Hoppa yfir valmynd
01.02. 2018 Utanríkisráðuneytið

Fyrir hvað stendur CFS?

Hér á vettvangi í Róm, eins og svo víða í Sameinuðu þjóða kerfinu er eins og ekkert hafi merkingu eða tilgang nema það fái skammstöfun. Það á við um Fæðuöryggisnefndina "Committee on World Food Security", sem er nánast aldrei kölluð neitt annað en CFS. Síðan líður tíminn og þeim fækkar sem vita hvað CFS stendur fyrir, nema nánustu aðstandendur. Til upprifjunar og fróðleiks fyrir áhugasama um fæðuöryggismál verður hér farið nokkrum orðum um þessa nefnd, CFS. Í lokin er bent á nokkrar slóðir sem vert er að skoða fyrir þá sem vilja kynna sér betur starf CFS.

Það er margt sérstakt við þessa nefnd sem Fæðuráðstefna FAO í Róm árið 1974 lagði til að stofnuð yrði sem viðbrögð við alvarlegu ástandi sem skapast hafði þá í fæðuöryggismálum í heiminum. Ári síðar stofnaði Aðalráðstefna FAO CFS sem eina af sínum fagnefndum. CFS var ætlað að endurskoða og fylgja eftir stefnum í fæðuöryggismálum þar með talið framleiðslu, aðgengi að og næringu matvæla.

Það er kannski ekki í frásögu færandi að einhver nefnd hafi gleymst eða runnið sitt skeið innan SÞ. CFS varð ein þeirra, hún tapaði mikilvægi sínu og varð ein af þessum nefndum sem ekki þjónaði miklum tilgangi í breyttum heimi. En það sem vert er að segja frá er að aðildarlönd FAO settu árið 2008 af stað heildar endurskoðun á nefndinni og hlutverki hennar. Þessari endurskoðun lauk árið 2009 og hefur CFS síðan starfað með gjörbreyttu sniði og með nýju hlutverki.

Ekki verða hér taldar upp allar þær breytingar sem gerðar voru á nefndinni einungis sagt frá því sem gerir hana sérstaka og vert er að skoða í ljósi stefnu SÞ til 2030 og Heimsmarkmiðanna. Fram til 2009 fundaði CFS aðeins einu sinni á ári og voru aðildarlöndin einu raunverulegu þátttakendurnir. Þessi SÞ nefnd var ekki öðruvísi en aðrar, löndin töluðu þar til allur fundartíminn var nánast liðinn. Það var því oft til málamynda að áheyrnaraðilum sem málið varðar var gefið orðið.

Samráðs- og samstarfsvettvangur um fæðuöryggismál

Mikilvægasta breytingin sem gerð var á nefndinni fólst í því að hún var gerð að raunverulegum samráðs- og samstarfsvettvangi um fæðuöryggismál. Þar sem aðildarlöndin, hagsmunaaðilar, SÞ stofnanir, alþjóðlegar rannsóknastofnanir, fjölþjóða fjármálastofnanir, félagasamtök og einkageirinn taka öll þátt í störfum hennar.

Við endurbæturnar varð til breiðari þátttaka en þekkist annarsstaðar í milliríkjanefndum á vegum SÞ. Reynt var að tryggja að sjónarmið sem flestra hópa heyrðust og að þátttaka þeirra væri á jafnréttisgrunni. Í þessu augnamiði voru sett á fót heildarsamtök frjálsra félagasamtaka annars vegar og einkageirans hins vegar, sem komu fram og töluðu fyrir þeirra hönd í nefndinni. Enn fremur var sérstök ráðgjafanefnd sett á laggirnar til þess að vera framkvæmdaráði CFS til aðstoðar um efnisleg málefni. Þar eiga sæti fulltrúar frá FAO, WFP, IFAD, félagasamtökum, einkageiranum, SÞ stofnunum og nefndum, alþjóðlegum fjármálastofnunum, alþjóðlegum rannsóknastofnunum í landbúnaði og einkarekinna mannúðarfélaga.  

Nefndin í heild sinni fundar í eina viku á hverju ári en milli funda starfar framkvæmdaráð sem í eiga sæti 12 aðildarríki og fundar minnst 6 sinnum á ári. Auk þess eru fjöldi óformlegra vinnuhópa að störfum þar sem allir sem aðild eiga að nefndinni geta tekið þátt á jafnréttisgrunni. Aðalfundur nefndarinnar eru vel sóttir, en í október sl. sóttu um 1.500 fulltrúar fundinn og á meðan á honum stóð voru haldnir um 60 hliðarviðburðir. Á eftir aðildarlöndunum eru fulltrúar félagasamtaka fjölmennastir þar á eftir eru fulltrúar einkageirans en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. 

En hver eru svo verkefni þessa umræðuvettvangs og hvernig vinnur hann? Í stuttu máli þá má segja að vettvangurinn vinni að því að ná samstöðu um stefnur og pólitíska leiðsögn í fæðuöryggismálum fyrir aðildarríkin. Þetta er gert m.a. með því að fela hópi óháðra og virtra sérfræðinga að gera ítarlega skýrslu til nefndarinnar um ákveðin málefni. Sérfræðingarnir eiga að grundvalla vinnu sína og ráðleggingar á rannsóknum og gögnum sem aflað hefur verið með vísindalegum hætti. Ráðleggingar sérfæðinganna eru síðan lagðar fyrir óformlegan vinnuhóp nefndarinnar þar sem samið er um ráðleggingar sem síðan eru lagðar fyrir aðalfund CFS. Hér er rétt að endurtaka að í þessu samningaferli standa allir sem eiga aðild að nefndinni að baki endanlegum ráðleggingum. Með öðrum orðum aðildarríkin, félagasamtök og einkageirinn standa að baki niðurstöðunni.

Ekki verður fjölyrt hér hver getur verið ávinningurinn af þessari aðferð til þess að ná samstöðu um leiðir í fæðuöryggismálum aðeins vakin athygli á því að þetta er ekki hefðbundin aðferð innan SÞ og að ekki er allir alltaf jafn sáttir við hana. Það er ekki einfalt mál né auðvelt að ná sameiginlegri niðurstöðu um hvernig hátta skuli fæðuframleiðslu þar sem við borðið sitja, svo tekið sé dæmi, bæði fulltrúar smábænda í fjallahéruðum Suður-Ameríku og fulltrúar einkageirans sem tala máli milliliða á borð við Neslé eða Monsanto sem þróar og selur aðföng fyrir landbúnaðinn.

Fórnarlamb eigin velgengni?

Undanfarin tvö ár hefur nefndin verið mikið í sviðsljósinu í Róm. Erfitt hefur reynst að tryggja fjárframlög til hennar, en hún hefur föst framlög frá SÞ stofnununum í Róm FAO, WFP og IFAD, auk frjálsra framlaga aðildarríkjanna. Einnig má segja að nefndin hafi orðið fórnarlamb eigin velgengni þar sem allt of mörg málefni hafa verið sett í vinnslu inn í nefndina. Það hefur svo valdið því að aðildarlöndin hafa ekki náð að sinna störfum hennar sem skildi. Á sama tíma fékk nefndin byr undir báða vængi þegar skýrsla framkvæmdastjóra SÞ, í aðdraganda samþykktar SÞ um yfirlýsingu um stefnumið til 2030 og Heimsmarkmiðin, tók nefndina sem dæmi um hvernig skuli auka þátttöku, samráð og samvinnu allra aðila máls við að ná Heimsmarkmiðunum.

Enn og aftur urðu tímamót í sögu CFS þegar árið 2015 var ákveðið, að mestu sem viðbrögð við fjárhagsvanda hennar, að fara skyldi fram óháð úttekt á störfum CFS. Þessari úttekt lauk á miðju ári 2016 og síðan þá hefur á vettvangi nefndarinnar verið unnið úr úrbótatillögum úttektaraðilanna. Margt mátti betur fara í störfum nefndarinnar að þeirra mati, en þar bar hæst óljós heildarstefna og ákvarðanaferli við verkefnaval sem hefur ekki tekið mið af tiltækum fjármunum.

Hvaða breytingum starf nefndarinnar tekur verður ekki vitað fyrr en á næsta ári, en eitt er víst, af áhuga aðildarlandanna og annarra meðlima nefndarinnar að dæma, að dagar hennar eru ekki taldir og að mikilvægi hennar kann að aukast takist samstaða um frekari endurbætur. En eitt er víst að verkefnin vantar ekki í heimi þar sem 815 milljón manns búa við fæðuskort og tíundi hver jarðarbúi er undir fátæktarmörkum. Vandi sem einungis verður leystur með samstilltu átaki allra sem aðild eiga að landbúnaði og fæðuframleiðslu. Í heimi sem stendur frammi fyrir loftslagsbreytingum sem kalla á gerbreytingu á fæðukerfum mannsins og umgengni við náttúruna.

CFS - Committee on World Food Security

HLPE - High Level Panel of Experts on Food Security and Nutrition 

CSM - Civil Society Mechanism for relations to the UN Committee on World Food Security 

PSM- Private Sector Mechanism 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta