Hoppa yfir valmynd
02.03. 2018 Utanríkisráðuneytið

Vítahringur átaka og hungurs

Fulltrúar Landbúnaðar- og matvælastofnunar SÞ (FAO) og Matvælaáætlunar SÞ (WFP) kynntu fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir fáeinum vikum stöðuna í fæðuóöryggi í heiminum. Á mannamáli: þeir voru að lýsa hungrinu í heiminum, hvar og hversu margir eru svangir, langsoltnir. Við þekkjum það öll að hafa einhverntíma verið svöng en getum aðeins reynt að ímynda okkur hvað það er að hafa lítið sem ekkert að borða dögum saman, vikum saman. Vera sársvöng. Fá aldrei magafylli, aðeins eitthvert lítilræði til að sefa sárasta sultinn.

Fulltrúar FAO og WPF sögðu frá því að hungur væri að finna meðal sextán þjóða. Ástæðan væri hvarvetna sú sama: átök.

Það hefur verið sagt frá því oft á síðustu misserum að hungruðum fjölgi í heiminum. Og skýringin er enn og aftur sú sama: vopnuðum átökum fjölgar. Þessi tvö nístandi köldu hugtök haldast í hendur: átök og hungur. Átök kynda undir hungur og hungur ýtir undir langvinnar deilur. Stendur fyllilega undir því ömurlega heiti: vítahringur.

Meirihluti þeirra 815 milljóna sem búa við sult – eða 489 milljónir manna – dregur fram lífið á svæðum þar sem geisa átök. Það sem gerir þessar fréttir sérstaklega dapurlegar eru sú staðreynd að árum saman voru fluttar jákvæðar fréttir að því að hungruðum færi fækkandi.

Þjóðirnar þar sem íbúarnir vita ekki hvort eða hvenær þeir fá matarögn eru þessar: Afganistan, Búrúndi, Miðafríkulýðveldið, Lýðræðislega lýðveldið Kongó, Gíneá-Bissá, Haítí, Írak, Líbanon (flóttamannabúðir Sýrlendinga), Líbería, Malí, Sómalía, Suður-Súdan, Súdan, Sýrland, Úkraína og Jemen.

Í tæplega helmingi þessara fátæku stríðshrjáðu þjóða er fjórðungur íbúanna á barmi hungurssneyðar. Þegar horft er á hlutfall íbúanna sem búa við alvarlegan matarskort er ástandið verst í Jemen. Þar eru hrjáir hungur 60% íbúanna, 17 milljónir. Í Suður-Súdan er 45% þjóðarinnar á barmi hungurssneyðar, 4,8 milljónir manna. Í Sýrlandi, Líbanon og Miðafríkulýðveldinu er um þriðjungur sem býr við sult, samtals 9,5 milljónir. Í Afganistan og Sómalíu aðrar tíu milljónir. Þá hefur ástandið í Lýðræðislega lýðveldinu Kongó farið hratt versnandi á síðustu vikum.

Opinn fundur á miðvikudag
Í næstu viku eigum við von á góðum gesti frá Kaupmannahöfn. Anne Poulsen framkvæmdastjóri WFP á Norðurlöndum heldur opinn hádegisfyrirlestur í Háskóla Íslands á miðvikudaginn kemur, 7. mars, um átök og hungur. Fyrirlesturinn er á vegum utanríkisráðuneytisins, Alþjóðamálastofnunar HÍ, Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST).

Full ástæða er til þess að hvetja alla til þess að koma í Odda og hlýða á erindi um það hvað unnt er að gera til þess að brjóta upp vítahring átaka og hungurs og hvernig Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna bregst við þessari nýju öfugþróun vaxandi átaka með tilheyrandi fjölgun þeirra sem líða matarskort.

THE STATE OF FOOD SECURITY AND NUTRITION IN THE WORLD 2017/ FAO

Viðburðurinn á Facebook

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta