Hoppa yfir valmynd
13.06. 2018 Utanríkisráðuneytið

Framlög íslenska ríkisins til UNICEF

Forsíða skýrslunnar. - mynd

Afar gott samstarf hefur átt sér stað á milli UNICEF og íslenska ríkisins um árabil og er UNICEF skilgreind sem ein af fjórum lykilstofnunum í marghliða þróunarsamvinnu Íslands. Þegar framlög ríkisins og landsnefndar eru dregin saman var Ísland þriðja stærsta gjafaríki UNICEF árið 2017 miðað við höfðatölu.

Kjarnaframlög (e. regular resources) Íslands til UNICEF hafa aukist jafnt og þétt milli ára, eða um 82% frá árinu 2014. Kjarnaframlögin eru ekki eyrnamerkt ákveðnum verkefnum og gera UNICEF þannig kleift að sinna þróunar- og hjálparstarfi á svæðum sem njóta lítillar athygli fjölmiðla og umheimsins almennt. Þessi almennu framlög hjálpa UNICEF einnig að vinna að málefnum sem erfiðara er að fá gefendur til að styrkja (s.s. fæðingarskráningar, ýmsar rannsóknir, nýsköpun og starf í þágu lítt þekktra jaðarhópa) og eru afar mikilvæg til að tryggja réttindi og velferð barna. Við kunnum íslenska ríkinu bestu þakkir fyrir vaxandi stuðning við þessi mikilvægu verkefni sem bæta hag barna um allan heim.

Fjölbreytt verkefni víða um heim

Fyrir utan hin mikilvægu kjarnaframlög, styður Ísland ýmis verkefni UNICEF víða um heim. Íslenska ríkið er stærsti einstaki stuðningsaðili þriggja ára verkefnis í Sambesíufylki í Mósambík þar sem UNICEF byggir upp vatns-, hreinlætis- og salernisaðstöðu í sex héruðum sem eru meðal þeirra fátækustu í landinu. Meginmarkmið verkefnisins er að bæta lífsgæði og heilsu fátækustu íbúanna með bættum aðbúnaði; aðgengi að hreinu vatni, salernis- og hreinlætisaðstöðu. Stuðningurinn við þessi mikilvægu verkefni nam 104,8 milljónum króna árið 2017.

Utanríkisráðuneytið veitti einnig á árinu 21 milljón króna til samstarfsverkefnis UNICEF og mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, um afnám á limlestingu á kynfærum kvenna og stúlkna. Samstarf UNICEF og UNFPA hefur það að markmiði að hraða afnámi þessarar skaðlegu hefðar. Verkefnið nær til sautján ríkja í Afríku og felst í fræðslu og stuðningi við einstaklinga, hópa og samfélög til að stuðla að afnámi hefðarinnar. Auk þess er veittur stuðningur við breytingar á laga- og stofnanaumhverfi í verkefnalöndunum. Ísland er eitt af átta gjafaríkjum þessa verkefnis sem hefur verið starfrækt frá árinu 2008.

Utanríkisráðuneytið studdi einnig dyggilega við neyðaraðgerðir UNICEF í Jemen á árinu 2017 með 30 milljón króna framlagi. Utanríkisráðuneytið hélt einnig áfram dyggilegum stuðningi sínum við verkefni UNICEF í Palestínu, en árið 2017 veitti ráðuneytið 30,2 milljónum króna til UNICEF í Palestínu.

Loks ber að geta 7,5 milljóna króna framlags utanríkisráðuneytisins til UNICEF á Íslandi samkvæmt samstarfssamningi. Samningurinn kveður á um að landsnefndin sinni vitundavakningu, fræðslu og upplýsingagjöf um starfsemi UNICEF ásamt því að vera ráðuneytinu til ráðgjafar vegna málefna barna á alþjóðavettvangi. Sú upphæð er sú eina af fjárframlögum ríkisins til UNICEF sem birtist í bókhaldi landsnefndarinnar.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint
3. Heilsa og vellíðan
2. Ekkert hungur
1 Engin fátækt

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta