Hoppa yfir valmynd
05.03. 2018 Utanríkisráðuneytið

Sá meira en ég man - og man fleira en ég sá

Síðustu 10 ár hef ég lifað og starfað í Afríku næstum samfellt og nú er komið að kveðjustund.  Margs vísari og mikið breyttur maður, stundum vonandi til batnaðar, þökk sé því góða fólki sem ég kynntist hér í álfunni heitu. ,,Eins og allir miklir ferðalangar sá ég meira en ég man - og man fleira en ég sá”  sagði Disraeli og ég gerði að einkunnarorðum bókar minnar um Afríku.  Á uppgjörsstundu man ég helst það sem er óáþreifanlegt og ólýsanlegt.  Hið ótrúlega litríka og fjölbreytta mannlíf í þeim löndum álfurnnar sem ég hef heimsótt.  Og það sem David Attenborough kallaði ,,stórkostlegasta sjónleik móður náttúru sem settur hefur verið á svið hér á jörð”.  Slétturnar, vötnin, skógana, fjöllin, fljótin og dýrin öll.

Namibía var fyrst með heitum eyðimörkum, mannlífi sem berst í bökkum þar sem kalla mætti endamörk veraldar en er í raun upphaf heimsins:  Hér telja menn sig sjá frumeindir af Gondwanalandi, ofurálfunni, sem klofnaði upp í meginlönd sem fóru á rek um úhöfin. 

Elsta planta í heimi, meira en þúsund ára, á hörðrum og vatnslausum mel.  Ótal ættbálkar og iðandi mannlíf, minnisstæðir frumbyggjar og forfeður okkar allra, Sanar (búskmenn) í Kalahari eyðimörkinni.  Og hjarðmennirnir sem standa vörð um forna lífshætti, Himbarnir, langt utan við ystu alfaraleiðir.  Þar rákum við Íslendingar stórt vatnsverkefni til að mannlíf mætti þrífast.

Hið fagra og fátæka Malaví.  Dásamlegar sveitinar, brosmilda fólkið,  UNESCO verndarsvæðið undir yfirborði Malavívatns sem er meira en 700 metra djúpt og geymir 1000 fiskitegundir.  Eða hásléttan sem rís hærra en Öræfajökull og sér hjörðum antilópa fyrir beitarlandi, þar sem 300 tegundir af orkideum blómstra og fuglafjöld fyllir loftið af söng og flögri. 

Í Malaví byggðum við Íslendingar myndarlegt sveitarsjúkrahús, heilsugæslustöðvar og senn verður tekin í notkun stór fæðingardeild sem annar milljón manna héraði. Þar er mæðradauði ógnarlegur, en með tilstyrk okkar hefur stórlega dregið úr.  Og vatnsbólin sem við styrkjum bæta heilsufar merkjanlega hjá örsnauðu sveitafólki.

Ég vann heima á Íslandi um hríð við árangursmat þróunarverkefna okkar og kynntist þá Úganda, sem hefur verið vettvangur minn í þrjú ár.  Landið við miðbaug þar sem er ein mesta fátækt í heimi, meira en helmingur fjörutíu milljóna manna er undir 18 ára aldri. 

Hér hefur mér fundist nauðsynlegt og best að vinna að menntun allra þessara barna.  Íslendingar geta verið stoltir af betri skólum, kennsluefni, kennaraþjálfun og foreldrafélögum.  Verkefnin stuðla að bættum árangri í skólum þar sem er 70% brottfall áður en börnin ná 12 ára aldri og drjúgur hluti er vannærður stóran hluta ársins. 

Árangur þeirra á samræmdum prófum batnar ár frá ári og er forsíðuefni blaða.  Um daginn lauk agnarsmáu tilraunaverkefni við bændaskóla í eyjum úti á Viktoriuvatni.  Þar höfum svið styrkt barnaskóla með góðum árangri, en ákváðum að reyna að ná til brottfallsnemenda sem ekkert hafa lært.  Í samvinnu við landbúnaðarskólann styrktum við verkefni 120 ungmenna sem lærðu að rækta svín og alifugla.  Útskriftin var glæsileg og stolt fengu þau viðurkennningarskjöl.  Fólk sem aldrei átti von á að ljúka neinu námi eða kunna eitthvað gagnlegt.  Fyrsta útskriftin á ævinni og hugsanlega sú eina.

Víst sá ég meira en ég man á þessum árum, en man þó margt á heimsíðunni minni, stefanjon.is, þar sem ég hef miðlað af reynslu minni til 400 þúsund innlitsgesta á 10 árum.  Sumt mundi ég þegar ég skrifaði bókina, Afríka, ást við aðra sýn. 

Og núna man ég ýmislegt sem ég sá ekki á þessum ferli, en saman raðast í minningu sem er hlý og góð eins og morgunsólin sem rís á sléttum Afríku og yljar antilópum á beit og ljónum á grein, og björt eins og brosin sem hvarvetna mæta manni.

Allar leiðir liggja til Rómar segir í fornum fræðum. Þangað liggur leið mín nú.

(Greinin birtist áður á heimasíðu Stefáns Jóns - stefanjon.is)

  • Sá meira en ég man - og man fleira en ég sá - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta