Hoppa yfir valmynd
04.09. 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 8: Góð atvinna og hagvöxtur

8. Góð atvinna og hagvöxtur - mynd

Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla

Víða í heiminum er það að hafa trygga atvinnu ekki nóg til þess að komast hjá fátækt. Sjálfbær hagvöxtur er því háður að samfélög heimsins skapi aðstæður þar sem fólk getur unnið störf á mannsæmandi launum sem skaða þó ekki umhverfið. Einnig þurfa ríki heims að sjá vinnuafli sínu fyrir starfsmöguleikum og viðeigandi vinnuskilyrðum. Hagvöxtur er mælikvarði fyrir heilbrigði hagkerfis og þykir mikilvægur fyrir framþróun ríkja. Ísland hefur viðhaldið jákvæðum hagvexti undanfarin sjö ár en fyrstu tvö árin eftir hrun (2009-10) var hagvöxtur neikvæður.46 Atvinnuleysi á Íslandi jókst umtalsvert árið eftir hrun en hefur minnkað jafnt og þétt frá árinu 2009. Atvinnuleysi á Íslandi mældist 2,9% á fyrsta ársfjórðungi 2018, líkt og 2017, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.47

Hagvöxtur, atvinnugreinar og sjálfbærni

Tryggja þarf að jákvæður hagvöxtur gagnist öllum þjóðfélagsþegnum. Í því skyni er mikilvægt að hagvöxtur fyrir alla speglist í stefnumörkun í opinberum fjármálum. Það felst m.a. í gerð fjármálastefnu ríkisstjórnar og fjármálaáætlunar og samkomulagi ríkis og sveitarfélaga. Stefnumörkunin byggst á fimm grunngildum: sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Framleiðni er lykilhugtak í áætlun stjórnvalda eins og fram kemur í stefnu Vísinda- og tækniráðs. Lögð er áhersla á nýsköpun og aukna framleiðni í öllum atvinnugreinum. Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið um að fjárfestingar í rannsóknum og þróun verði 3% af VLF fyrir árið 2024. Hér á landi hefur aukinni framleiðni í atvinnulífinu verið náð með aukinni fjölbreytni, tækninýjungum og nýsköpun. Ísland hefur ekki farið varhluta af litlum framleiðnivexti í hinum vestræna heimi frá árinu 2008 en framleiðnin hefur vaxið kröftuglega síðustu tvö ár og samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar er nú gert ráð fyrir að vöxturinn verði 2,9% árið 2018. 48 Stefna Íslands í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum er að auka enn frekar nýtingu aðfanga og afraksturs en Ísland er mjög framarlega í þessum málaflokki. Viðhald vistkerfa er megininntak í nýtingu íslenskra náttúruauðlinda og því leiðir hagnýting þeirra ekki til hnignunar þeirra. Þar af leiðandi er hagvöxtur nú þegar frátengdur hnignun auðlindanna. Ferðaþjónusta vex ört á Íslandi. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar 2019-2023 er lögð áhersla á orkusparnað og orkuskipti sem eiga að vinna að því að bæta kolefnisfótspor ferðaþjónustu og bæta umgengni um landið. Ekki hefur verið sett tímasett markmið um sjálfbæra ferðaþjónustu en unnið er að mótun stefnu fyrir ferðaþjónustuna.

