Ungbörn – hvers konar þróunarsamvinna gagnast þeim?
Við Íslendingar erum ekki fjölmenn þjóð. Þar af leiðandi er það fé sem við getum látið renna til þróunarsamvinnu lágt að krónutölu miðað við margfalt fjölmennari þjóðir. Enginn skyldi þó halda að þessi staðreynd þýði að okkar framlög skipti litlu máli. Langt í frá. Ég hef persónulega séð hversu mikið okkar framlög geta breytt lífi fólks, hvort sem um er að ræða heyrnarlausa í Namibíu sem allt í einu hafa aðgang að samfélagi annarra í gegnum menntun og þjónustu táknmálstúlka, eða þá tugþúsunda manna samfélög í Malaví og Mósambík, sem eftir margra ára vanlíðan og sjúkdóma, losna skyndilega undan því oki þegar þróunarfé Íslendinga útvegar vatnsveitur með hreinu og tæru vatni. Og ekki má gleyma mikilli lækkun mæðra- og nýburadauða eftir byggingar og endurbætur á fæðingadeildum og heilsugæslustöðvum á þeim svæðum sem við einbeitum okkur að. Miklu meira mætti telja til.
En vegna smæðar okkar er mikilvægt að við séum skilvirk í okkar þróunarsamvinnu og að við gætum þess að okkar fé dreifist ekki um of. Nauðsynlegt er fyrir okkur að fylgjast vel með rannsóknum sem skoða mismunandi leiðir til að bæta líf fólks sem og rannsóknir sem meta gæði og árangur þróunarsamvinnu. Þar með öðlumst við betri skilning á áhrifum okkar verkefna og hvort, og þá hvernig, við ættum og gætum fínpússað okkar starf. Í síbreytilegum heimi er jú ekkert víst að það sem virkaði vel í gær virki jafnvel á morgun.
Nýlega rakst ég á fræðigrein sem mér þótti forvitnileg í þessu samhengi. Sagt var frá henni í breska dagblaðinu The Guardian, en greinin birtist í ritrýndu og virtu tímariti sem nefnist Lancet Global Health. Í henni velta höfundarnir því fyrir sér hvaða þættir hafa áhrif á þroska barna frá fæðingu og til þriggja ára aldurs. Mér þótti þetta merkilegt því oft er talað um að þróunarsamvinna sem beinist að ungabörnum skil mestu til baka þegar horft sé til lengri tíma. Sé, sem sagt, sú arðsamasta, en ekki eru menn alltaf sammála um hvers konar inngrip gagnist þessum aldurshópi best.
Höfundar rannsóknarinnar tóku ríflega 10 þúsund barna úrtak sem þeir þrengdu niður í nær fimm þúsund börn í fjórum löndum, Argentínu, Indlandi, Suður-Afríku og Tyrklandi. Rannsóknin, sem tók meira en fjögur ár, náði einungis til heilbrigðra barna, en höfundar vildu sjá hvort hægt væri að finna mun á þroska heilbrigðra barna af ólíkum bakgrunni, t.d. börnum sem alast upp í ólíkum menningarheimum eða tala mismundandi tungumál. Löndin fjögur, sem eru að mörgu leyti ólík, teljast til lág- og millitekjulanda, en rannsóknir af þessu tagi eru sjaldan gerðar í fátækjum ríkjum fyrst og fremst vegna gagnaskorts. Í rannsókninni var, fyrir hvert barn, horft á 106 viðurkennda mælikvarða á þroska barna og síðan var gerð tölfræðileg greining á mælingunum til að átta sig á hvort munur væri á miðgildi þess aldurs sem ákveðnir hópar ná markmiði hvers mælikvarða. Markmiðið var sem sagt að átta sig á hvort börn nái hinum ýmsu þroskastigum á svipuðum aldri, burtséð frá kyni eða heimkynnum. Ef ekki, væri hægt að finna útskýringar þar á?
Sem dæmi um mælikvarða má nefna aldur þegar barnið hlær upphátt, hvenær barnið fer að nota þátíð í töluðu máli, hvenær barnið þekkir nöfn á ýmsum hlutum, hvenær barnið getur setið óstutt, hvenær það sparkar bolta, hvenær það hermir eftir öðrum og hvenær það drekkur úr glasi.
Af öllum þessum 106 mælikvörðum þá mældust 102 þeirra eins milli drengja og stúlkna, sem jafngildir 96%, og 81 voru eins milli allra landanna fjögurra, 76%. Þetta þýðir að miðgildi aldurs var tölfræðilega það sama milli hópanna. Til dæmis fóru bæði drengir og stúlkur að hlæja upphátt rétt innan við þriggja ára aldur algjörlega burtséð frá kyni eða landi. Þegar mismunur fannst mátti í mörgum tilvikum finna einfaldar og eðlilegar skýringar, t.d. voru börn í Argentínu og Suður-Afríku eldri þegar þau komust upp og niður tröppur af sjálfsdáðum heldur en börn í Indlandi og Tyrklandi. En í fyrri löndunum tveimur er mun algengara að híbýli fólks séu á einni hæð heldur en í hinum löndunum þar sem fólk býr í hærri híbýlum. Því er ekki undarlegt að munur mælist þar. Hvernig getur maður lært á tröppur ef þær eru ekki til staðar? Oft var hægt að útskýra mælanlegan mun á því hvenær börn upplifðu ákveðna hegðun fyrst.
Að sjálfsögðu slá höfundar ýmsa varnagla við túlkun niðurstaðna, en rannsóknin bendir engu að síður sterklega til þess að aldursþroski heilbrigðra barna, frá fæðingu til þriggja ára aldurs, sé svipaður milli landa og menningarheima. Samkvæmt því ætti að leggja mikla áherslu á að tryggja heilbrigði barna fyrstu þrjú ár ævinnar. Sjá til þess að þau fái næga næringu, fái viðeigandi bólusetningar og hafi aðgang að nauðsynlegum lyfjum, t.d. gegn malaríu.
Fyrir okkur Íslendinga er ánægjulegt að sjá þessar niðurstöður, því hluti okkar þróunarsamvinnu fer í að styrkja heilsugæslu í okkar samstarfslöndum, einkum heilsugæslu sem snýr að fæðingum og stuðningi við mæður ungbarna. Þetta felur í sér stuðning við heilsugæslustöðvar af ýmsu tagi sem og aðstoð við mikinn fjölda heilbrigðisfulltrúa sem hafa það hlutverk að heimsækja samfélög sem búa fjarri heilsugæslustöðvum og, meðal annars, fylgjast með vexti og þroska ungbarna. Með fræðilegar niðurstöður af þessu tagi í farteskinu þá þurfum við engu að síður að skoða hvort betur sé hægt að gera á þessu sviði – má fínpússa aðferðirnar?