdaníu starfa um 7.000 manns, langflestir Palestínumenn.
Erfiður hallarekstur
Á síðustu árum, á tímum ófriðar í Miðausturlöndum, hefur róður UNRWA orðið þyngri, ekki aðeins í Jórdaníu heldur á öllum starfsstöðvunum fimm. Þörfin fyrir þjónustu stofnunarinnar hefur aukist með vaxandi mannfjölda og þar með eykst rekstrarkostnaður stofnunarinnar. Neyðin er mikil í Miðausturlöndum og sjóðir ríkja og stofnanna, sem ætlaðir eru í hjálparstarf, eru jafnan uppurnir. Langvarandi deila Ísraels og Palestínu fellur gjarnan í skugga annarra ófriða og á síðastliðnum þremur árum hefur UNRWA verið rekið í miklum halla.
UNRWA reiðir sig alfarið á frjáls framlög ríkja Sameinuðu þjóðanna en aðeins örfáar fastar stöður alþjóðlegs starfsfólks eru fjármagnaðar af sjóðum Sameinuðu þjóðanna (af tæplega 7.000 starfsmönnum UNWRA í Jórdaníu eru innan við 10 alþjóðleg föst stöðugildi. Þar eru undanskilnar stöður, líkt og mín, sem fjármagnaðar eru beint af samstarfslöndum og stofnunum). Þrátt fyrir úrbætur og hagræðingu í rekstri stofnunarinnar eykst hallinn ár frá ári. Fjárhagsstaða UNRWA versnar með hverjum mánuði sem líður og í upphafi desember var óljóst hvaða áhrif það hefði á rekstur stofnunarinnar í ár.
Þann 11. desember, örfáum dögum eftir ákvörðun Trump, tilkynnti Pierre Krahenbuhl, framkvæmdastjóri UNRWA, að þrátt fyrir 49 milljón dala halla stofnunarinnar yrði starfi hennar ekki raskað í ár. Það er þjónustu fyrir 5 milljónir Palestínuflóttamenn í Jórdaníu, Sýrlandi, Líbanon, Gaza og á Vesturbakkanum. Yfir þrjátíu þúsund starfsmenn, hálf milljón nemenda í 711 skólum og milljónir sjúklinga á 143 heilsugæslum UNRWA anda því örlítið léttar - í bili.