Atvinnuþátttaka

Almenn þátttaka á vinnumarkaði er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Mikilvægt er því að sem flestir geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði án tillits til fötlunar eða skertrar starfsgetu en virkni í samfélaginu, þ.m.t. á vinnumarkaði, er einnig liður í auknum lífsgæðum. Af hálfu íslenskra stjórnvalda er því lögð áhersla á að tryggja nægjanlegt fjármagn til að unnt sé að veita snemmbæra aðstoð til að koma í veg fyrir langvarandi fjarveru af vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir öflugri ráðgjöf Vinnumálastofnunar þannig að fólk verði komið með starf við hæfi, í nám eða með starfsþjálfunarsamning innan við níu mánuði frá því það leitaði fyrst til Vinnumálastofnunar. Lögð er áhersla á að efla þjónustu við atvinnuleitendur með fötlun, þá sem hafa skerta starfsgetu eða standa höllum fæti að öðru leyti auk þess að fjölga vinnusamningum öryrkja. Það er jafnframt stefna íslenskra stjórnvalda að hér á landi skuli greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni og hefur jafnlaunavottun verið leidd í lög. Íslensk stjórnvöld leggja einnig áherslu á að aðstoða ungt fólk sem er án atvinnu eða stundar ekki nám eða þjálfun. Atvinnuleysi meðal ungs fólks á Íslandi mældist 4,5% hjá 16-24 ára í lok febrúar 2017.49 Samkvæmt norrænu velferðarvísunum árið 2017 var alls 4,1% fólks á aldrinum 18-24 ára hvorki að mennta sig né í vinnu eða þjálfun.50 Eftir hrun var farið í viðamiklar aðgerðir til að hindra að ungt fólk félli út af vinnumarkaði og/eða skóla. Þar var um að ræða samvinnu ráðuneyta, sveitarfélaga, Vinnumálastofnunar, stofnana innan menntakerfisins og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Jafnframt er lögð áhersla á að fjölga svokölluðum gæðastörfum fyrir ungt fólk í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir sem mæti þörfum viðkomandi fyrir hæfnisuppbyggingu og þjálfun og auki líkur á að viðkomandi haldist í starfi.

Viðkvæmir hópar

Ísland hefur fullgilt samþykktir frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) er varða lágmarksaldur við vinnu, samþykkt um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana, samþykkt um nauðungarvinnu eða skylduvinnu og samþykkt um afnám nauðungarvinnu. Einnig hefur Ísland fullgilt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá er unnið að nýrri aðgerðaáætlun um aðgerðir gegn mansali þar sem sérstaklega er gert ráð fyrir aðstoð fyrir börn þegar þau verða fórnarlömb mansals, en fyrri áætlun rann út árið 2016. Stefnt er að því að leggja fram nýja áætlun haustið 2018. Íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu og tryggja skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé unnt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál í samræmi við gildandi lög og reglur. Á Íslandi eru starfrækt öflug stéttarfélög sem gæta hagsmuna félagsmanna þeirra hvað varðar réttindi á vinnumarkaði en mikill meirihluti launafólks á innlendum vinnumarkaði eru félagsmenn í stéttarfélögum.51

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Háskólar Sameinuðu þjóðanna þjálfa ungt fólk frá ýmsum þróunarlöndum með það fyrir augum að auka fjölbreytni og kynna nemendum tækninýjungar á sviði jarðhita, fiskimála og landgræðslu. Að auki stuðlar Jafnréttisskóli Háskóla SÞ að auknum skilningi á málefnum kvenna og barna, þ.m.t. mansali og þrælkun kvenna og barna. Ýmis þróunarverkefni sem Ísland styður beinast að því að efla menntun og halda ungmennum í skóla, m.a. í Malaví og Úganda. Í samvinnu við Alþjóðabankann vinnur Ísland að því að styrkja sjávarútveg í vestanverðri Afríku. Stefnt er að aukinni samvinnu við bankann á sviði sjávarútvegs á komandi árum. Í austanverðri Afríku hefur Ísland til margra ára unnið rannsóknarstarf í beislun jarðhita í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn og Alþjóðabankann. Með kortlagningu á mögulegri jarðhitavirkjun til raforkuframleiðslu er lagður grunnur að auknum hagvexti og fjölbreytni atvinnulífs til framtíðar.

 

46 Hagstofa Íslands, hagstofa.is.

47 Hagstofa Íslands, 3. maí 2018, Atvinnuleysi 2,9% á fyrsta ársfjórðungi.

48 Hagstofa Íslands, 1. júní 2018, Þjóðhagsspá að sumri 2018.

49 Hagstofa Íslands, 3. maí 2018, Hagtíðindi, Vinnumarkaður á 1. ársfjórðungi 2018.

50 Sjá viðauka 1.

51 Hagstofa Íslands, 3. september 2015, Aðild að stéttarfélögum 2014.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta