Hoppa yfir valmynd
03.09. 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 7: Sjálfbær orka

7. Sjálfbær orka - mynd

Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði

Margar stórar áskoranir, auk tækifæra, sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag tengjast orkumálum. Lífsgæði, byggðafesta, samfélagslegt jafnræði og framþróun atvinnulífsins eru órjúfanlega tengd framboði á orku. Þess vegna er sjálfbær nýting orku mikilvæg öllum þjóðum til framtíðar. Staða Íslands í orkumálum er einstök þar sem langstærsti hluti þeirrar orku sem notuð er í landinu er endurnýjanleg, umhverfisvæn orka. Þó nota samgöngur á hafi, í lofti og á landi enn að mestum leyti óendurnýjanlega orku. Fjöldi rafknúinna bíla og bíla sem ganga fyrir öðrum vistvænum orkugjöfum eykst hratt um þessar mundir. Þrátt fyrir það er ljóst að orkuskipti eru eitt brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda á næstu árum.

Hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku

Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi var 71% árið 201542 og nánast öll raforka (99.9%) er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli, jarðhita og vindorku.43 Jarðhiti og raforka eru nýtt til húshitunar í nær öllum byggingum á Íslandi (99.9%). Að þessu leyti sker Ísland sig úr á alþjóðavettvangi. Um 80% af þessari raforku eru notuð í stóriðju og mun það hlutfall hækka eitthvað á næstu árum þegar ný stóriðjuver sem þegar hafa verið samþykkt taka til starfa. Sé horft til skuldbindinga íslenskra stjórnvalda skv. Kýótó-bókuninni og Parísarsáttmálanum er ljóst að svigrúm til áframhaldandi uppbyggingar stóriðju, sem hefur í för með sér aukna kolefnislosun, er nánast ekki neitt. Þess í stað er líklegt að til framtíðar muni stjórnvöld horfa til umhverfisvæns iðnaðar.

Aðgengi að endurnýjanlegri orku

Á heildina litið er bæði orkuframboð og orkuöryggi traust. Það felur í sér að aðgengi að nútímalegri og áreiðanlegri orkuþjónustu mjög gott. Allir landsmenn hafa aðgengi að rafmagni í híbýlum sínum og verð til almennings er lágt í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega verð á orku til húshitunar. Stöðugt er unnið að styrkingu flutningskerfis raforku með það fyrir augum að auka afhendingaröryggi þannig að allir landsmenn búi við sömu aðstæður og tæki færi til að stofna og reka smá iðnfyrirtæki. Þetta á t.d. við um aukið framboð á þriggja fasa rafmagni í dreifbýli. Að þessu leyti eru orku- og byggðamál nátengd. Styrking dreifikerfis raforku styður einnig við áform um orkuskipti í samgöngum. Í núverandi flutningskerfi raforku er orkuöryggi nokkuð mismunandi eftir landsvæðum. Afhendingaröryggi á Vestfjörðum og Norðausturlandi hefur verið einna lakast. Unnið er að endurbótum á þessum þáttum. Landsnet setur fram tímasettar áætlanir um uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis raforku. Jöfnun orkuverðs heimila hefur verið áherslumál stjórnvalda um langa hríð. Orkuverð heimila er hærra hjá þeim sem ekki hafa aðgang að jarðvarmaveitum til húshitunar eða búa á strjálbýlum svæðum þar sem dreifikostnaður rafmagns er hærri en í þéttbýli. Þessi verðmunur hefur verið brúaður að hluta til með niðurgreiðslum frá hinu opinbera. Ýmis sveitarfélög á köldum svæðum leita að heitu vatni til að nota til upphitunar. Reynsla undanfarinna ára gefur ákveðið tilefni til bjartsýni um að hlutur jarðhita aukist á kostnað rafhitunar með tilheyrandi sparnaði. Samgöngur á landi og sjó eru enn að langmestu leyti knúnar jarðefnaeldsneyti og er það helsta ástæða þess að um 30% af frumorkunotkun á Íslandi kemur úr óendurnýjanlegum orkugjöfum.44 Stjórnvöld hafa beitt skattaívilnunum í því skyni að hvetja til kaupa á bifreiðum sem nýta umhverfisvænt eldsneyti á borð við rafmagn, metan og metanól. Einnig eru í boði ívilnanir til að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. Enn eru orkuskipti í skipaflota landsins skammt á veg komin enda hefur þróun á umhverfisvænum orkugjöfum fyrir úthafssiglingar verið hæg. Meðan engir slíkir valkostir eru í sjónmáli er óraunhæft að marka stefnu í þeim málaflokki. Aukin áhersla er á orkuskipti í haftengdri starfsemi. Aukin orkunýtni Vegna tækniframfara hefur árleg meðaltalsnotkun heimila á rafmagni lækkað úr 4,9 MWh árið 2009 niður í 4,5 MWh árið 2014. Þetta kemur fram í nýrri raforkuspá orkuspárnefndar sem áætlar að orkunotkun hvers heimilis muni minnka niður í 4 MWh á næstu árum. Sparneytnir ljósgjafar og heimilistæki eru helstu skýringar á minnkandi raforkunotkun á heimilum landsmanna. Á móti kemur að tækjum á heimilum hefur farið fjölgandi en flestar nýjar tækjategundir eru orkugrannar. Orkunotkun á hvern bandaríkjadal af landsframleiðslu er mikil hérlendis og skýrist það annars vegar af því háa hlutfalli orkuframleiðslu hérlendis sem fer til stóriðju (80%), og hins vegar af fámenni þjóðarinnar.45 Hið opinbera hefur beitt sér fyrir aukinni orkunýtni, t.d. með starfsemi Orkuseturs sem veitir almenningi ráðgjöf um orkusparnað.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Íslensk stjórnvöld eru framarlega á sviði jarðvarmanýtingar til upphitunar og raforkuframleiðslu. Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem miðlar tækniþekkingu til fagfólks frá þróunarríkjum, er mikilvægur þáttur í alþjóðlegu samstarfi á sviði sjálfbærrar orku en Ísland veitir einnig framlög til ýmissa stofnana og sjóða sem með ýmsum hætti koma að verkefnum á sviði orkumála í þróunarríkjunum. Sem dæmi má nefna stuðning Íslands við orkusjóð Alþjóðabankans (ESMAP) en frá því sá stuðningur hófst hafa fjárfestingar Alþjóðabankans í jarðhita aukist talsvert. Í tengslum við samstarfið innan ESMAP veitir Ísland einnig stuðning í formi tæknilegrar ráðgjafar inn í jarðhitaverkefni Alþjóðabankans. Íslensk stjórnvöld veita jafnframt framlög til sjóðs á vegum Átaks Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra orku fyrir alla (SE4ALL) og Alþjóðastofnun fyrir endurnýjanlega orku (IRENA), svo dæmi séu nefnd. Ísland á einnig í tvíhliða samstarfi á sviði endurnýjanlegrar orku við ríki í Austur-Afríku. Í krafti sérþekkingar og mikillar reynslu í nýtingu endurnýjanlegrar orku hefur Ísland þannig áhrif á alþjóðavettvangi, langt umfram stærð lands og þjóðar.

42 Eurostat, 14. mars 2017, Renewable energy in the EU. Share of renewables in enery consumption in the EU still on the rise to almost 17% in 2015, Eleven member states already achieved their 2020 targets.

43 Orkustofnun, 2016, Stöðluð yfirlýsing fyrir árið 2016.

44 Orkustofnun, orkustofnun.is.

45 Orkustofnun, orkuspárnefnd, desember 2015, Raforkuspá 2015-2050.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta