Hoppa yfir valmynd
31.08. 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 6: Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

6. Hreint vatn og hreint - mynd

Tryggja öllum aðgengi að hreinu vatni og sjálfbæra nýtingu þess svo og hreinlætisaðstöðu

Hreint og aðgengilegt vatn fyrir alla er ómissandi hluti af lífi jarðarbúa. Á jörðinni er nægt magn ferskvatns til að ná megi þessu markmiði. Hins vegar hafa bæði slæm hagstjórn og lélegir innviðir orsakað það að milljónir manna, að mestu leyti börn, deyja árlega úr sjúkdómum sem tengjast skorti á vatni og hreinlæti. Enn fremur auka þurrkar líkur á hungursneyð meðal fólks sem treystir á árstíðabundna uppskeru.

Aðgengi að vatni

Á Íslandi er betra aðgengi að endurnýjanlegum uppsprettum vatns en hjá nokkurri þjóð í veröldinni.39 Heildarnýting á köldu vatni hefur verið áætluð um 200 milljón rúmmetrar á ári, sem samsvarar um 0,6% rúmmáls þess grunnvatns sem rennur til sjávar.40 Þótt Íslendingar búi við ofgnótt vatns er mikilvægt að tryggja aðgengi að hreinu vatni með því að vernda það og vinna að sjálfbærri nýtingu þess. Lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011 er ætlað að stuðla að þessum markmiðum og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Í reglugerðum um varnir gegn mengun vatns og um neysluvatn eru gerðar kröfur til neysluvatns svo og kröfur um vatnsvernd, starfsleyfi, eftirlit og rannsóknir. Reglugerðirnar eru settar annars vegar með það að markmiði að vernda heilsu manna með því að tryggja að neysluvatn sé heilnæmt og hreint og hins vegar í því skyni að vernda vatnsból. Með reglugerð um vatnsveitur sveitarfélaga eru settar reglur um réttindi, skyldur og ábyrgð notenda annars vegar og þjónustu vatnsveitu við íbúa og atvinnulíf hins vegar. Lög um hollustuhætti nr. 7/1998 hafa það m.a. að markmiði að tryggja landsmönnum heilnæm lífsskilyrði. Reglugerð um hollustuhætti er sett með stoð í lögunum og er í reglugerðinni ákvæði til að tryggja viðunandi hreinlætisaðstöðu.

Vatnsgæði og skólphreinsun

Markmið laga um stjórn vatnamála felur í sér heildstæða verndun vatns – að vernda vatn og vatnavistkerfi, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa. Vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun eru tæki til að ná þessum markmiðum og eru þær í vinnslu. Ísland hefur ekki lokið innleiðingu á lögunum en þegar því marki er náð skal taka aðgerðaáætlunina til endurskoðunar sjötta hvert ár. Um 74% íbúa landsins bjuggu við skólphreinsun árið 2014 en þar munar mest um skólphreinsun á höfuðborgarsvæðinu.41 Hreinsun skólps er takmörkuð utan höfuðborgarsvæðisins. Það ógnar almennt ekki vatnsvernd, þar sem fráveitur frá þéttbýli leiða flestar út í sjó, en æskilegt er að auka skólphreinsun til að bæta ástand í fjörum og strandsjó.

Vatnsauðlindin og vistkerfi

Ekki er útlit fyrir vatnsskort á Íslandi. Ávinningur af betri nýtingu vatns er einkum sá að halda stærð veitukerfa og fráveitubúnaðar innan hóflegra marka. Unnið er samkvæmt lögum um stjórn vatnamála að gerð vatnaáætlunar, aðgerðaáætlunar og vöktunaráætlunar sem eru samþættar fyrir landið allt. Gert er ráð fyrir að þessar áætlanir komi til framkvæmda á árinu 2020 eða þar um bil. Þær taka til yfirborðsvatns og grunnvatns ásamt árósavatni og strandsjó, til vistkerfa þeirra og tengdra vistkerfa.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Til margra ára hefur Ísland unnið að því að bæta aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu í þróunarlöndum. Það er mikilvægt heilbrigðismál. Í Malaví var til að mynda nær 1000 vatnsveitum komið á laggirnar sem áætlað er að bætt hafi aðgengi að minnsta kosti 200 þúsund einstaklinga að hreinu vatni. Í nýju fjögurra ára verkefni, sem hófst í Malaví árið 2017, eru vatnsmál mikilvægur þáttur. Í Mósambík er unnið í samstarfi við UNICEF að því að bæta vatns- og hreinlætisaðstæður í Sambesíu-fylki, sem er eitt af fjölmennustu og fátækustu fylkjum landsins. Samstarfið er framhald verkefnis sem unnið var frá 2014 til 2017 og gaf góða raun. Markmið verkefnisins, sem hófst í ársbyrjun 2018 og stendur til ársloka 2020, er að auka tryggt aðgengi að heilnæmu drykkjarvatni og viðunandi hreinlætisaðstöðu hjá markhópum í dreifbýli, smábæjum og þéttbýliskjörnum ásamt bættum hreinlætisvenjum fólks. Er stefnt að því að 150 þúsund manns fái viðunandi hreinlætisaðstöðu, 25 þúsund manns fái aðgengi að nýjum vatnsveitum og að nær sex þúsund nemendur í 15 skólum fái bætta vatns- og hreinlætisaðstöðu. Í Úganda hefur fræðsla um mikilvægi vatns, hreinlætis í skólum og orkusparandi eldunar í skólaeldhúsum farið fram í gegnum fjölbreytt menntaverkefni. Í Buikwe-héraði eru nú í byggingu vatnsveitur, fjármagnaðar af íslenskri þróunaraðstoð, sem munu veita íbúum í öllum 39 fiskiþorpum héraðsins aðgang að hreinu vatni á viðráðanlegu verði. Í sömu þorpum og grunnskólum eru einnig byggðar hreinlætisblokkir sem þjóna þessum byggðum. Samhliða uppbyggingunni er fólkið í þorpunum markvisst upplýst um mikilvægi hreins vatns og hreinlætis í heilbrigðu lífi. Um 18 til 20 þúsund nemendur í grunnskólum og 50 til 60 þúsund manns munu njóta góðs af þessum aðgerðum.

 

39 Globalstat, globalstat.eu.

40 Hagfræðistofnun HÍ, október 2011, Hagfræðileg greining á nýtingu vatns.

41 Umhverfisstofnun, september 2017, Samantekt um stöðu fráveitumála á Íslandi 2014.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta