Dregið hefur úr ungbarnadauða í Malaví um tæplega helming frá aldamótum
Malaví er það land í heiminum þar sem einna mestur árangur hefur náðst í baráttunni við ungbarnadauða. Þar hefur tekist á innan við tveimur áratugum að draga úr ungbarnadauða um tæplega helming. Um síðustu aldamót lést 41 barn af hverjum þúsund fæddum en sú tala er komin niður í 23 börn. Þetta kemur fram í pistli Lilju Dóru Kolbeinsdóttur verkefnastjóra í sendiráði Íslands í Lilongve. Hún segir að staðbundinn árangur við að draga úr mæðra- og nýburadauða í Mangochi héraði í Malaví sé að miklu leyti íslensku þróunarfé að þakka.
Lilja Dóra segir í pistlinum að aukið aðgengi verðandi mæðra að gæða heilbrigðisþjónustu skýri þessar miklu breytingar. Um síðustu aldamót hafi rúmlega helmingur allra kvenna fætt börn án þess að þjálfaðir heilbrigðisstarfsmenn kæmu þar nærri en árið 2016 hafi níu af hverjum tíu mæðrum eignast börn sín að viðstöddum þjálfuðum heilbrigðisstarfsmönnum.
Lilja Dóra minnir á að Íslendingar hafi í tólf ár frá aldamótum byggt upp sveitasjúkrahús í Monkey Bay í Mangochi héraði, með öflugri fæðingardeild, og síðustu fimm árin hafi heilbrigðismál í héraðinu notið stuðnings þróunarsamvinnu Íslands. „Helstu áherslurnar hafa verið á að auka aðgengi kvenna að heilbrigðisþjónustu sem miða að mæðra- og ungbarnaeftirliti og fæðingarhjálp. Markmið samstarfsins er að auka aðgengi að gæða heilbrigðisþjónustu fyrir verðandi mæður og tryggja aðgengi að kynheilbrigði og réttindum, til að draga úr mæðradauða í Mangochi héraði,“ skrifar Lilja Dóra.
Fram kemur í pistlinum að byggðar hafi verið átta fæðingardeildir og ellefu biðskýli fyrir verðandi mæður í verkefni héraðsstjórnarinnar með Íslendingum, auk héraðsfæðingardeildar sem risin er í Mangochi bænum. Starfsemi hefst í þessum nýju deildum fljótlega því nýlega réðu malavísk stjórnvöld 166 heilbrigðisstarfsmenn til starfa í Mangochi héraði sem taka til starfa í apríl. „Alls fæðast um 30.000 börn á ári hverju í Mangochi héraði en til samanburðar fæðast rúmlega 4.000 börn á á Íslandi á ári,“ segir Lilja Dóra.